Við höfum ekki tíma til að bíða

Ellert B. Schram

Ellert B Schram formaður FEB skrifar

Eins og ég hef áður greint frá, bað Félag eldri borgara í Reykjvík, í ágústmánuði s.l. um fundi og samtöl við þrjá ráðherra varðandi hagsmunamál eldri borgara og lagði fram langan lista um umræðuefni. Þar bar hæst breytingar á frítekjumarki. Frítekjumarkið felur í sér að fólk á efri árum, sem þiggur ellilifeyri frá Almannatryggingum, getur aðeins haldið eftir tuttugu og fimm þúsund krónum af atvinnutekjum, þar sem ellilífeyrinn frá TR (almannatryggingum) lækkar. Þetta fyrirkomulag hefur fallið í grýttan jarðveg meðal eldri borgara. Ég hef kallað þetta fátæktargildru. Sem það er.

Nú, síðustu vikurnar hafa þrír fundir verið haldnir með fulltrúum velferðarráðuneytisins. Undirtónninn var sá, af hálfu ráðherra stjórnarflokkanna þriggja, að hendur þeirra væru bundnar af fjármálaáætlun ríkistjórnarinnar, sem gerir ráð fyrir hækkun frítekjumarks á fjórum, fimm árum. Lengra vorum við ekki komnir  þegar ríkisstjórnin sprakk og boðað er til nýrra kosninga. Á lokasprettinum lagði  velferðarráðherra til að frítekjumarkið verði hækkað á næstu tveim árum í stað fimm ára, svo framarlega sem allir aðrir flokkar á þingi, skrifi undir þá breytingu og fái afgreiðslu á alþingi.

Ég hef, ásamt Gísla Jafetssyni, framkvæmdastjóra FEB haft samband við alla flokka, sem nú sitja á þingi, og það er frá því að segja, að sex stjórnmálaflokkar, af sjö, sem nú eiga fulltrúa á Alþingi, hafa lýst yfir stuðningi við hækkun frítekjumarksins í tveim áföngum. Ég hef gert mér vonir um að sjöundi flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, taki þátt í þeirri lagabót. Eða komi með tillögu um leiðréttingu á lífeyri þeirra sem hafa kröppustu kjörin. Meginatriðið er að allir flokkarnir hafa skilning og skoðun um nauðsyn breytinga á bótakerfinu. Hvort sem það gerist á undan eða eftir kosningar. Allavega sem fyrst.

Það eru góðu fregnirnar.

Næstu verk Félags eldri borgara eru þau að snúa sér að öllum þeim flokkum sem tilkynna framboð, og fá frá þeim, skýr svör við þeirri spurningu, hver afstaða þeirra sé varðandi núverandi frítekjumark og raunar fleiri hagsmunamál sem snúa að eldri borgurum. Þau eru ærin. Fullorðið fólk skiptir tugþúsundum og nú skulum við, sem kjósendur, standa saman, standa vörð um hagsmuni þeirra sem komnir eru á aldur og fylgjast með því hvað boðið er upp á, af hálfu flokka og frambjóðenda. Hver verða kosningaloforðin?  Hverjar verða efndirnar?

Í raun og veru geta alþingiskosningar í haust ráðið úrslitum um framvindu mála er varða eldri borgara. Og ég vil líka nota tækifærið til að vekja yngra fólk til vitundar um mikilvægi þess að bæta hag aldraðra, afa og ömmu, pabba og mömmu og þeirra sjálfra þegar þar að kemur. Okkur varðar öll um hvernig samfélagið hagar sér gagnvart eldra fólki, ekki síst þeim sem búa við kröpp kjör. Þetta er ekki aðeins barátta um að bæta hag þeirra sem nú teljast aldraðir. Það er verið að takast á um grundvöll og stefnu um komandi kynslóðir, ekki bara verkefni morgundagsins heldur líka framtíðarinnar. Við höfum ekki tíma til að bíða.

 

Ellert B. Schram september 25, 2017 09:00