Þarf að endurnýja rúmdýnuna?

Því hefur stundum verið haldið fram að rúmdýnur dugi í um það bil áratug og þá sé komin tími til að endurnýja þær.  Í grein á vefnum aarp.org segir þó að líftími rúmdýna geti verið mun styttri þegar fólk eldist. Ekki vegna þess að dýnurnar slitni hraðar heldur vegna þess að líkamar okkar breytast með hækkandi aldri og fólk þarf oft á tíðum annarskonar stuðning við bak, mjaðmir og axlir þegar það eldist heldur en þegar það var á miðjum aldri.  Ef við eigum erfitt með að finna þægilega stellingu til að sofna í eða vöknum stirð og stíf gæti verið kominn tími til að endurnýja rúmdýnuna.

„Góð dýna getur ekki lagað eymsli í baki  en slæm dýna getur stuðlað að bakvandamálum, segir Jaspal R. Singh læknir og bætir við að það sé ekkert eins slæmt fyrir bakið og dýnur sem eru orðnar slitnar og hættar að veita stuðning.  Dýnur þurfa að veita stuðning við axlir og rassvöðva svo hryggurinn haldist beinn.

Það hefur orðið framþróun í dýnugerð á síðustu árum og áratugum og flestir ættu að finna dýnu við hæfi. Framleiðendur nota ýmis efni í dýnur til að ná fram mýkt, svo sem gorma, latex, svamp eða blöndu af þessu öllu. Grundvallaratriðið þegar dýnur eru valdar er að þær séu hæfilega mjúkar og styðji vel við. Þeir sem eiga erfitt með að hreyfa sig þurfa að dýnu sem auðvelt er að snúa sér á. Mörg fyrirtæki sem selja rúm bjóða fólki upp á að prófa nýjar rúmdýnur heima hjá sér í tvær til fjórar vikur. Ef fólki líkar ekki við nýju dýnurnar getur það einfaldlega skilað þeim.  Sing læknir segir að enginn ætti að velja sér dýnu í flýti og ef fólk sé að ganga á milli verslana til að prófa dýnur ætti það að taka með sér eigin kodda og prófa að liggja á dýnunni í að minnsta kosti 15 mínútur. Ef fólk haldi að dýnan henti því eigi það að semja um að fá hana lánaða í einhvern tíma áður en ákvörðun er tekin um kaup.

Ritstjórn ágúst 29, 2019 07:28