Það er aðeins ein leið til

Ellert B. Schram

Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar:

 

Sem betur fer, lifir fólk lengur en áður. Sem er breyting sem við gleðjumst yfir. Sem gerir lífið eftirsóknarverðara, sem er guðsgjöf fyrir okkur öll, ung sem eldri. Breyttir lífshættir, meiri þekking, lækningar, lífstíll og heilbrigði. Það er dásamleg þróun og býður upp á mörg fleiri ár, lengra líf og þáttöku í samfélaginu, ekki aðeins fyrir þá  sem eldast, heldur líka hina, sem enn eru yngri og færir um að læra af reynslunni og eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum í þágu þeirra sem á eftir koma og taka við. Eldri borgarar eru mikilvæg kynslóð, pabbar og mömmur, afar og ömmur.  Fólkið sem veit og man, fólkið sem bjó til það sem við erfum, kynslóðin sem gerði þessa þjóð að ríku samfélagi.

Sjálfur er ég kominn í hóp aldraðra og nýt þess að eiga í  mig og á.  Svo er um marga aðra á minum aldri. En við megum ekki gleyma fólkinu sem hefur dottið út af vinnumarkaðnum vegna aldurs, fólkinu sem veikist, fólkinu sem einangrast, fólkinu sem er utangátta, eða fátækt.  Þeir eru kannske ekki svo margir, en nógu margir til að lifa of lengi, hvað ellilífeyriskerfið varðar, því það fólk á ekki fyrir nauðsynjum, hefur lítið sem ekkert á milli handanna, nema lífeyri frá almannatryggingum. Sem er í hæsta lagi 300 þúsund krónur á mánuði, og af því er tekinn skattur, niður fyrir þrjú hundruð þúsundin, langt fyrir neðan framfærslu sem nú er mæld 354 þúsund krónur á mánuði.

Ég er í hópi þeirra, sem aftur og aftur hafa leitað eftir lagfæringu og lagt fram áskoranir um aðgerðir og ákvarðanir um að rétta þessum hópi eldri borgara, höndina. Í starfi mínu sem formaður í félagi eldri borgara hef ég kynnst og fengið frásagnir um fátæktina hjá hundruðum manna og kvenna, sem  búa við það eitt að fá hungurlús frá tryggingarkerfinu. Sem hvergi er nærri raunveruleikanum  í daglegu striti. Og aðstoð sem hvorki er fugl né fiskur.

Það fer ekki mikið fyrir þessu fólki frá degi til dags. Það er ekki viðfangsefni í fréttum og frásögnum af fólkinu á meðal okkar. Hverjum dettur í hug að auglýsa opinberlega fátækt sína? Hver vill segja opinberlega frá vanda sínum og vesæld, þegar meðallaun í landinu eru milli sex og sjö hundruð þúsund krónur á mánuði?

Sem formaður í samtökum eldri borgara, læt ég mér koma við hvað og hvernig væri hægt að gera betur, gagnvart þeim sem hafa orðið útundan. En það er ekki á mínu valdi að taka ákvarðanir. Ég og mitt fólk ráðum ekki ferðinni. Við getum það eitt, að biðla til stjórnvaldsins, ríkistjórnarinnar, stjórnmálaflokkanna og Alþingis. Við fengum því ágengt að skipaður var starfshópur sem á að leggja fram tillögur um málefni eldri borgara. Það er gott svo langt sem það nær. Sá starfshópur tekur sér tíma fram á haust, sem er of langur tími til að bregðast við fátækt í hópi elstu kynslóðarinnar.

Ég sit hér og skrifa þessa grein mína, af því að ég hef kynnst þeirri átakanlegu stöðu sem liggur fyrir hjá alltof mörgu fólki. Það getur ekki beðið. Það verður að bregðast við þeirri staðreynd að fólk á mínum aldri, sjötugt og eldra, einangrast, hverfur og deyr að lokum, án þess að njóta lífsins, án þess að eiga sinn aldur í hamingju og hugprýði.

Sjálfur hef ég lagt til að brugðist verði við þessari sorglegu niðurlægingu, ellilífeyrir hækki og skattar á lægstu ellilífeyrisgreiðslur verði felldir niður til að gefa fólki tækifæri til að ljúka sínu æviskeiði með reisn.  Ekki gleyma því að þeir sem hafa metnað og samúð með bræðrum sínum og dætrum, foreldrum sínum og samfélaginu, hafa það verkefni og þá skyldu að koma til móts við þá samferðarmenn sína, sem þurfa á hjálp að halda. Það er í rauninni skylda okkar og allra þeirra sem ráða ferðinni og hafa völd, að bæta samfélagið, að sýna hug sinn og vilja, til að fylgja þessu máli eftir og gera það sem gera þarf. Strax. Það er aðeins ein leið til. Koma þessu í verk. Afnema fátækt eldri borgara.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ellert B. Schram júní 15, 2018 13:02