Borgarbókasafnið stendur fyrir tónleikaröð í samstarfi við Leif Gunnarsson kontrabassaleikara undir yfirskriftinni Dægurflugur. Markmiðið er að færa metnaðarfulla tónlist út í hverfi borgarinnar og gefa fólki færi á að njóta hennar í eigin umhverfi og á eigin forsendum. Á tónleikunum kemur fram margt af okkar helsta tónlistarfólki og þarna gefst frábært tækifæri til að koma saman, njóta fallegra tóna og spjalla við tónlistarfólkið eftir tónleikana.
Fyrstu tónleikarnir verða haldnir á Valentínusardaginn 14. febrúar í Gerðubergi og þeir heita, Spurt er hvað er ást? Marína Ósk söngkona, Kjartan Baldursson gítarleikari og Leifur Gunnarsson kontrabassaleikari flytja fjölbreytta tónlist til heiðurs heilags Valentínusar. Spurt er hvað er ást? Er ástin eitthvað sem hægt er að setja í poka og bannað er að loka? Getur nokkur verið heppinn í bæði ástum og spilum? Er ástin eins og sinueldur eða segulstál?
Tríóið mun leika tónlist frá ýmsum skúmaskotum tónlistarsögunnar og reyna að varpa ljósi á spurningar um ástina sem brenna á tónleikagestum. Hér að neðan er að finna dagsetningar tónleikanna Spurt er hvað er ást?:
Borgarbókasafnið Gerðubergi, föstudaginn 14. febrúar kl. 12:15-13:00
Borgarbókasafnið Spönginni, laugardaginn 15. febrúar kl. 13:15-14:00
Nánar um Marínu Ósk: marinaoskmusic.com
Nánar um Leif: lgtonar.com
Listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar er Leifur Gunnarsson tónlistarmaður.
Frítt er inn á tónleikana og eru öll hjartanlega velkomin.