Fyrir margt löngu greiddu menn einungis fasteignagjald og lóðagjald af eignum sínum. Síðan bættist við holræsagjald í Reykjavík, en það var sett á til að fjármagna framkvæmdir við hreinsun strandlengjunnar. Þeim framkvæmdum lauk, en eftir stóð gjaldið. Síðan hafa bæst við sorphirðugjald og skrefagjald, svo dæmi séu tekin. „Þetta er verulega íþyngjandi fyrir húseigendur“, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara. „Það næsta sem kemur er urðunargjald“. Hún segir að eldri borgurum líði ekki vel með þetta. „Tökum sem dæmi, ef fasteign í 101 Reykjavík, selst á háu verði, hefur það áhrif á fasteignagjald allra í póstnúmerinu 101 og þannig er það einnig í öðrum hverfum“, segir hún.
Lækka fasteignagjöldin um tugi prósenta
Þórunn segir að eldra fólk sem hafi eignast mörg börn og búi í stórum eignum greiði mjög mikla fasteignaskatta. „Þetta er mjög sýnilegt hjá fólki sem flytur úr stórum húsum í Seljahverfinu í nýjar íbúðir í Árskógum í Mjódd, það var að greiða gríðarleg fasteignagjöld en þau lækka um tugi þúsunda þegar fólk flytur í minna“, segir hún og bætir við að ýmsir telji réttara að miða fasteignagjöldin við brunabótamat. Þá sé það hin hliðin á peningnum, að hækkun fasteignagjalda á verslunarhúsnæði leiði til hærra verðlags sem bitni á öllum.
Mátti ekki fella niður fasteignagjöld á eldra fólk
Fasteignagjaldsprósentan er mismunandi eftir sveitarfélögum. Vestmannaeyjarbær felldi til dæmis niður fasteignagjöld þeirra sem voru sjötugir og eldri. Það var hins vegar talið ólöglegt og því fóru Vestmannaeyingar þá leið að þeir tóku upp afsláttarkerfi, fyrir alla sem eru 67 ára og eldri. „Við hækkuðum tekjuviðmiðið líka þannig að það nýttist fleirum“, segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og bætir við að fasteignaprósentan í Vestmannaeyjum sé nú að lækka, annað árið í röð. En það hafi verið tekin um það ákvörðun að láta ekki hækkun fasteignamats verða til þess að hækka fasteignagjöldin í bænum. „Það nýtist eldra fólki eins og öðrum“, segir hún.