Þegar mamma varð forseti

Hildur Finnsdóttir

Hildur Finnsdóttir

Hildur Finnsdóttir skrifar

 Hún var ekki bara besta mamma í heimi eins og flestar hinar – hún var líka oftast svo ljómandi kát og skemmtileg að enn þann dag í dag brosir fólk hringinn þegar á hana er minnst. Hún var svo mikill gleðigjafi að hún var búin með kvótann þegar hún stóð á sextugu, veiktist og dó. Það er mikil eftirsjá að slíkri manneskju; ekki bara fyrir hennar nánustu heldur fjöldann allan af vinum, kunningjum og „ókunnugum“ sem segja manni árunum seinna að hún hafi verið engri lík.

Er það kannski svona manneskja sem við viljum hafa á Bessastöðum? Hvernig hefði hún brugðist við ef forsætisráðherra hefði komið í óðagoti heim á bæ með vanhugsað erindi? Kannski boðið honum upp á mjólkurglas og jólakökusneið eins og Ásgeir Ásgeirsson gerði þegar ég (og allur barnaskólabekkurinn minn ásamt kennara) hjólaði í hlað til að óska honum til hamingju með afmælið á fallegum vordegi. Geri aðrir forsetar betur við sína þjóð!

Hvernig kýs maður forseta? Út frá hverju gengur maður? Hvað getur maður vitað fyrir fram um viðbrögð fólks í hinum og þessum sitúasjónum? Auðvitað ekki neitt, en sem sannur Íslendingur sem kannast óvart við ansi marga (af því að við erum svo fá og maður hefur verið hér svo lengi) fer maður ósjálfrátt í minningabankann:

Ég vann dálítið með Ólafi Ragnari þegar hann var varla orðinn möðruvellingur – hvað þá meir – en hann er ekki lengur í boði svo að ekki þarf ég að reyta hár mitt yfir honum. Davíð er jafnaldri minn og aldrei vann ég með honum en datt nokkrum sinnum um hann í veislum í gamla daga. Erum líklega bæði búin með jólakökukvótann. Guðni Th. átti frábæra ömmu sem var góður granni suður í Hafnarfirði og hún átti fullt hús af makalaust mannvænlegum börnum. Ekki hef ég nokkra ástæðu til að ætla annað en að það sama gildi um alla hennar afkomendur. Svo er það hann Andri Snær sem er mikið góður vinur ýmissa mikið góðra vina minna, auk þess sem læknirinn pabbi hans annaðist tengdamóður mína af þvílíkri kostgæfni þar til yfir lauk að ef ég væri forseti væri ég löngu búin að splæsa á hann fálkaorðu. Hlýtur sonur hans ekki að vera gull af manni bara út á það? Pabbi hennar Ellu Stínu var vinur minn, ég kenndi konunni hans Magga á Texasborgurum þessa líka fínu íslensku og svona mætti lengi telja.

Mamma var fædd á Jónsmessunni og gladdist endalaust yfir því – alltaf svo gott veður, sagði hún. Sólin skein líka í heiði daginn sem hún hefði orðið sjötug og ég var mjög þakklát fyrir það; hafði nefnilega fengið þá flugu í höfuðið að bjóða í kaffi henni til heiðurs – á Bessastöðum. Það var sunnudagur og heilmikil traffík á Nesinu enda Vigdís á förum og Ólafur væntanlegur. Túristar ultu líka út úr rútum í stríðum straumum, tóku myndir og sprönguðu um svæðið. Sjálf lá ég á fjórum fótum, rótandi í mold, þegar stór og mikill rumur kom skyndilega askvaðandi og tók að krefja mig um svör við ótal misgáfulegum spurningum um land og þjóð á amerísku. Ég stóð mig bara býsna vel og tveir ungir frændur mínir fylgdust spenntir með yfirheyrslunni. Þegar eitthvert ártalið stóð svo auðvitað í mér varð spyrillinn bara róthneykslaður og spurði með þjósti: Hvurslags er þetta manneskja, ert þú ekki í vinnu hér?

Unglingarnir voru farnir að flissa svo að það var ekki annað í boði fyrir mig en að rísa á fætur og svara eins virðulega og mér var unnt: Nei, ég er nú bara að púkka upp á leiðið hennar mömmu.

Sá spuruli þurfti aðeins að hugsa sig um en sagði svo: Nú, fyrirgefðu. Hvenær var hún forseti?

Strákarnir misstu sig en ég lét mig síga aftur niður á hnén, stakk nefinu á milli nýplantaðra skrautjurta og hvíslaði spyrjandi ofan í moldina. Aumingja manninum varð auðvitað ekki um sel og lét sig snarlega hverfa. Ég sá það á baksvipnum á honum að hann fann fyrir léttum titringi undir iljunum.

Daginn fyrir næstu forsetakosningar verða liðin tuttugu ár frá því að mamma varð óvart forseti og hver veit nema að æskuvinkonum hennar verði aftur boðið upp á kaffi og kleinur í kirkjugarðinum. Það verður fróðlegt að heyra hvern þær ætla að kjósa.

 

Hildur Finnsdóttir maí 23, 2016 11:26