Þorkell Helgason fyrrverandi orkumálastjóri

„Ég hef áhyggjur af afdrifum lýðræðisins,“ segir Þorkell Helgason stærðfræðingur, en hann á sér fjölbreyttan starfsferil: Að loknu doktorsnámi í stærðfræði varð hann háskólakennari, aðstoðarmaður ráðherra, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri. Eftir að hann komst á eftirlaun fyrir um áratug hefur hann helgað sig lýðræðismálum og er nú í þann mund að vinna að ítarlegu yfirlitsriti fyrir fróðleiksfúsan íslenskan almenning um kosningakerfi.

„Já, fyrirkomulag kosninga er búið að vera mitt áhugaefni í 40 ár og reyndar lengur, en ég datt svona inn í þetta veturinn 1982-1983. Þá var ráðist í mikla uppstokkun á íslenska kosningakerfinu. Ég var þá kennari í reiknifræðum við Háskóla Íslands og þáverandi formenn „Fjórflokksins“ báðu mig að reikna nokkur dæmi – prófa útfærslur á hugmyndum sem þeir voru með. Til að gera langa sögu stutta þá æxlaðist það þannig að ég varð eiginlega sáttasemjari á milli þeirra. Þurfti að miðla málum þar sem upp kom ágreiningur um leiðir milli flokkanna fjögurra. Flokksformennirnir voru vissulega allir af vilja gerðir að gera þetta vel, ekki síst sá þeirra sem leiddi hópinn, Geir Hallgrímsson. Svo voru margir þingmennirnir með puttana í þessu því þetta snerti náttúrulega hagsmuni hvers og eins þeirra, þó menn segðu ekki „mínir hagsmunir” heldur vísuðu til hagsmuna „sinna kjósenda“ eða kjördæmis. En allt um það. Út úr þessu kom mikill hrærigrautur sem varð að kosningalögum sem giltu árabilið 1987 til 2000. Þetta voru ein flóknustu kosningalög norðan Alpafjalla!“ Í kjölfarið varð Þorkell ráðgjafi landskjörstjórnar og allt fram til 2013 aðstoðaði hann við að úthluta þingsætum.

Kosningar eru grundvöllur lýðræðisins

„Ég fékk smám saman mikinn áhuga á kosningafræðunum enda er stærðfræðin sem þar liggur að baki engan vegin einföld og sjálfgefin. Vísustu menn sem hafa unnið á því sviði. Það áhugaverða við þessi fræði er að það er að stærðfræðin setur skorður. Nefna má setningu eftir Kenneth Arrow sem segir að það er ekki til nein algild regla til að raða frambjóðendum á grundvelli röðunar kjósenda svo að eðlilegar gæðakröfur séu ávallt uppfylltar eins og t.d. sú að ekki geti komið upp sú hringavitleysa að meirihluta kjósenda þyki A betri en B og B betri en C, en samt verði ekki annað séð en þeim þyki líka C betri en A. Þessi merka útilokunarsetning færði Arrow ígildi Nóbelsverðlauna í hagfræði,“ greinir Þorkell frá. Og heldur áfram:

„Önnur merkileg útilokunarsetning er kennd við Balinski og Demange. Samkvæmt henni er ekki unnt að úthluta jöfnunarsætum til lista í kjördæmum, eins og gert er í íslenska þingkosningakerfinu, nema á einn veg svo að fullur sómi sé að, svo sem þannig að útilokað sé að listi geti tapað sæti við það að bæta við sig atkvæðum. Slíkt getur gerst í íslenska kosningakerfinu. Þessi eina aðferð sem hefur ekki þessa skavanka þykir aftur á móti of flókin til að vera nothæf – en stærðfræðilega er hún sáraeinföld!“

Kosningar eru grundvöllur lýðræðisins – samanber fræga tilvitnun í spænska hugsuðinn Juan Ortega y Gasset, sem Þorkell gerir að einkunnarorðum rits síns um kosningakerfin:

„Heill lýðræðisríkja, hverrar gerðar eða máttar sem þau eru, hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: Framkvæmd kosninga. Allt annað er aukaatriði.“

Þorkell segist hafa rekið sig á það að stjórnmálamenn séu ekki nógu meðvitaðir um að til er fjöldi kosningakerfa. En samt verði ekki til alls ætlast. „Þess vegna hefur það legið mér á hjarta að skrifa um fyrirkomulag kosninga, reglur og kerfi, stærðfræðilega og að nokkru sögulega. Ritið, sem hefur vinnuheitið Kosningafræðarinn, er ætlað handa íslenskum almenningi, áhugasömum um þessi málefni. Þetta hefur undið upp á sig, handritið er að nálgast 500 síður. Birti það kannski bara á netinu og gef svo út stytta útgáfu í prentbókarformi.“

Kosningahermir í smíðum

Samhliða þessu verkefni hefur Þorkell, í samstarfi við nokkra aðra áhugamenn, verið að vinna að svokölluðum Kosningahermi, sem er hugbúnaður sem gerir kleift að þróa og prófa kosningakerfi af ýmsum gerðum, úthluta sætum með þeim og mæla gæði þeirra með ýmsum hætti. Þessi hugbúnaður segir hann að verði gerður öllum aðgengilegur innan mjög skamms.

„Eins og ég sagði í upphafi eru mér lýðræðismál mjög í huga. Þess vegna bauð ég mig fram til Stjórnlagaþings, en Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna til þess þings ógilda með vafasömum rökum að mínu mati. Í kjölfarið sat ég svo í Stjórnlagaráði. Við urðum sammála um heildarniðurstöðu um verulegar endurbætur á gildandi stjórnarskrá. Tveir þriðju kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 sögðu að leggja skyldi frumvarp okkar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Því miður hefur allt stjórnarskrármálið verið þæft á þingi og sú heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1874 sem lofað var við stofnun lýðveldisins lætur enn á sér standa.“

Þorkell segir að þetta ferli sýni enn og aftur að setning stjórnarskrár ætti að vera í beinum höndum þjóðarinnar, sem með þeim hætti setji þjóðþinginu leikreglurnar. Stjórnlagaþingið var upphaflega þannig hugsað að tillögur þess færu beint í bindandi þjóðaratkvæði. Stjórnlagaráð hafði á hinn bóginn aðeins ráðgefandi hlutverk. „Nú er liðinn heill áratugur síðan við í ráðinu skiluðum okkar tillögum. Eðlilegt er að yfirfara þær í ljósi umræðunnar síðan. En hvernig á að standa að því? Vonandi lifi ég það að sjá bætta og endurskoðaða stjórnarskrá!“

Verðum að standa vörð um lýðræðið

Standa verður vörð um lýðræðið, segir Þorkell. „Lýðræðisþjóðir verða að snúa betur saman bökum og umfram allt að gaumgæfa hver í sínum ranni að styrkja stoðirnar, svo sem með traustum stjórnarskrám og búa svo um að þeim sé fylgt í hvívetna. Að mínu mati hafa einkum Þjóðverjar lagt sig fram í þeim efnum, enda reynslunni ríkari eftir ógnarstjórn nasista og síðar alræði kommúnista í Austur-Þýskalandi. Þeir eru með eftirlitsstofnun sem fylgist með athöfnum sem stríða gegn grunngildum stjórnarskrár þeirra og hafa svo stjórnlagadómstól til varnar stjórnarskránni.  Ég ræddi við þýskan fræðimann um tillögur okkar í Stjórnlagaráðinu. Hann hnaut strax um að það skorti bein ákvæði um stjórnlagadómstól. Án hans væri stjórnarskrá máttvana að hans mati.“

Eftir hrun kommúníska einræðisins í Sovétríkjum virtist frelsi, frjálslynt lýðræði og réttarríki vera að sigra heiminn. En síðan hefur heldur betur slegið í bakseglin og alræðisvöld komist til valda víða, þar með talið í okkar eigin álfu, nú síðast með þeim afleiðingum að hervaldi Rússa er beitt til að kveða niður vestrænt lýðræði í öðru ríki, Úkraínu.

Í þessu sambandi vekur Þorkell athygli á því að Madeleine Albright, sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna um sl. aldamót, skrifaði nýverið athyglisverða bók, „Fasismi, varnaðarorð“. Þar varar hún ekki síst við því hvernig menn haldnir sjálfsupphafningarröskun (narsissisma) komast til valda með meira eða minna lýðræðislegum hætti og hrifsa svo til sín öll völd. Nefna má mörg dæmi, þessa dagana er dæmi Pútíns á allra vörum, með réttu. En Albright segir í bók sinni að sá sem var forseti Bandaríkjanna þegar bókin er skrifuð, Donald Trump, sé „kandídat“ í að vera fasískur leiðtogi.

„Við verðum að vera á varðbergi, líka á heimavelli,“ minnir Þorkell á að lokum.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn mars 2, 2022 07:00