Þegar mamma bjargaði jólagluggaskónum

Þórir Hrafnsson skrifar

Árið er 1969, það er jólasnjór yfir Smáragötunni þennan síðasta sunnudag aðventunnar og á morgun fagnar Ragnar bróðir 7 ára afmælinu sínu. Sjálfur er ég 5 ára – örverpið í fimm bræðra hópi og „mjúki molinn“ hennar mömmu og naut fyrir vikið takmarkaðrar virðingar innan bræðralagsins sem hafði mig grunaðan um að bera áfram sögur af strákapörum þeirra eldri beint í höfuðstöðvarnar.

Ragnar, Haraldur, Gunnar, Einar og Þórir Hrafnssynir.

Þrátt fyrir að við bræðurnir værum að upplagi morgunsvæfir og þungdregnir fram úr rúmi þá gilti það ekki um þrettán síðustu morgnana fyrir jól því þá mátti treysta á að þeir jólasveinabræður ofan úr Esjuhlíðum hefðu komið um nóttina og fyllt skóna okkar með sjaldséðum rjómakaramellum, Bismark brjóstsykri eða Macintosh mola í bland við límmiða eða litblýant.

Og sannarlega höfðu þeir Stekkjastaur og Giljagaur staðið undir væntingum fyrstu tvo daga jólasveinavertíðarinnar og gilti þá einu hvort horft væri til magns eða gæða. En þegar röðin kom að Stúf og eftirrennurum hans þeim Þvörusleiki og Pottaskefli var eins og elska jólasveinanna til okkar bræðra hefði skroppið saman og það var varla að við næðum hálfum hlut á við það sem við töldum okkur eiga heimtingu á. Í stað þriggja rjómakaramellna var nú bara ein og Síríus lengjan hafði fyrirvaralaust styst um helming. Við bræðurnir vorum ansi þungir yfir þessu – þó einn okkar hafi reyndar talað máli jólasveinanna og sagt eins og þrautþjálfaður pólitíkus að kannski þyrftu jólasveinarnir bara að gæta aðhalds í útgjöldum rétt eins og ríkisstjórnin.

Næstu daga versnaði bara ástandið. Hvað hafði ég eiginlega gert þeim Askasleiki og Hurðaskelli … og meira að segja uppáhaldið mitt hann Bjúgnakrækir hafði gjörsamlega svikið mig og okkur bræður. Steininn tók þó úr að morgni 21. desember þegar Gluggagægir hafði sáldrað smákökumylsnu í skóna okkar en enga smáköku var þar að finna!

Þetta var meira en „mjúki moli“ þoldi og ég hljóp grátandi inn í hjónaherbergið og vakti mömmu og pabba. Eftir stutta en markvissa yfirheyrslu þá þerraði mamma mér um blíðlega um vangann og fullvissaði mig um að auðvitað myndi hún laga málin. Ég fann hvernig mér hlýnaði um hjartað en andartaki síðar kólnaði andrúmsloftið á heimilinu langt niður fyrir frostmark þegar mamma kallaði eldri bræðurna inn til sín einn af öðrum.

Auðvitað leysti mamma þennan leiða misskilning milli jólasveinanna og okkar bræðranna. Síðustu þrjá dagana voru gluggaskórnir okkar hlaðnir gotteríi og gjöfum – það er að segja hjá okkur öllum nema þeim næst elsta, sem fékk væna kartöflu. Síðar á lífsleiðinni gerðist sá grænmetisæta um tíma – kannski fundust honum kartöflur bara betri en kruðerí.

Ritstjórn desember 16, 2022 07:00