Ársfundur Tryggingastofnunar var haldinn í morgun og ársskýrsla Tryggingastofnunar fyrir árið 2024 birt í kjölfarið. Tryggingastofnun sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í kjölfarið:
Á fundinum voru haldin fjölmörg erindi en Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp þar sem meðal annars kom fram að þekking og reynsla starfsfólks TR væri ómetanleg. Stofnunin byggi sig undir að framkvæma viðamestu breytingar á almannatryggingum sem gerðar hefðu verið svo árum skipti þegar nýtt örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfi tæki gildi í haust. Gildi TR um traust, samvinnu og metnað yrðu í fyrirrúmi í þeirri vinnu og kristölluðu það þétta og góða samskiptanet sem byggst hefði upp milli stofnunarinnar og ráðuneytisins.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra.
Viðskiptavinum TR fjölgar um 21% á 10 árum
Í máli forstjóra TR, Huld Magnúsdóttur kom fram að árið 2024 var viðburðaríkt og krefjandi ár en TR stóð frammi fyrir fjölmörgum áskorunum og tækifærum sem hafa kallað á sveigjanleika, fagmennsku og framsækni í starfsháttum. Í ársskýrslu fyrir árið 2024 sem kom út í dag kemur fram að á árinu 2024 fengu 83.787 einstaklingar greiðslur frá TR, sem er 21% aukning frá árinu 2014. Stærstu greiðsluflokkarnir hjá TR eru ellilífeyrir, örorkulífeyrir og endurhæfingarlífeyrir.
Á árinu 2024 fengu 44.470 einstaklingar ellilífeyri, sem er langstærsti greiðsluflokkurinn. Stærsti hópurinn sem fékk greiðslur ellilífeyris frá TR á árinu 2024 er á aldrinum 70-79 ára eða tæplega 24 þúsund einstaklingar sem er 84,5% af þeim aldurshópi sem búsettur er á Íslandi.
Nýgengi örorku lækkar lítillega milli ára og hefur það verið þróunin undanfarin ár, en 20.767 fengu örorkulífeyri árið 2024. Að meðaltali fengu 2,8% landsmanna á aldrinum 18-66 ára greiddan endurhæfingarlífeyri á árinu 2024. Nokkur fjölgun hefur verið í hópi þeirra sem fá endurhæfingarlífeyri á milli ára, eða um 1.000 einstaklingar. Árið 2024 fengu 6.883 greiddan en endurhæfingarlífeyri en árið 2023 voru það um 1.000 færri.
Heildargreiðslur hækka um 20 milljarða á milli ára
Heildargreiðslur TR árið 2024 voru tæplega 224 milljarðar króna samanborið við rúmlega 204 milljarðar vegna ársins 2023. Stærsti greiðsluflokkurinn er ellilífeyrir sem árið 2024 var tæpir 112 milljarðar króna en var rúmir 103 milljarðar króna árið 2023. Örorkulífeyrir var tæpir 78.5 milljarðar króna árið 2024 en var rétt rúmir 74 milljarðar króna árið 2023. Endurhæfingarlífeyrir var tæpir 21 milljarður króna árið 2024 en var tæpur 15 milljarður 2023.
Nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi
Í júní árið 2024 voru samþykkt lög á Alþingi sem fela í sér umfangsmiklar breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu. Nýja kerfið, sem tekur gildi 1. september 2025, mun einfalda og bæta þjónustu við þá sem fá greiddan örorku- og endurhæfingarlífeyri. Meðal breytinga eru nýjar sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, virknistyrkur , örorkulifeyrir og hlutaörorkulífeyrir. Markmið breytinganna er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan lífeyri, draga úr tekjutengingum og auka hvata til atvinnuþátttöku.
Mikil vinna fór fram hjá TR allt árið 2024 við undirbúning þessa viðamikla verkefnis en innleiðing hins nýja kerfis er með stærri verkefnum sem TR hefur tekist á við á löngum ferli. Í nýju kerfi kemur samþætt sérfræðimat í stað núgildandi örorkumats sem verið hefur í notkun á Íslandi í rúman aldarfjórðung. Einnig hófst undirbúningur hjá TR við innleiðingu á nýju fyrirkomulagi samstarfs milli þjónustuaðila með svokölluðum samhæfingarteymum sem og hönnun á nýrri þjónustugátt. Innleiðing nýja kerfisins er mjög tæknilegt og umfangsmikið verkefni sem kallar á breytingar á hönnun stafrænna kerfa TR sem og hönnun nýrra kerfa.
Ánægja með þjónustu
Þjónustukannanir sýna að viðskiptavinir eru almennt ánægðir með þjónustu TR, en haldið verður áfram að leita leiða til að bæta hana enn frekar. Mjög góð útkoma er í könnun í þjónustumiðstöð í Hlíðasmára 11 þar sem um 96% viðskiptavina sem tóku þátt voru ánægðir með þjónustu starfsfólks TR. Í þjónustumiðstöð voru tekin tæplega 22.000 viðtöl á árinu 2024.
Í þjónustukönnun sem Maskína framkvæmdi í annað sinn fyrir TR meðal viðskiptavina kemur fram að traust til TR er sambærilegt og til annarra stofnana og fyrirtækja. Traust til TR mældist 3,36 en svokallað Maskínu meðaltal er 3,32 hjá öðrum fyrirtækjum og stofnunum. Meðaltal svara er á kvarðanum 1 til 5.
Mikilvægur hluti af þjónustu TR er upplýsingagjöf á vefnum tr.is sem var fluttur á Ísland.is vorið 2024. Jafnframt var opnaður þjónustuvefur þar sem fram koma fjölmargar spurningar og svör við þeim. Stöðugt er unnið að umbótum og uppfærslum á vefnum.
Árið 2025 ber í skauti sér einhverjar umfangsmestu breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem gerðar hafa verið og tekst TR á við það verkefni með gildi TR að leiðarljósi; metnaður, samvinna og traust.