Eldri borgarar orðnir langþreyttir á að bíða eftir kjarabótum

Landssamband eldri borgara skorar á stjórnvöld að hækka persónuafslátt verulega frá því sem nú er og telur að í því felist meiri tekjujöfnun, en að lækka neðra þrep tekkjuskatts. Hækkun persónuafsláttarins nýtist láglaunafólki og lífeyrisþegum betur, segir í ályktun sem var samþykkt á auka landsfundi LEB í vikunni. Auka landsfundurinn telur líka eðlilegt að aldraðir fái skattaafslátt af lægstu tekjum og vill að skerðingar allra tekna eldra fólks verði afnumdar. Þá segir einnig í ályktun fundarins:

Aukalandsfundur LEB bendir á að um síðustu áramót hækkuðu eftirlaun frá Tryggingastofnun ríkisins  almennt um aðeins 4,7%,( þrátt fyrir að launavísitala hafi hækkað um 7,1%) ,en um 16% til þeirra sem búa einir. Eftirlaun þeirra sem búa einir eru nú komin í 300 þúsund kr. á mánuði fyrir skatta. Hjón eða sambýluisfólk hafa 239 þús.kr. á mánuði fyrir skatta. Með þessu fyrikomulagi er tekin upp að nýju tekjutenging vegna maka í breyttu formi. Aukalandsfundur LEB telur að það samrýmist ekki nútíma viðhorfi. Aukalandsfundur LEB skorar á stjórnvöld að þetta verði leiðrétt nú þegar.

Á fundinum var einnig áréttuð sú skoðun LEB að íslenska lífeyriskerfið byggist á þremur stoðum. Fyrsta stoðin er almannatryggingar, önnur stoðin er lífeyrissjóðirnir og sú þriðja er viðbótarlífeyrir.

Sigurður Jónsson varaformaður LEB

Virðist litlu skipta hvaða ríkisstjórn situr

Sigurður Jónsson formaður kjaranefndar LEB og varaformaður sambandsins, segir að það sé alltof stór hópur í röðum eldri borgara sem hafi það ekki nógu gott. „Velferðarráðuneytið gefur út að það þurfi að lágmarki 335 þús. kr. til framfærslu á mánuði.Það liggur fyrir að 70% af eldri borgurum hafa undir 300 þúsund kr.samtals í tekjur frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum“ Hann segir eldri borgara eru orðna langþreytta á að bíða eftir kjarabótum. Það virðist litlu skipta hvaða ríkisstjórn sitji, það gerist lítið til að bæta kjörin.

Enginn skattur á tekjur undir framfærsluviðmiðum

„Eins og fram kemur í ályktun auka landsfundar LEB leggjum við höfuðáherslu á að persónuafsláttur verði hækkaður til muna. Það er lágmarkskrafa að þær upphæðir sem ráðuneytið gefur út sem framfærsluvið séu ekki skattlagðar. Við viljum að skerðingar séu afnumdar og að þeir sem getu hafa og vilja geti unnið án þess að missa 70% af þeim tekjum í skatta og skerðingar. Við munum halda baráttunni áfram að fullu, í þeirri trú að smá saman náum við að bæta kjör okkar“,  sagði Sigurður í stuttu spjall við Lifðu núna.

 

 

Ritstjórn apríl 26, 2018 15:06