Stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 13. desember 2017

Skortur á hjúkrunarrýmum er verulegur og þörf fyrir uppbyggingu er mikil á næstu fimm árum. Skortur á hjúkrunarrýmum skerðir bæði lífsgæði aldraðra og veldur auknu álagi á sjúkrahúsin. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er tekið fram að ráðist verði í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Í sáttmálanum kemur líka fram að hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun endurspegla þessa sókn í málefnum aldraðra.

Rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila þarf einnig að tryggja og sjá til þess að þeim sem búa á hjúkrunarheimilum bjóðist viðeigandi umönnun og þjónusta. Ný ríkisstjórn hyggst sjá til þess að það verði gert, og í því samhengi er samráð við notendur þjónustunnar og samtök eldra fólks mikilvægur þáttur. Aðra þjónustuþætti öldrunarþjónustu þarf einnig að treysta. Áhersla verður því til dæmis lögð á að efla heimahjúkrun og aðra þjónustu sem styður einstaklinga til sjálfstæðrar búsetu. Þannig er mikilvægt að tryggja að öldruðum bjóðist heimahjúkrun sem tekur mið af mismunandi þörfum einstaklinga og gerir þeim kleift að búa á eigin heimili eins lengi og kostur er og vilji stendur til. Aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga í rekstri heimahjúkrunar og heimaþjónustu þarf einnig að koma til, líkt og hefur gefist vel í Reykjavík.

Efla þarf dagþjónustu og endurhæfingu og sjá til þess að sú þjónusta fái nægilegt fjármagn. Endurhæfing eldra fólks getur stuðlað að auknum lífsgæðum og aukið öryggi þeirra sem búa
magn. heima, og þannig auðveldað þeim að halda sjálfstæði sínu. Þá þarf að efla samstarf við sveitarfélögin um rekstur dagþjónustu fyrir aldraða.

Sjá þarf til þess að aldraðir fái lifað með reisn og hafi möguleika á því að lifa innihaldsríku lífi, þar sem þeir njóta þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er hverju sinni. Hlutverk stjórnvalda er að tryggja að svo sé, enda verður bætt öldrunarþjónusta ofarlega á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar.

 

Ritstjórn desember 14, 2017 11:48