Tengdar greinar

Það sem enginn segir þér um ellina fyrr en það er orðið of seint

„Og hvað um það!!“ þannig hef ég alltaf hugsað um það að eldast. Þegar ég var yngri gerði ég allt það sem okkur er sagt að forðast. Ég drakk of mikið, skemmti mér í partýum fram undir morgun og fór aldrei í sólbað án þess að úða á mig Jómfrúrolíu, til að tryggja að ég yrði kaffibrún. Hvers konar vitleysa var þetta eiginlega? Svarið er líklega „Algjör vitleysa“.

Þannig hefst pistill Carol Wyer á vefnum Sixty and me, sem fylgir hér í lauslegri þýðingu.

Vandamáli mitt og margra annarra á sama aldri er að okkur finnst við ekki gömul. Flesta daga held ég að ég sé enn þrítug, þangað til ég á leið framhjá spegli og velti fyrir mér, hvers vegna móðir mín stari þar á mig.

Fyrsta merkið um að ég væri að eldast kom fram í sjóninni. Ég hef alltaf haft fremur lélega sjón, en þegar ég byrjaði að ganga á skápa eða detta um fæturna á mér á gangstéttinni, rann það upp fyrir mér að ég væri að eldast.

Það góða er að ég sé ekki hrukkurnar sem eru þvers og kruss um andlitið á mér – Og það sem maður sér ekki, það er ekki til, ekki satt?

En hvort sem mér líkar það betur eða verr, þá hef ég elst og mamma sagði alltaf að það væri ekki fyrir skræfur að eldast. Hún er hetja í mínum augum. Þegar hún var 82ja ára var hún enn að skemmta sér með vinum sínum fram á nætur. Viðfrægu Twister partýin hennar komust á spjöld sögunnar hjá heimafólki á Kýpur og læknunum sem þurftu að hjálpa þeim sem festust á mottunum í undarlegustu stellingum í leiknum. En þar sem hún neitaði að eldast á virðulegan hátt, hirti hún ekki um að segja mér hvers væri að vænta þegar ég færi að eldast, þannig að það varð mér áfall að uppgötva sumt af því.

Til að upplýsa aðra sem standa frammi fyrir þeirri hættu að eldast, setti ég saman lista yfir það sem enginn segir ykkur um ellina, fyrr en það er orðið og seint.

Þið breytist í furðuverk

Morgun einn munið þið vakna upp við það að augabrúnirnar hafa lagt upp í ferðalag suður á bóginn og sest að á efri vörinni. Þið þurfið þá annað hvort að láta tattúvera þær á ykkur aftur – Oj bara!  Eða þið þurfið að venja ykkur á að nota augabrúnablýant. Ég mæli með síðari aðferðinni, þar sem það er hin besta skemmtun að setja aðra augabrúnina á þannig að hún sé til dæmis hærri en hin og gefi andlitinu furuðlegan svip. Ef þið viljið svo af einhverjum ástæðum  hræða fólk er  hægt að snúa þeim upp og niður!

Þið þróið með ykkur ofurkraft og verðið ósýnileg

Bara svo það sé sagt. Einn daginn eigið þið eftir að ganga um í verslunarmiðstöðinni og hugsa um hvað þið ættuð að kaupa í hádegismatinn þegar kona sem talar í farsíma og ýtir barnakerru á undan sér, kemur á móti ykkur og stefnir beint á ykkur. Hún víkur ekki og þið eruð nauðbeygð til að flýja innum næstu dyragátt til að forðast árekstur.

Eða þið farið inní verslun og reynið eins og þið getið að ná athygli verslunarfólksins – án árangurs. Þau halda áfram að tala um fjölskyldur sínar eða kærasta og láta sem þau sjái þig ekki. Til hamingju, þú ert þannig orðin ósýnileg.

Ég nota þennan nýja ofurkraft til að að skemmta mér við að setja lampaskerm á höfuðið á mér og fara upp og niður í rúllustiganum í verslunarmiðstöðinni. Það er ekki einleikið hvað maður kemst upp með!!

Þið skiptið út Korn fleksinu fyrir All bran

Þið getið gleymt því að kaupa sætt og bragðgott morgunkorn, beyglur og hnetusmjör. Þið munuð sjálfkrafa leita uppi heilsukorn af ýmsu tagi – og sveskjur.

Og satt best að segja, munuð þið ekki geta borðað ýmislegt sem ykkur þótti gott og voruð vön að fá ykkur.  Þið verðið til dæmis að kveðja frönsku kartöflurnar. Öll þessi kolvetni valda því bara að maginn blæs upp og þið fáið magapínu. Síðan verðið þið andvaka að hlusta á gaulið í maganum og görnunum þegar magasýrurnar fara af stað og þurfið að taka inn töflur við því. Þá er ótalið áfengi og kaffi sem fara oft ekki vel í eldri maga. Ég mæli með því að þið lifið á litlum súpuskálum og samlokum – það er mjög einfalt og auðvelt að skipuleggja slíkar máltíðir.

Þið gangið inn í herbergi og gleymið hvers vegna.

Þeta gerist hjá okkur öllum. Þið skokkið niður stigann, farið inní eldhús  og veltið fyrir ykkur hvað í ósköpunum  þið ætluðuð að gera þar. Eða þið opnið ísskápinn og uppgötvið að uppþvottalögurinn er þar sem mjólkin á að vera.

Þetta er allt í góðu, alveg eins og það að tékka á því nokkrum sinnum eftir að þið eruð búin að læsa útihurðinni, hvort þið hafið slökkt á eldavélinni, eða að fara aftur út í bíl þegar inn er komið til að athuga hvort þið hafið ekki örugglega munað að læsa honum.

Ef þetta er byrjað að gerast, setjið minnismiða á ennið til að minna ykkur á og vonandi hjálpar það, að minnsta kosti á meðan þið munið eftir því að þið erum með miðann á enninu.

Þið farið að humma lög án tilefnis og rymjið þegar þið standið uppúr stól

Það eru aðallega karlmenn sem eru sökudólgarnir í þessu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum bresta þeir í einhvers konar Pomm pomm söngl. Sumir taka uppá því að blístra eitthvað út í bláinn. En konur eiga það hins vegar til að fara að tala við sjálfar sig.

Bæði kynin fara að gefa frá sér sérkennilegt blásturshljóð, nokkurs konar hvæs, þegar þau standa upp. Jafnvel tágrannt fólk sem er alls ekki með slæma liði. Ég er farin að halda að þetta sé skylda og byrjaði að gefa frá mér þetta hljóð  þegar ég stend upp í rútu eða lest. Fólk botnar ekkert í þessu hljóði og veltir fyrir sér hvaðan það komi – ég er jú ósýnileg.

 

Ritstjórn maí 30, 2023 07:00