Sumar í sálina á miðjum vetri

Á veturna hefur fólk meiri þörf fyrir afþreyingu en á sumrin. Litríkur gróður, hlýrra veður og birtan dregur flesta út meðan á síðarnefndu árstíðinni stendur en myrkrið, kuldinn og lægðirnar sem ganga yfir landið kalla á einhverja skemmtun þegar sú fyrrnefnda er allsráðandi. Í vetur gæti verið gaman að nýta sér eitthvað af eftirfarandi.

Töfrar leihússins

Fátt jafnast á við leikhúsferð. Í Borgarleikhúsinu er verið að sýna verkið Óskaland en það fjallar um hjónin, Nönnu og Villa sem sest eru í helgan stein í Óskalandi, íbúðakjarna fyrir eldri borgara. Þegar Villi fer á námskeið í uppistandi fer að hrikta í stoðum hjónabandsins. Nefna má líka að sýningum á Elly lýkur eftir áramót og því hver að verða síðastur að njóta þeirrar dásamlegu sýningar og jólasýning leikhússins er Köttur á heitu blikkþaki. Það er orðið langt síðan þetta magnaða verk Tennessee Williams var síðast sýnt á Íslandi en það er löngu orðið klassískt. Áhrifamikið og flókið verk sem alltaf hreyfir við áhorfendum. Nú og svo má líka bregða sér á Jól á náttfötunum með barnabörnin. Notaleg stund með Gunna og Felix á aðventu er einmitt til þess fallin að koma mönnum í jólaskap.

Í Þjóðleikhúsinu er söngleikurinn Frost enn í fullum gangi en sú sýning er hreint ævintýri fyrir alla aldurshópa. Jól með Láru og Ljónsa er tilvalin ef ömmur og afar vilja eiga notalega stund með yngstu barnabörnunum á aðventunni. Jólasýning Þjóðleikhússins er Yerma. Magnað verk eftir Simon Stone. Hér eru dýpstu vonir og þrár manneskjunnar í forgrunni og hversu langt hún er tilbúin að ganga til að fá óskir sínar uppfylltar.

Matur og drykkur með þínum allra bestu

Fátt er skemmtilegra en að elda og njóta matar með sínum nánustu. Salt eldhús gefur fólki færi á að læra eitthvað nýtt sem síðan má kynna fjölskyldunni eða hreinlega fara saman nokkur og takast á við nýjar áskoranir í matargerð. Í desember eru mörg mjög spennandi námskeið í boði hjá þeim en námskeið í framandi matargerð er líka frábær jólagjöf sem fólk getur svo notið saman á nýju ári.

Jólahlaðborðin eru á sínum stað á flestum veitingastöðum og það er líka dásamlegt að fara á eitt slíkt með fjölskyldunni. Það góða er að hægt er að velja um að fara í hádeginu eða á kvöldin víða og ef valið er að fara að deginum er hægt að taka þau yngstu með.

Ljúfir tónar

Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá jólatónleika sem eru í boði á aðventunni en nægir að segja að þeir eru svo fjölbreyttir að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Notaleg nánd á litlum stað með einum tónlistarmanni eða stórviðburður í Hörpu með heilli sinfóníuhljómsveit. Þetta er í boði og allt þar á milli. Í huga margra eru tónleikar orðnir ómissandi hluti af aðventunni og árlega bætist í hóp þeirra tónlistarmanna sem kjósa að halda jólatónleika. Tónlist er órjúfanlegur hluti af jólahaldi og það er bæði hátíðlegt og skemmtilegt að njóta hennar fyrir jólin. Hvort menn kjósa að fara á stóran viðburð með tilheyrandi glysi og glamúr eða ganga inn í litla kirkju og hlusta er smekksatriði en víst er að anda jólanna er að finna á alls staðr. En hvort sem fyrri eða síðari kosturinn hljómar betur er nauðsynlegt að kaupa miða fljótt því eftirspurnin er mikil og margir viðburðir seljast upp um leið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 9, 2024 07:00