Loksins glansaði kennitalan

María Axfjörð lýsti atvinnuleit eftir sextugt

Framsýn, stéttarfélag stóð fyrir fjölmennum fundi um málefni eftirlaunafólks, á Fosshótelinu á Húsavík um síðustu helgi. Fundurinn var haldinn undir heitinu, Grái herinn hnykklar vöðvana. Frummælendur voru Helgi Pétursson frá Gráa hernum, María Axfjörð bókari og Anna Sigrún Mikaelsdóttir formaður Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni. Þetta kemur fram á heimasíðu Framsýnar. María, rúmlega sextugur Húsvíkingur greindi á fundinum frá reynslu sinni af því að sækja um starf eftir sextugt, en henni var sagt upp vinnunni eftir11 ár – vegna skipulagsbreytinga. María hefur mjög langa og fjölbreytta starfsreynslu. Hún hefur starfað sem skrifstofustúlka, bókari, fjármálastjóri, aðstoðarhótelstjóri, ritstjóri og reddari svo einhver starfanna séu nefnd. Það virtist hins vegar ekki skipta öllu þegar út á vinnumarkaðinn var komið á þessum aldri. Við grípum hér niður í nokkra kafla úr máli hennar á fundinum.

Að segja að mér hafi brugðið við uppsögnina er ekki rétt. Ég fékk áfall. Ég hefði aldrei trúað því fyrirfram hvað þetta var erfitt. Það reyndi verulega á mín lífsmottó að vera alltaf jákvæð og bjartsýn, hafa trú á sjálfri mér, taka áskorunum og sjá alltaf stóru myndina. Gefa öllu séns.

María fór strax að leita að nýrri vinnu og þá byrjaði fjörið. Það reyndi verulega á þetta með bjartsýnina og jákvæðnina.

Ég sótti strax um alla þá vinnu sem var auglýst. Sendi ferilsskrána mína með, taldi að þar kæmi vel fram hversu fjölbreytta og langa reynslu ég hefði. Til að gera langa sögu stutta, þá fékk ég ekki mikil viðbrögð,stundum engin, en þó komst ég í nokkur viðtöl. Ég var býsna góð með mig til að byrja með, enda taldi ég mig hafa góða og langa og fjölbreytta reynslu, gott orðspor í vinnu, vissi að ég var hraust og til í ýmislegt. Mjög áhugasöm um lífið og tilveruna og fylgist vel með. Einhver spurði mig hvort ég vildi ekki bara hætta alveg að vinna, komin á þennan aldur, en mér fannst ég alls ekki vera komin að þeim tímamótum. Mig langaði bara til að finna góða, krefjandi vinnu þar sem ég væri metin að verðleikum, þar sem ég gæti mætt á morgnana á snyrtilegan vinnustað, fengið mér gott kaffi, kveikt á útvarpinu og byrjað að vinna. Ég lét það ekkert aftra mér frá því að sækja um störf, þótt beðið væri um háskólamenntun, taldi mig hljóta að eiga alveg möguleika á við einhvern nýútskrifaðan úr háskóla…. ég með alla mína reynslu !

María sótti um milli 20 og 30 störf á þessum tíma. Hún segir að það hafi auðvitað ekki bara verið aldurinn, heldur líka skortur hennar á háskólamenntun. Reynslan virtist ekki vega upp á móti því.

Ég er hugsi yfir því sem ég lærði þarna. Ég hafði auðvitað oft heyrt talað um að það væri erfitt fyrir eldra fólk sem missir vinnuna að  finna nýja vinnu. En þarna upplifði ég það í fyrsta skipti á eigin skinni.

Erum við virkilega svona ríkt samfélag að við höfum efni á því að hafna allri reynslu og þekkingu fólks sem farið er að nálgast fimmtugs-og sextugsaldurinn? Varla getur það talist þjóðhagslega hagkvæmt að fólk með fulla starfsorku og gífurlega reynslu fari hálfnauðugt á eftirlaun um sextugt?… eða fyrr? Vissulega er til fullt af fólki sem getur ekki beðið eftir því að geta hætt að vinna, og allt fínt með það. Sem betur fer eru ekki allir eins með það.

Og María heldur áfram frásögninni:

Eftir níu mánuði án atvinnu, kom að því að ég sá enn eina auglýsinguna þar sem auglýst var eftir bókara, og viti menn, einmitt með sérþekkingu á því bókhaldskerfi sem ég þekki best og hef unnið mest með. Og ég sendi strax inn umsókn.

Og undrið skeði, allt í einu hitti ég þar fyrir stjórnendur sem litu á það sem kost að ég hefði mikla og fjölbreytta reynslu, að ég væri heilsuhraust og ekki með lítil börn lengur. Og kennitalan mín, hún glansaði þarna Og þar er ég í dag. Í góðri krefjandi vinnu, þar sem ég mæti á morgnana á snyrtilegan vinnustað, fæ mér kaffi, kveiki á útvarpinu og byrja að vinna. En vissilega hefur þetta haldið áfram að velkjast í kollinum á mér. Þetta með að samfélagið hafi efni á að hafna vinnukröftum einhvers á forsendum kennitölunnar. Því það er virkilega þannig. Hugsið ykkur bara hvað það kostar mikið að þjálfa upp nýtt starfsfólk, og hvað reynsla í starfi er í raun dýrmæt í peningum. Hugsið ykkur hvað væri hægt að nýta þessa einstaklinga til hags fyrir samfélagið okkar?

 

 

Ritstjórn mars 7, 2017 10:42