Úr einu í annað

Ellert B. Schram

Ellert B Schram formaður FEB skrifar:

Þegar þetta er skrifað, sitja fjórir flokkar á fundum til að mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er spennandi hvort það takist. Ef við skoðum málefni flokkanna sem buðu fram, vekur það athygli að stóru flokkarnir og aðrir framboðslistar lofuðu einu og öðru varðandi hagsmuni eldri borgara, átak í húsnæðismálum, útrýming fátæktar, niðurfelling á fasteignagjaldi( Sj.fl.), aukin þjónusta í velferðarmálum, voru mál sem sett voru fram.

Við getum ekki annað en lýst ánægju okkar á þeim áhuga að margir framboðsaðilar, leituðu til FEB um mikilvægustu málaflokka eldri borgara og aðgerðir, þeim í hag. Samstarf milli félags eldri borgara og borgarstjórnar er nauðsynlegt og mikilvægt. Bæði fyrir og eftir kosningar.

Ég get ekki annað verið en bjartsýnn um að þeim áhuga og þeim málflutningi verði fylgt eftir, hverjir sem svo mynda meirihlutann. Við bíðum og vonum það besta, hvernig svo sem þetta raðast upp.  Stundum tóku sumir upp í sig með aðgerðir, svo sem algjört  afnám  fasteignagjalda, hækkun launa og með eða móti lagningu borgarlínu, hvað þá  að byggja þúsundir íbúða, einn tveir og þrír. Margt af því sem lofað var, er auðvitað háð tíma, fjármálum, lögum og þátttöku ríkisins. Svo ekki sé talað um fátæktina hjá eldri borgurum. Tölum örlítið um hana. Fátæktina.

Fyrr í vetur (í tengslum við fjárlög á Alþingi og fjármálaáætlun ríkisins)voru ellilífeyrisbætur hækkaðar hæst í kr. 300 þús. Hækkaðar um tæp 5%, á sama tíma og framfærsluviðmið voru reiknuð í 350 þúsund kr. Með öðrum orðum, hámarksgreiðslur TR eru langt fyrir neðan viðurkennd framfærslumörk.

Meðan við bíðum eftir niðurstöðu í umræðum um myndun meirihluta í höfuðborginni, birtist okkur annað og öðruvísi mál, sem snertir hag útgerðarinnar á Íslandi. Lögð er fram tillaga á Alþingi, í nafni ríkisstjórnarinnar um lækkun veiðigjalds hjá kvótaeigendum, um þrjá milljarða. Nú þarf ekki að vísa í fjármálaáætlun ríkisins (eins og gert er, hvað ellilífeyri eldri borgara varðar). Skildi það vera tilviljun að þessum báti hafi verið ýtt úr vör, daginn eftir sveitastjórnarkosningarnar? Þagað um fyrirgreiðslu til útgerðarfyrirtækja sem hafa aðgang að auðlindinni okkar í hafinu og velta milljörðum í hagnaði, hafa af hálfu núverandi ríkisstjórnar forgang vegna breytinga á stöðu gengis krónunnar og lækka gróðann hjá þeim sem hafa aðgang að fiskauðlindinni. Sem við eigum öll. Og þá spyr ég: Hvað hafa útgjöld, leiguverð, íbúðaverð, matvæli og hverskonar kostnaður hækkað til framfærslu hjá þeim sem verst standa? Hafa þeir aðilar sem hafa aðgang að auðlind Íslendinga(fiskimiðunum) forgang fram yfir  aðrar stéttir, gamalt fólk, unga fólkið og þá sem búa við fátækt vegna lágra launa, skerðinga, skattkerfis og húsnæðisokurs.  Er það forgangsmál að lækka skatta hjá þeim sem hafa aðgang að auðlind þjóðarinnar, meðan fátækir eldri borgarar eru settir aftast á biðlistann. Til hliðar. Hvar er dómgreindin, hvar er réttlætið, hver er mannúðin?

Ellert B Schram, formaður FEB og nágrennis.

Ellert B. Schram júní 4, 2018 09:57