Lestur er góð afþreying. Fólk virkjar margar heilastöðvar þegar það les og skynjunin er hvik og vakandi. Stundum langar hins vegar meira að segja mestu lestrarhesta að lesa eitthvað notalegt sem ekki er of krefjandi. Ástarsögur er fín leið til þess að slaka á og hverfa um stund inn í ljúfan heim þar sem allt fer vel.
Notalegt andrúmsloft í Brooklyn
Litla bakaríið í Brooklyn eftir Julie Caplin er vel skrifuð ástarsaga þar sem New York leikur stórt hlutverk. Borginni er lýst á skemmtilegan hátt og verður frábær bakgrunnur sögunnar. Sophie Bennings fær starf sem matarritstjóri hjá vinsælu tímariti. Hún hefur nýlega gengið í gegnum ástarsorg og er þess vegna mjög upptekin af starfi sínu og kýs að gefa sér lítinn tíma fyrir félagslíf.
Hún býr í notalegri íbúð yfir bakaríi í Brooklyn og henni líður eins og hún hafi alltaf átt heima þarna. Hún skreppur af og til niður til að hjálpa til við að baka og skreyta kökur. Þegar hún Todd McLennan, dálkahöfund hjá útgáfufyrirtækinu er hún ekki áhugasöm en fljótlega kemur í ljós að þau eiga meira sameiginlegt en hún taldi fyrstu og þau laðast sífellt meira hvort að öðru. Þetta er ósköp sæt saga og notalegur andi svífur yfir.
Ástin sigrar að lokum
Sænska ástarsögudrottningin og femínistinn Simona Ahrnstedt er klínískur sálfræðingur að mennt sérfræðingur í hugrænni atferlismeðferð. Hún skynjar kannski manna best þörf nútímafólks til að hverfa af og til úr hörðum heimi inn í veröld þar sem allt fer vel að lokum.
Með hjartað að veði segir frá Dessie og Sam. Þau áttu í ástarsambandi þegar þau voru ung en svik urðu til þess að þau skildu að skiptum. Dessie gengur í herinn og tekur þátt á hernaði í fremstu víglínu átakasvæði. Eftir að hún hverfur aftur heim til Svíþjóðar ræður hún sig í vinnu við öryggisvörslu. Dag nokkurn hefur ríkur hóteleigandi samband við fyrirtækið sem hún vinnur hjá og biður þá að senda sér lífvörð. Hóteleigandinn reynist Sam og Dessie er skipuð í verkið. Og þá reynir á hvort gamlar glæður hafi að fullu slokknað eður ei.
Hvað á að segja og hvað láta ósagt?
Jill Mansell er metsöluhöfundur á Bretlandseyjum og víðar um heim. Hún skrifar jafnan um fjölskyldutengsl og þær flækjur sem geta skapast í nútímanum þegar fjölskyldur eru ekki einfaldar heldur margvíslegar og skyldleikinn ekki alltaf gegnum blóðtengsl.
Sagan hefst í Lanrock á Suðurströnd Cornwall. Þrjú ungmenni, Amber, Lachlan og Raffaele hittast þegar þau eru send í fóstur til May og Teddy. Þau tengjast fljótt vináttuböndum og kalla sig skytturnar þrjár. Þau halda tengslunum við með því að halda jólin árlega í Cornwall með fósturforeldrunum. Þegar Teddy missir May og kynnist nýrri konu breytist margt. Amber er ástfangin af Lachlan en þorir ekki að tjá raunverulegar tilfinningar sínar til hans af ótta við að skemma vináttu þeirra og eyðileggja þessa fjölskyldu sem þau hafa komið sér upp. Hér eru á ferðinni margar ástarsögur í einu.
Við fáum að heyra sögu May og Teddy sem elskast þar til dauðinn aðskilur þau og veltum fyrir okkur hvort Teddy hafi fundið sanna ást aftur með Olgu. Raffaele er ástfanginn af Veru en upp úr sambandi þeirra slitnar og hann skilur eiginlega ekki af hverju. Er Vera að leyna einhverju eða er þetta vonlaust? Og hvernig fer þetta eiginlega milli Lachlan og Amber?
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.