Það er svo sérkennilegt að mér hefur alltaf þótt það fremur spennandi að eldast. Ég hef beinlínis hlakkað til að hætta að vinna þegar sá dagur rynni upp og alltaf séð sjálfa mig fyrir mér, gráhærða eldri konu með hnút í hnakkanum, sem eyddi efri árunum í að grúska í ættfræði og skrifa. Um jólin varð ég svo 67 ára og er orðin það sem ég heyri oft í daglegu tali kallað „lögleg“ eða „löglegt gamalmenni“. Sjálf mun ég kjósa að verða eftirlaunakona – ekki ellilífeyrisþegi, takk.
Það breyttist ekkert sérstakt í lífi mínu daginn þegar ég varð lögleg, þótt ótrúlegt megi virðast ,og ég upplifði mig hreint ekki sem gamalmenni. En daginn eftir þegar ég tók lestina frá Tönsberg til Osló, eftir að hafa dvalið hjá dóttur minni þar um jólin, fékk ég talsverðan afslátt af lestarferðinni, borgaði það sem Norðmenn kalla honnör fargjald, miklu lægra en ég hafði áður greitt. Mér þóttu þetta mikil forréttindi og var afskaplega ánægð með að vera orðin 67 ára. Það borgaði sig greinilega. Þegar ég fór svo í sund eftir jólin í sundlauginni þar sem ég bý, sótti ég strax um að fá kort fyrir eldri borgara, en hér er ókeypist í sund fyrir þá sem eru 67 ára og eldri. Á einungis tveimur dögum gat ég sparað mér umtalsverðar upphæðir. Mest hlakka ég samt til að kaupa menningarkort Reykjavíkurborgar fyrir 67 ára og eldri og fá þar með nánast ókeypis á allar sýningar sem borgin stendur fyrir. Frábært.
Það er vissulega þannig að eldra fólkið í okkar samfélagi fær alls kyns afslátt víða og greiðir til að mynda ekkert fyrir heimsókn á heilsugæslustöðina sína. Það er einnig hægt að fá afslátt af tannlækningum og ýmis fyrirtæki veita eldri borgurum margs konar afslátt af vörum og þjónustu. Þeir sem eru í félögum eldri borgara hafa á síðustu árum iðulega fengið í hendur sérstaka afsláttarbók með lista yfir öll þessi fyrirtæki. Afslátturinn felur í sér kjarabætur fyrir eldri borgara og ekki veitir af. Lægstu eftirlaun eru skammarlega lág og um áramótin hækkuðu eftirlaun frá Tryggingastofnun ríkisins um 3.5%, sem er minna en sem nemur launaþróun í landinu. Það er gömul og ný saga að laun eldri borgara hækki minna en laun annarra og þannig dregur sundur með þeim og almennum launþegum. Þrátt fyrir gagnrýni Landssambands eldri borgara á þetta ár eftir ár, hafa stjórnvöld daufheyrst við þeirri kröfu að lægstu eftirlaun fylgi lágmarkslaunum í landinu og síðan almennri launaþróun.
Þeir sem hafa áunnið sér myndarlegar greiðslur úr lífeyrissjóðum hafa það hins vegar þokkalegt og hópur eldri borgara er ekki einsleitur. Sumir hafa það ágætt á meðan aðrir ná vart endum saman. Það er alls ekki ásættanlegt að ákveðnum hópi eldra fólks sé ætlað að lifa á upphæð sem er undir lágmarkslaunum í landinu. Það verður spennandi að sjá, hvað dómstólar eiga eftir að segja um kjör eldra fólksins í samfélaginu og sérílagi skerðingarnar sem ákaflega margir búa við, en búist er við mál Gráa hersins um skerðingarnar verði dómtekið snemma á nýju ári.
Eftir að hafa fylgst með málefnum eldri borgara síðustu 5-6 árin, hef ég lært mikið um líf eldra fólksins í landinu og mín niðurstaða er sú, að það sé bara nokkuð gott að eldast á Íslandi. Þrátt fyrir að ýmislegt megi betur fara varðandi kjör þeirra sem minnst hafa, er margt gott gert. Það er líka brýnt að útrýma aldursfordómum í landinu og auka þáttöku eldra fólks í samfélaginu. Það er undir okkur sjálfum komið hvort tekst að þoka þeim málum áfram, við getum ekki búist við að aðrir sjái um það fyrir okkur.