Þórhallur Sigurðsson leikstjóri er búinn að leikstýra hátt í fimmtíu leiksýningum í Þjóðleikhúsinu og leika milli 80 og 90 hlutverk á sviðinu þar, á leiklistarferli sem spannar rúm fimmtíu ár. Hann lék sitt fyrsta hlutverk í Þjóðleikhúsinu í Herranótt, árið 1966. Á næsta ári verða fimmtíu ár síðan hann var ráðinn starfsmaður hússins.
Þórhallur var á hlaupum þegar Lifðu núna sló á þráðinn til hans fyrir helgina til að forvitnast um hvað hann væri að gera um þessar mundir. „Ég er á fullu að vinna og leikstýra orðinn 71 árs og má halda áfram eins og ég vil“, sagði Þórhallur og bætir við að sem betur fer sé hann ennþá hress. „Í dag er lokaæfingin á Leitinni að jólunum, sem verður sýnt núna þrettánda árið í röð. Við sýnum á morgun og svo er þrjú hundruðasta sýningin á verkinu í næstu viku. Við settum svo lögin hans Ólafs Hauks á svið í síðustu viku. Það voru tvær sýningar á stóra sviðinu og uppselt á þær báðar“. Hann segist einnig sjá um barnastarfið í leikhúsinu og taka á móti gestum sem koma í húsið. Sl. 9. ár hef ég skipulagt heimsóknir allra 5 ára barna frá leikskólunum á höfuðborgarsvæðinu í Þjóðleikhúsið .Þau koma á skólatíma með kennurum sínum og fá að sjá stutta leiksýningu. Við erum þegar farin að færa þetta starf út á landsbyggðina og næsta haust verður farið á fjölmarga staði og börnunum boðið í leikhús.
Þórhallur er verkefnaráðinn í leikhúsinu, þó hann sé kominn á eftirlaun. Hann segist ekki hafa sett sig inní nýju reglurnar um frítekjumark atvinnutekna eldra fólks. „Ég er bara að vinna“, segir hann og hefur engin áform um að hætta því. „Ég held ég þurfi endilega að hitta fólk á hverjum degi, Konan mín, Sjöfn Pálsdóttir leikskólakennari, sem er yngri en ég, er ennþá í fullri vinnu og ég nenni ekki að hanga heima,“ segir Þórhallur glaðlega, en saman eiga þau hjón 9 barnabörn á aldrinum 3ja til 25 ára.