Jón Ársæll Þórðarson hefur verið fastheldinn á húsnæði og búið í sama húsinu frá því hann flutti að heiman átján ára gamall. Að öðru leyti myndu sjálfsagt fæstir tengja orðið fastheldinn við hann, enda hefur hann gegnt fjölbreyttum störfum og tekur fagnandi hverju nýju skeiði lífsins. Nýlega gaf hann út bók með ýmsum æskuminningum og er að sögn að grúska í ýmsu fleira úr fortíðinni sem aldrei er að vita nema endi líka á bók.
Jón Ársæll býr við Framnesveg í Reykjavík í gömlu, hlýlegu timburhúsi. Að utan virðist það ákaflega lítið en það er kjallari undir öllu húsinu og þau byggðu við, hann og Steinunn þegar drengirnir þeirra fæddust, svo það leynir á sér.
„Ég flutti milli staða með foreldrum mínum þegar ég var barn. Við bjuggum fyrst austur á landi en fluttum svo suður til Reykjavíkur. En það hefur ekki verið reyndin eftir að ég fór að búa. Einhvern tíma fórum við tala um það hjónin að við værum farin að hugsa um að minnka við okkur. Þá urðu voðalega hissa þeir bræður, synir okkar, því þeir höfðu ekki kynnst því að við værum að flytja mikið.“
Átti ekki að verða bók
Steinunn Þórarinsdóttir er með vinnustofu sína aðeins ofar á Framnesvegi svo það er stutt fyrir hana að fara. Hér hafa þau því allt sem þau þurfa að sögn Jóns Ársæls. En snúum okkur að bókinni, Ég átti að heita Bjólfur, í henni er að finna margvíslegar lýsingar á gömlum atvinnuháttum og verklagi sem nú er alveg horfið. Varstu kannski öðrum þræði að leggja þitt að mörkum til að varðveita upplýsingar um hvernig hlutirnir voru gerðir?
„Ekki var það nú, frekar en margt annað við þessa bók, fyrirfram ákveðið,“ segir hann. „Upphaflega settist ég niður og ætlaði að skrifa sögur frá því í gamla daga sem ég mundi eftir bara til að skrifa þær niður. Þetta átti ekki að verða bók. Ég, eins og margir aðrir, af minni kynslóð, tók strax þátt í atvinnulífinu. Þetta var bara stíllinn þá. Ég var farinn að vinna fyrir kaupi strax fimm ára gamall því ég réði mig í sveit og fékk alltaf eitthvað borgað í sveitinni. Einu sinni var það ungahæna með ungum og í annað skipti rófupoki. Svo var það bara hluti af hversdeginum að vinna á sumrin og á veturna þegar frí var í skólanum. En um leið kynntist maður auðvitað lífinu í landinu og tók á með sér eldra fólki.
Ég er alinn upp með fullorðnu fólki, að því leyti var þetta svolítið öðruvísi en er í dag. Um leið kynntist maður ellinni strax ungur að árum. Ég vann til dæmis með mörgu gömlu fólki og umgekkst marga eldri borgara. Það var auðvitað ævintýri út af fyrir sig og að fá að hlusta á gamalt fólk segja sögur. Ég heillaðist af sögum sem barn og ég var svo heppinn að vera í sveit þar sem húsmóðir mín var sagnakona. Hún sagði okkur krökkunum sögur og var sagnabrunnur sem virtist nær óendanlegur.“
Krakkar og gamalt fólk, góð blanda
Lærðir þú kannski af þessu fólki frásagnartækni sem nýttist þér síðar? „Það má vera. Að segja sögur var einhvern veginn bara hluti af því að vera til. Mér finnst ég hafi lært að ljúga upp einhverjum sögum alveg frá því ég var krakki.“
Heldur þú að þetta vanti í okkar samfélag eins og það birtist í nútímanum, þ.e. að börnin okkar og ungmennin þekki ellina, vinnuna og vinnuálagið sem fylgir fullorðinsárunum?
„Það er örugglega nokkuð til í því en um leið er þetta bara tímanna tákn. Þeir breytast víst og mennirnir með. Þetta er ekki sama samfélag í dag og við erum alin upp við frá því um miðja síðustu öld. Þá voru allt aðrar aðstæður. Hinir fullorðnu voru mun meira með og meiri þátttakendur en þeir eru í dag. En krakkar elska að umgangast hina fullorðnu ef þau geta það, komast í tæri við gamlingjana. Maður sér það að börn og gamalt fólk eiga mjög vel saman og það er ýmislegt sameiginlegt með æskunni og ellinni. Það kom í ljós á þessu ferðalagi mínu þegar ég var að skrifa bókina að ég var ekki síður að hugsa um ellina en æskuna þó svo ég væri að skrifa um bernskuna. Einhvern veginn kom ellin inn í þetta, enda er ég líka að skrá niður sögur af ömmum mínum og öfum og hinu liðna. Það var líka hluti af því að alast upp þegar ég var barn, minningarnar um hið liðna. Bæði var mikið verið að segja sögur af fólki úr fortíðinni þegar ég var krakki þannig að fortíðin var einhvern veginn allt um kring.
Í seinni tíð eftir að ég var orðinn fullorðinn maður fór ég að lesa mikið ævisögur fólks og það er kvartað mikið undan því á þessu heimili að einu bækurnar sem ég lesi almennilega séu hinar svokölluðu neftóbaksbókmenntir en það er bækur sem eru fullar af kaffi og neftóbaksblettum. Mín vörn er sú að ég segi að ég verði að lesa gömlu bækurnar fyrst áður en ég byrja á nýju bókunum. Svo er ég sjálfur farinn að skrifa og er þá að skrifa um fortíðina.“
Villtist inn í blaðamennsku
Í mörg ár vannstu við að fá annað fólk til að segja sögur sínar og leggja þitt að mörkum til að koma á framfæri raunsannri mynd af lífi viðmælenda þinna.
„Já, ég gerði það,“ segir hann. „Ég villtist þangað í raun og veru. Ég var starfandi sálfræðingur í Reykjavík eftir að ég kom úr námi en svo sá ég auglýst eftir blaðamönnum á NT. Það var nýtt blað sem verið að var að stofna upp úr gamla Tímanum og ég sótti um og fékk starfið. Ég hafði alltaf verið svolítið veikur fyrir blaðamennsku og tekið áfanga í henni meðfram náminu í sálfræði í háskólanum. Þannig að ég var allt í einu farinn að segja sögur á NT og fá borgað fyrir það. Eftir það var ekki aftur snúið. Á tímabili fór ég yfir í að skrifa í tímarit og þaðan yfir í útvarp og síðan í sjónvarpið.“
Sögurnar í bók þinni fjalla margar um fólk og eru lýsingar á persónum. Það skín í gegn að þú ert næmur á fólk og hefur góða athyglisgáfu. Þér tekst einnig vel að lesa í hegðun manna. Hefur þetta fylgt þér lengi eða þróaðir þú með þér þennan hæfileika í sálfræðináminu og starfi þínu sem sálfræðingur?
„Ég held að þetta hafi kokkast upp smám saman þessi áhugi á fólki. Meðan ég var að skrifa þessar minningar sá ég atvikin fyrir hugskotsjónum mínum eins og ég væri að horfa á kvikmynd. Þannig man ég þau. Að ég tali ekki um þegar ég fór að skoða gamlar myndir frá fyrri æviárum. Þá rifjaðist margt upp fyrir mér og þær komu til mín ein sagan af annarri.“
Þurftu að sofa hjá viðmælendum
Jón Ársæll tók ótal viðtöl við fólk í starfi sínu sem fjölmiðlamaður og þótti einkar laginn við að fá viðmælendur til að tala um hluti sem þeir höfðu kannski aldrei talað um áður.
„Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um að hlusta á fólk,“ segir hann. „Auk þess þarf ákveðna væntumþykju til. Manni þarf að þykja vænt um viðmælanda sinn og mín nálgun var alltaf huglæg eða subjective frekar en objective. Ég fékk mest út úr því að dvelja með fólki og vera með því. Þá finnst mér losna um höftin og sögurnar taka að streyma fram. Við vorum stundum sakaðir um það, ég og Steingrímur Jón Þórðarson kvikmyndatökumaður sem var alltaf mér við hlið, að við yrðum að sofa hjá viðmælendum okkar til að fá eitthvað út úr þeim. Og vissulega kom það fyrir að við dvöldum það lengi hjá fólki að við fengum að leggja okkur hjá því, að ég tali nú ekki um þegar við vorum úti á landi með myndavélina.
Það var raunar hugmyndin með þessum þáttum, Sjálfstætt fólk, að taka á með fólki, vinna með því, dvelja hjá því og kynnast því á þann hátt. Ein hugmyndin var raunar sú að ég ætlaði að bregða örlítið fæti fyrir fólki og að í fallinu kæmi sannleikurinn í ljós. En þegar við fórum að vinna þættina þurfti ekkert að bregða mönnum eða reyna að plata upp úr þeim sannleikann. Hann kom bara fljótandi viðstöðulaust.“
Fólk hefur þá verið tilbúið að tala við ykkur um nánast hvað sem var? „Sú reyndist raunin. Víst er það líka svo að við úðum út frá okkur leyndarmálum okkar hvort sem við viljum það eða ekki. Ef menn leggja sig eftir að hlusta á viðkomandi kemur ávallt sannleikurinn í ljós.“
Alltaf að grúska
Ertu farinn að ráðgera aðra bók eða fleiri bækur? „Nei, ég lifi fyrir núið og sé varla til morgundagsins,“ segir hann.
Svo þú ert ekkert með skáldsögu í huga eða frásagnir af því fólki sem þú hefur verið að leita heimilda og upplýsinga um meðan þú skrifaðir bókina?
„Ég er alltaf að grúska. Um þessar mundir er ég að grúska í hlutum sem gerðust snemma á síðustu öld. Ég hef líka verið að skoða sjóferðasögu föður míns, sem var togaraskipstjóri og lenti í miklum hremmingum í seinni heimstyrjöldinni þar sem tvö af skipum hans voru sigld niður og hann bjargaðist við illan leik í bæði skiptin. Ég hef verið að grufla í þeim sögum því annars er þetta allt á leiðinni burtu frá manni og þessar sögur úr seinni heimstyrjöldinni sem voru svo lifandi í minni æsku eru einhvern veginn smám saman að hverfa frá okkur. Það var sífellt verið að tala um hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í stríðinu. Nú er ekki lengur minnst á þetta.“
Það er ekki hægt annað en að taka undir þetta og ungt fólk í dag telur að Íslendingar hafi farið ákaflega vel út úr heimstyrjöldinni síðari en það er ekki allskostar rétt. Margt hefur verið rifjað upp nýlega sem bendir til annars, til að mynda þættir um íslenskt fólk sem var tekið til fanga af Bretum og flutt í stríðsfangabúðir í Bretlandi. Margir íslenskir sjómenn létu líka lífið þegar skip þeirra voru sigld niður eða skotin niður af Þjóðverjum.
„Já, einmitt, við töpuðum mörgu fólki, sérstaklega sjómönnum og það var mikið verið að tala um þetta heima hjá mér og ég hef verið að grúska í þessu öllu saman. En ég hef yfir höfuð áhuga á lífinu og hvernig það gengur fyrir sig. Nú hef ég allt í einu meiri tíma eftir að ég hætti að vinna og þá opnast margar gáttir fyrir manni. Ellin opnaðist einnig svolítið upp fyrir mér þegar ég fór að skoða æsku mína. Svo er maður náttúrlega að eldast sjálfur og það er ævintýri að fylgjast með öllum þeim breytingum og því sem kemur í ljós við að eldast. Ég lærði á sínum tíma öldrunarsálfræði við háskólann. Það var hluti af námi mínu og ég hef alltaf haft áhuga á hvernig það æxlast að þroskast og eldast og ekki síst núna þegar ég finn á eigin líkama og sál árin færast yfir. Við tölum um það hér heima að eldast saman og það er töluvert ævintýri og ekki síður að geta talað um það um leið og það gerist.“
Hið yfirskilvitlega hluti af hversdeginum
Fylgir það kannski auknum aldri þessi þörf að horfa til baka? „Ég er alveg viss um það og fortíðin opnast fyrir manni þegar litið er um öxl. Ég tek eftir því að ég er oft að máta sjálfan mig í dag við mismunandi skeið í lífi mínu. Það er líka eitt sem ég sakna og það er að hafa ekki spurt foreldra mína meira um þeirra líf meðan þau voru á lífi og ég sjálfsagt ekkert einn um það. Allt í einu áttar maður sig á að það fólk er farið sem maður hefði átt að spyrja. Svona er nú gangur lífsins að loks þegar maður hefur döngun í sér að spyrja þá er það orðið of seint. Nú er mér sagt að það styttist í að við getum farið að tala við látna foreldra okkar gegnum gervigreind. Það verður spennandi.“
Sannarlega en það setur þá annan blæ á miðilsstarfið. „Já, talandi um miðla, foreldrar mínir efuðust ekki mikið um tilvist hins yfirskilvitlega og miðlar voru partur af prógramminu. Ég hef alla mína ævi gengið út frá því að yfirskilvitlegir hlutir séu hluti af hversdeginum og ég kem aðeins inn á það í bókinni því ég fór sem fullorðinn maður í háskólanum að taka þátt í rannsóknum á miðlum og miðilsstarfinu. Þar komu í ljós hlutir sem virtust hreint með ólíkindum. Við skulum átta okkur á því að ýmislegt bendir til að við erum ekki ein á þessari vegferð okkar.“
Og í bókinni er einmitt góð saga af því hvernig hið yfirskilvitlega kemur til skjalanna. Jón Ársæll átti að heita Bjólfur. Samkomulag var milli foreldra hans um að faðir hans fengi að ráða nafni en rétt áður en drengurinn er borinn til skírnar, vitjar maður nafns.
„Já, móðir mín og móðursystir afstýrðu því með laglegum hætti. Það má ekki vanmeta okkar gömlu góðu mæður og formæður,“ segir hann og hlær en það er kominn tími til að kveðja manninn sem átti að heita Bjólfur en hlaut þess í stað nafnið Jón Ársæll.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.