Þráðurinn rakinn vestur í Ísafjarðardjúp

Margrét S. Höskuldsdóttir kvað sér hljóðs í glæpasagnasenunni fyrir tveimur árum með bókinni Dalurinn. Það var vel unnin og spennandi saga og Í djúpinu er ekki síðri. Það er rannsóknarlögreglukonan Ragna og Bergur félagi hennar sem rannsaka morðmál sem virðist teygja sig vestur á firði og eiga rætur í löngu liðnum atburðum.

Þórður er sjálfumglaður og grunnhyggin bisnessmaður sem hefur komist upp með að ráðskast með fólkið í kringum sig frá unga aldri. Þegar hann finnst látinn í heitum potti við heimili sitt í Laugardalnum finnur Ragna á sér að þarna er eitthvað meira á ferð en uppgjör milli viðskiptafélaga jafnvel þótt stórfellt tap hafi komið illa við menn. Hún leitar að frekari tengingum milli Þórðar, vina hans, nágrannakonunnar og mannsins sem stóð úti í garðinum hennar. Hún finnur þráð sem vindur sig vestur í Ísafjaðardjúp, nánar tiltekið í heimavistarskólann við Reykjanes.

Hún fer ásamt Bergi vestur, ákveðin í að finna þennan þráð og rekja hann. Aðrir rannsakendur eru uppteknir af viðskiptafélögum hins látna en það er nokkuð ljóst að hugboð Rögnu mun skila þeim nær lausninni en hinum. Bókin er skemmtilega fléttuð með endurlitum til fortíðar milli þess sem lesandinn fær að fylgjast með rannsókninni í nútímanum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.

Ritstjórn september 22, 2024 07:00