Í þessari viku er mikið um að vera í Hannesarholti að venju. Hér má sjá þá fjölbreyttu og áhugaverðu dagskrá sem er í boði.
NÍELS ER NAPOLEON, 1
Leikritið Níels er Napóleon verður sýnt þriðjudaginn 11. mars og föstudaginn 14. mars kl. 20, miðar á tix.is
Hver var Napoleon? Hver er Níels? Níels er Napoleon.
„Níels er Napleon“ er lífleg leiksýning og vegleg vínsmökkun. Láttu leiða þig í töfrandi ferðalag um söguslóðir Napóleons þar sem þú kynnist keisaranum í gegnum keiminn. Tres amusant og tres charmant leiksýning úr smiðju Gunnars S. Jóhannessonar í meðförum Níelsar.
Níels Girerd er hálfur frakki sem þráir það eitt að verða heill. Í þessari bráðfyndnu sýningu setur Níels sig í hlutverk franskasta manns sögunnar, sem var þó ekki franskur. Níels túlkar fátæka föðurlandssinnan, ástríðufulla elskhugann, hershöfðingjann, keisarann og útlagann. Níels Thibaud Girerd er Napoleon
Við finnum keiminn af hafi, púðri, löðrungi, kynlífi og Korsíku í gegnum vín keisarans. Í þessari vínsmökkun fá áhorfendur að bragða á ljúffengu frönsku víni og heyra fánýttan fróðleik um konungafólk, byltingarsinna og samferðafólk Napoleons í þessari veglegu vínsmökkun.
Einnig verður hægt að koma sér í réttu stemninguna með franskri óvissuferð í borðstofunni á fyrstu hæð fyrir sýningu. Athugið að panta þarf matinn á tix.is og borðhald hefst kl. 18:00.
„Si vous escomptez avoir du succès dans le monde, promettez tout, ne donnez rien.“ (Ef þér viljið ná árangri í þessum heimi, skuluð þér öllu lofa og ekkert efna.) – Napóleon I, keisari Frakka.
Níels er Napoleon
eftir Gunnar S. Jóhannesson
Leikstjóri: Gunnar S. Jóhannesson
Leikari: Níels Thibaud Girerd
HEIMILI HEIMSMARKMIÐANNA
Hannesarholt hefur tekið að sér það hlutverk að verða heimili heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Eitt þeirra er að auka sjálfbærni og draga úr loftslagsvanda heimsins. Miðvikudaginn 12. mars kl.17:30, verður umræðufundur um samgöngur, frítt inn og opinn öllum einnig í beinu streymi:
Samgöngur eru ein af undirstöðum heilbrigðs samfélags. Þær tryggja öruggan flutning varnings og fólks á milli staða. Þær gera okkur kleift að sækja vinnu, menntun og afþreyingu. Við verjum stórum hluta ævinnar á ferðinni. Við eyðum mörgum klukkutímum í flugi, langkeyrslu og í Ártúnsbrekkunni. Eldsneytið er dýrt og svifrykið er að drepa okkur. Sjálfbærar samgöngur ættu að bæta lýðheilsu, stytta ferðatíma og kosta minna.
En hvað eru sjálfbærar samgöngur? Eru það rafmagnsbílar og borgarlína? Hjólreiðar og rafhlaupahjól? Hvernig verða samgöngur á Íslandi sjálfbærar? Á þessum umræðufundi Heimilis Heimsmarkmiðanna í Hannesarholti munum við ræða þessi mál og velta fyrir okkur hvað sjálfbærar samgöngur fela í sér.
Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar, mun stýra fundinum og sérfræðingar í pallborðinu verða: Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, skipulagsfræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands, Búi Bjarmar Aðalsteinsson, frumkvöðull, hönnuður, stjórnandi Hjólavarpsins og ástríðufullur hjólari, Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1 & Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Sigurdís er meðlimur í SÍM.