TBK – hræjandi leikfimihópur í rúm 40 ár

Það er engum ofsögum sagt að límið í leikfimihópnum TBK sé kátína. Þær hafa nokkrum sinnum í gegnum tíðina verið teknar tali af ýmsum fjölmiðlum og nú er það Lifðu núna sem forvitnast um hvort þær væru enn að og í ljós kom að sú var sannarlega raunin.

Einu sinni tóku þær þátt í heilsuátaki hjá Hreyfingu þar sem var miðað við hollan lífsstíl og sigruðu með glæsibrag. „Það var fylgst með mætingu okkar og við mældar og vegnar, hvattar til að hlaupa o.s.frv. Þá komumst við meira að segja á forsíðu Séð og Heyrt,“ segja þær og skellihlæja.

Þær láta ekki uppi hvaða skammstöfunin TBK þýðir en það er á svip þeirra að sjá að það er eitthvað sprenghlægilegt. Þær segja að „Tindilfættu bullukollurnar“ gangi reyndar alveg en láta vera að segja frá meiru. Þessar hressu konur hafa haldið hópinn frá 1982 eða í rúm 40 ár. Þeim hefur fækkað af eðlilegum orsökum og hreyfingin hefur tekið á sig öðruvísi myndir en aldrei hefur þótt ástæða til að hætta í TBK. Frekar hafa þær minnkað við sig hreyfinguna tímabundið ef þurfa hefur þótt en þegar upp er staðið er félagsskapurinn nú risastór ástæða þess að þær mæta alltaf þegar þær geta í vikulegan  hádegishitting. Þessar konur þekkjast orðið mjög vel og hafa farið í gegnum bæði ánægjulega tíma en ekki síður erfiða tíma í lífi hver annarrar. „Sú vinátta er svo dýrmæt“ segja þær ákveðnar.

Gerðu líkamsækt snemma að lífsstíl sínum

Þessi mynd var tekin af leikfimihópnun þegar þær voru í viðtali við tímaritið ,,Áfram á besta aldri“ árið 2010.

Þegar „bullukollurnar“ eru beðnar um að rifja upp hvernig kom til að þær hófu að stunda líkamsrækt fyrir öllum þessum árum koma kunnugleg nöfn við sögu. Þar heyrast nefndar „Jónína Ben, Ágústa Johnson og Bára Magnúsdóttir.

Í byrjun voru flestar þessara kvenna heimavinnandi með lítil börn. Þær leigðu sal og komu saman klukkan átta á morgnana alla virka daga. Þetta segjast þær hafa gert í staðinn fyrir að fara í morgunkaffi hver hjá annarri. „Stundum fengum við leikfimikennara til að þjálfa okkur en við bjuggum svo vel að í hópnum var Hildigunnur, móðir Ágústu Johnson, og hún naut aðstoðar dóttur sinnar við að kenna okkur æfingarnar en Ágústa var þá í námi í íþróttafræðum í Bandaríkjunum. Jane Fonda varð því hvatinn sem þessar hressu konur, sem nú eru orðnar fullorðnar, gerðu líkamstækt að lífsstíl sínum enda nefndu þær hóp sinn fyrst Fondurnar. „Ágústa sendi mömmu sinni myndir af æfingum sem hún átti að láta okkur gera sem var mjög gagnlegt og skemmtilegt,“ segja þær brosandi. „Eftir nokkurn tíma af þessari sjálfsvinnu skráðum við okkur í líkamsrækt hjá Jónínu Ben og þangað mætti Ágústa svo þegar hún kom heim eftir námið í Bandaríkjunum.“  Nú stýrir Ágústa Johnson  líkamsræktarstöðinni Hreyfingu og þar eru sumar í þessum hópi enn í reglulegum tímum.

Hittast í spjalli hvern miðvikudag

TBK konurnar hafa hist á hverjum miðvikudegi í mjög langan tíma. Lengi vel hittust þær á veitingastaðnum Á næstu grösum því heilsusamlegt mataræði varð snemma hluti af lífsstíl þeirra og er sannarlega enn. Nú hittast þær í hádeginu á miðvikudögum á kaffihúsi og drekka saman te eða kaffi og fá sér eitthvað lítilræði með. Þær eru meira og minna hluti af upprunalega hópnum og eru enn í hreyfingu af einhverju tagi. Sumar enn í leikfimi, aðrar í jóga eða því sem hentar hrerri og einni.  Það gefur auga leið að lífsstíll þeirra hefur skilað sér í vellíðan á efri árum. Þar á líkamlega hreyfing og ekki síður jákvæðnin og kátínan sinn risastóra þátt. Sú yngsta í hópnum, litla stelpan, er 73 ára og sú elsta 83.

Þegar tíminn leið fóru sumar að vinna úti og helltust úr lestinni en héldu samt „partýpassanum“. Þær voru alltaf látnar vita af árshátíðum hópsins sem fara alltaf fram að sumri með hefðbundinni gönguferð um landið. Þær hafa gengið víða og segja að hver einasta gönguferð sé eftirminnileg því að í hverri þeirra hafi átt sér stað eitthvert ævintýri. Það er alltaf mikið við haft í nesti, bæklingar eru útbúnir með helstu upplýsingum og alltaf með grínívafi.

Sórafmæli notuð til hins ítrasta

Áhugi kvennanna á líkamsræktinni varð strax svo mikill að þær smituðu hver aðra og hjálpuðust að við að finna aðstöðu sem dygði til að áhugamál þeirra mætti verða að veruleika. Í öllum hópum eru sumir kraftmeiri en aðrir en í þessum hópi virðast þær allar búa yfir krafti. Öll tilefni eru notuð til að fagna og gera sér dagamun og þegar þær eiga stórafmæli er ekki hugsað um fyrirhöfn heldur er ekkert til sparað í þeim efnum. Þegar ein varð fimmtug þótti þeim ástæða til að búa til kvikmynd sem varð að allsherjar brandara því afmælisbarnið hélt að hinar hefðu ekki haft dug í sér til að gera neitt skemmtilegt fyrir sig í tilefni dagsins. Hún varð heldur en ekki spæld  þegar eiginmaður einnar kom á afmælisdaginn með kort til hennar frá þeim og hún lét þau orð falla, áður en hún opnaði kortið, að þær hefðu greinilega ekki haft miki fyrir vegna afmælisins. Eiginmaðurinn  sagði þá grafalvarlegur: ,,Þær eru bara svona þessar konur.“ „Svo fór hún inn með kortið og með því var diskur með kvikmyndinni sem við höfðum haft mjög mikið fyrir að búa til,“ segja þær skellihlæjandi.

 Ef þær grunar að afmælisbarnið ætli að sleppa létt, fara úr landi eða eitthvað álíka, er séð við því og ekki hætt fyrr en hinar fá sitt út úr afmælinu.

Makar þeirra fá oft að fara með í ferðalögin og úr hefur orðið mikil vinátta þeirra líka. Lengi vel gengu þær bara einar og makarnir hittu þær á áfangastað og borðuðu með þeim. „Svo var dansað og sungið fram á nótt,“ segja þær og brosa við tilhugsunina.

Grínljóð sem einn makinn samdi um þær hljóðaði svona:

Þær örkuðu lengi vel einar

svo ungar stúlkur og beinar

en svo aumar í tánum

þær báðu á hnjánum

komið þið með okkur sveinar.

 

Sumarbústaðir nýttir

Margar kvennanna eiga sumarbústaði og sem hafa gjarnan verið notaðir sem bækistöð og gengið út frá þeim. Sumar hafa átt hús í útlöndum og þau hafa líka verið nýtt þótt flestar ferðirnar hafi verið farnar hér á landi. Þær minnast þriggja ferða á Hornstrandir en ein á bústað í Hornvík, önnur á bústað á Laugarvatni og þá var gengið frá Þingvöllum, yfir Lyngdalsheiði og endað inni í dal í pottinum í bústaðnum. „Þá vorum við alveg búnar á því, komnar með hælsæri en þá var gott að stoppa við læki á leiðinni og kæla lúna fætur. Við vorum allar með göngunesti og einni okkar datt í hug að taka vatnsmelónu með,“ segja þær og skellihlæja. „Hún gleymdi reyndar að taka með sé hníf en vatnsmelónan var snædd og hún var sko gómsæt. Sú ógleymanlega ganga var farin 1991 á 10 ára afmæli hópsins,“ segja þær dreymnar á svip. „Í annað skipti gengum við frá Skálabrekku að Nesjavöllum og niður að vatninu. Þá gengum við fram hjá bústað þar sem kom út maður sem sagði: „Ef þið væruð karlmenn myndi ég nú bjóða ykkur upp á sjeniver“. Þá snerum við okkur snúðugar við og héldum röskar áfram göngu okkar,“ segja þær hlæjandi.

Sérkennilegir ferðamenn

,,Í einni Hornvíkurferðinni gerði svo vont veður að áætlunarferðir voru ekki farnar. Þá var okkur sagt að í bænum væri ástralskur hópur sem hefði leigt bát til að komast frá Ísafirði í Hornvík og við skyldum spyrja hvort við mættum fljóta með. Það var sjálfsagt og við buðum þeim að launum að koma til okkar í húsið morguninn eftir í hádegis- morgunmat. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem þetta fólk hafði komið á Vestfirðina því þau ráku sportvöruverslun í heimalandinu og nú voru þau farin að framleiða göngudót fyrir fullorðna þar sem tillit var tekið til þyngdar varningsins. Þau hafa eflaust auglýst Ísland vel því þau tóku óteljandi myndir til að nota í auglýsingar sínar.“

Rifjað var upp annað dæmi en það var þegar þau voru á leið út í Flatey á Breiðafirði en þá tók ein þeirra fullorðinn mann tali. Sá hélt á blaði frá ferðaskrifstofu þar sem á voru merktir staðir á Vestfjörðum. „Við spurðum manninn þá hvort hann ætlaði á alla þessa staði en hann sagði þá að hann vildi bara ferðast á fáfarna staði. Við sögðum  honum þá frá Hornströndum sem væri einmitt vinsæll fyrir suma,  einmitt vegna þess að þar væri nánast enginn. Hann uppveðraðist allur og þakkaði vel fyrir góð ráð. Þá reyndist þetta vera einn af þessum auðkýfingum sem var að flýja margmenni og upplifa eitthvað nýtt og spennandi því með honum var fylgdarfólk sem gætti hans og sá um að panta fyrir hann nauðsynjar.“

Sumarferðin í ár

Nú í sumar sem leið var farin í helgarferð upp í Borgarfjörð og nú fengu makar að koma með. „Við byrjuðum á Akranesi þar sem vitinn var skoðaður. Síðan fórum við til Borgarness þar sem dýrlegur málsverður var snæddur á Englendingavík. Svo voru Barnafossar skoðaðir og endað á að fara á Hótel Hamar þar sem við borðuðum kvöldverð og gistum um nóttina. Á heimleiðinni stoppuðum við á mjög skemmtilegu safni Gauja litla í Hvalfirði þar sem stríðsminjar og margt fleira var skoðað og í lokin fengum  við kaffi og gómsætt meðlæti hjá Gauja. Þrátt fyrir hækkandi aldur hætta TBK konurnar alls ekki að búa til viðburði þar sem þær skemmta sér saman og alltaf byggjast þeir viðburðir á einhvers konar hreyfingu. Það er nú líkegast ástæðan fyrir ánægjulegum tímum sem þær upplifa enn í dag og þær eru duglegar að minna hver aðra á það á hverjum miðvikudegi, alveg eins og þær hvöttu hver aðra áfram í upphafi líkamsræktarvegferðar sinnar fyrir rúmum 40 árum.

Ágústa Johson.

Nú uppskera þær

Þegar Ágústa Johnson var að hefja sína vegferð í líkamsrækt u.þ.b. 17 ára gömul segir hún að aðal hvatinn hafi verið að stunda skemmtilega hreyfingu og halda sér í fínu formi. „Þannig hófst áhugi minn á Jane Fonda æfingum og þolfimi sem varð fljótt gríðarlega vinsælt í kringum 1980,“ segir hún. „Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag vitum við hvað það skiptir gríðarlegu máli að stunda fjölbreytta hreyfingu og styrktarþjálfun fyrir alhliða heilsu, lífsgæði og ekki síst heilbrigðari æviár á síðara æviskeiði. Það hafa þessar konur sannarlega gert og nú uppskera þær,“ segir Ágústa.

„Í dag er orðin mikil vakning fyrir því að hlúa að heildrænni heilsu þ.m.t. andlegri heilsu, svefngæðum, streitustjórnun, hollum neysluvenjum og alhliða reglulegri líkamsþjálfun, ekki síst lyftingum.  Góður alhliða líkamsstyrkur alla ævi er talinn einn afar mikilvægur þáttur í að stuðla að langlífi.  Áherslan er annars almennt á vellíðan, góða orku og lífskraft.

Að leggja inn í heilsubankann

„Án nokkurs vafa, og ótal rannsóknir sem styðja það, skiptir sköpum fyrir lífsgæðin að leggja inn í heilsubankann jafnt og þétt alla ævi,“ segir Ágústa.  „En það er þó aldrei of seint að byrja og margar rannsóknir sýna fram á mikinn og góðan ávinning hjá fólki sem hefur lifað kyrrsetulífi í áratugi og farið að missa heilsuna en byrjað að stunda daglega hreyfingu og styrkja sig markvisst 2-3x í viku.  20-30 mín dagleg hreyfing vekur hjá okkur gleðihormónin, eykur orku og lífsgæði. Hættum aldrei að stunda markvissa hreyfingu!“ segir Ágústa ákveðin og hvetjandi.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.