Tengdar greinar

Þetta gengur ekki lengur!

Hildur Petersen er ástríðukona sem hefur skoðanir á mönnum og málefnum. Þegar hún heyrði þá skoðun vísindamanna að fiskurinn í sjónum yrði líklegast ekki holl fæða í framtíðinni, sem væri vegna þess að með sama áframhaldi yrði plast fyrirferðameira í hafinu en fiskur, hugsaði Hildur: “Þetta gengur ekki lengur”. Hún stofnaði þá fyrirtækið Vistvæn framtíð og ákvað að leggja sitt af mörkum til að sporna við þessari ógnvænlegu framtíðarsýn. „Augljósast fannst  mér að vinna gegn öllu því plasti sem við sjáum þegar við förum út í búð að kaupa í matinn. Í matvörubúðum er gríðarlegt úrval af öllum vörum nema innkaupapokum. En þar vill viðskiptavinurinn auðvitað líka fá að velja enda smekkur fólks misjafn,“ segir Hildur.  

„Ekki halda fast í plast“

Fann vörur sem smellpössuðu

Hildur ákvað að leita fyrir sér að ábyrgu samstarfsfyrirtæki. Fyrirtækið Ecobags varð fyrir valinu en það var Sharon Rowe sem stofnaði það fyrir 30 árum. Sharon er í beinu sambandi við framleiðendur sína á Indlandi þar sem vörur hennar eru framleiddar undir merkjum Fair Wage / Labour. Vistvæn framtíð hefur verið að selja innkaupanet frá þeim en margir muna eftir þeim frá fyrri tíð en þá voru þau oftast úr plasti.  Í framhaldi af því fékk Hildur þá hugmynd að skapa eigin vörulínu af innkaupapokum og áttaði sig strax á því að hún vildi láta vöruna bera boðskap.

 Vildi vinna með fagfólki og listamönnum

Hildur er ekki óvön fyrirtækjarekstri því hún var framkvæmdastjóri ljósmyndavörufyrirtækisins Hans Petersen sem afi hennar stofnaði fyrir meira en 100 árum. Faðir hennar tók síðar við rekstrinum og hún tók við keflinu þegar faðir hennar lést, þá aðeins 23 ára gömul. Hún vissi af reynslunni að góður stjórnandi leitar ráða fagmanna og Hildur fékk þrjá listamenn, Lindu Ólafs, Sverri Norland og Sölva Dún til að fullvinna nýja vörulínu. Á innkaupapokana eru prentaðar myndir og slagorð sem beinast að menguninni í hafinu og Hildur er mjög stolt af útkomunni. Þetta eru slagorð  eins og “Ekki halda fast í plast” og “Plastið sem hverfur úr lífi þínu…. birtist í lífi annarra.

Innkaupanetin sem margir kannast við frá því í „gamla daga“. Þá voru þau úr plasti en núna eru þau framleidd úr vistvænu hráefni.

Markmiðið að plastið hverfi

Aðferð Hildar við að vekja athygli á málstaðnum er að kynna fallega vöru með ögrandi boðskap sem fólk tekur eftir. Hún segir að hún trúi því að æ fleiri séu orðnir meðvitaðir um þetta gegndalausa plast sem er allt í kringum okkur. En hún býður einnig upp á glænýja hugmynd sem eru innkaupasett sem innihalda taupoka og tvo grænmetispoka fyrir þá sem vilja taka næsta skref og sleppa þunna pokanum í grænmetisborðinu. Settin eru nýstárleg tækifærisgjöf  í staðinn fyrir að gefa    vínflösku eða blóm.

Ekki ókunn fyrirtækjarekstri

„Plastið sem hverfur úr lífi þínu… birtist í lífi annarra.“

Hildur hefur alla tíð verið mjög atorkusöm þegar kemur að rekstri og innleiddi margar nýjungar, m.a. jafnréttiststefnu hjá Hans Petersen þar sem bæði kynin nutu sömu kjara. Hún er handhafi Þakkarverðlauna FKA 2018 sem voru afhent nýverið fyrir athyglisvert ævistarf. Hildur er fyrsta konan sem kjörin var í Viðskiptaráð 1990, fyrsta konan í stjórn banka 1987 og fyrsta konan á Íslandi til að skrá fyrirtæki á verðbréfamarkað. Hún er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að rekstri en hún segir að eðlilega sé ólíku saman að jafna að stofna fyrirtæki frá grunni eða taka við fyrirtæki sem er í fullum rekstri  og í dag finnst henni skemmtilegra að skapa viðskiptahugmynd frá grunni.

Manneskja sem lætur hugmyndir sínar rætast á þennan hátt er sannkölluð hugsjónamanneskja. Þegar henni finnst komið nóg segir hún hátt og snjallt: Þetta gengur ekki lengur! og gerir eitthvað í málunum.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 16, 2018 12:54