Þarf ekki að vaska upp eða hugsa um mat

Steinunn Guðný Sveinsdóttir

Steinunn Guðný Sveinsdóttir

„Það var dásamlegt að dansa á meðan ég gat það“, segir Steinunn Guðný Sveinsdóttir sem blaðamaður Lifðu núna hitti á Hótel Örk í vikunni, en þar eru haldnir svokallaðir sparidagar um þessar mundir og dansað á hverju kvöldi. Steinunn segist hafa verið mikið dansfífl, en nú eru fæturnir farnir að gefa sig og hún þarf að styðja sig við staf. „En ef ég dansa við styrkan og stæðilegan karl, get ég hangið í honum“, segir hún og brosir. Hún situr á barnum á Hótel Örk uppáklædd í fallegum siffonkjól, en þar safnast gestir sparidaga saman á hverjum degi fyrir matinn, í Happy hour.

Þetta er þvílíkt frí

Á „sparidögum“ dvelja menn á Hótel Örk í fimm daga við frábærar aðstæður. Þar er ýmislegt í gangi, bæði gönguferðir, fræðsla, skemmtun og skoðunarferðir og það er Níels Árni Lund sem heldur utanum dagskrána. Í vikunni var til dæmis ferð í Gunnarsholt sem Steinunn sagði að hefði verið mjög áhugaverð. Þar hefði minjasafnið verið skoðað og menn fengið fræðslu um jarðsöguna. Steinunn segist vera búin að koma á sparidagana að minnsta kosti sex sinnum. „Þetta er þvílíkt frí“, segir hún „maður þarf ekki einu sinni að vaska upp eða hugsa um matinn“.

Stofnaði kór á Hvolsvelli

Steinunn Guðný býr á Hvolsvelli og er í Félagi eldri borgara þar. Hún stofnaði þar kór sem heitir Hringurinn og segir að það hafi gefið sér mikið. „Kórinn heitir Hringurinn og þegar við stöndum í hring styðjum við hvert annað, og það er einmitt þannig í kórnum“, segir hún. Steinunn bjó lengst af með manninum sínum á bænum Kastalabrekku í Ásahreppi og segir að þegar þau hafi byrjað búskap hafi þau ekki einu sinni átt traktor. Þá hafi allt verið unnið með hestum og handverkfærum. Mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá, en hún hefði ekki viljað missa af þessu.

Allir nema Reykvíkingar

Sparidagarnir eru haldnir í samvinnu við Félög eldri borgara í landinu og standa í sex vikur. Fyrstu vikuna dvelur fólk af suðurlandi á Hótel Örk, en vikuna þar á eftir kemur fólk úr Reykjanesbæ. Síðustu vikuna kemur þangað fólk af austurlandi og vestfjörðum. Sparidagar hafa verið í boði á Hótel Örk í 25 ár, en Reykvíkingar hafa lítið notfært sér þá. Gjaldið er 46.900 krónur á mann ef tveir eru saman, en 55.900 krónur fyrir einstakling í fimm daga. Morgunmatur og kvöldmatur er innifalinn og stór hluti dagskrárinnar sem boðið er uppá.

Happy Hour á barnum

Happy hour á barnum

Pálmi Pálsson

Pálmi Pálsson

Hefur gaman af að kynnast fólki

Pálmi Pálsson er að koma í fjórða skiptið á sparidagana og ætlar að fara aftur í apríl með austfirðingum og vestfirðingum. Hann er yfir sig hrifinn af aðstöðunni á Hótel Örk og segist fara mikið í sund og gufu. „Ég hef gaman af að kynnast fólki“, segir hann „og ef það er einhvers staðar autt sæti í kaffinu sest ég þar“

Allir ungir meðan heilsan er í lagi

Pálmi var sjómaður að atvinnu, en vinnur nú í Netagerð Skinney Þinganess á Höfn í Hornafirði. „Það eru ekki allir sem njóta þeirra forréttinda að fá að vinna svona gamlir“ segir Pálmi. „Við erum þrír gamlingjar að vinna þarna og ég fæ að vinna á meðan ég treysti mér til. Hann segir frábært starfið hjá Félagi eldri borgara á Höfn og segist ekki finna fyrir því að hann sé að eldast. „Það eru allir ungir á meðan heilsan er í lagi“, segir hann.

Skemmtiatriðin sem boðið er uppá á Hótel Örk eru ekki af lakari endanum, en leiksýningin Afinn var sýndur þar fyrsta daginn og á lokakvöldinu skemmti Jóhannes Kristjánsson eftirherma við góðar undirtekir, svo tvö dæmi séu tekin af öllu því sem þarna er í boði.

 

Ritstjórn mars 6, 2015 16:09