Þriðja æviskeiðið í brennidepli

Yfir 120 manns sóttu alþjóðlega ráðstefnu um þriðja æviskeiðið sem var haldin í Hafnarhúsinu í Reykjavík í dag. Þar var þeirri spurningu velt upp, hvernig best er að haga undibúningi fyrir þetta æviskeið, þannig að það veki ánægju og tilhlökkun. Þriðja æviskeiðið hefst um það bil sem starfslok verða hjá flestum. Þetta æviskeið hefur verið mjög í brennidepli í nágrannalöndunum okkar um árabil, þar sem eldra fólki fjölgar mjög í vestrænum löndum. Er það bæði vegna þess að fólk er við betri heilsu og lifir lengur og vegna þess að barnsfæðingum fjölgar ekki.

Að búa sig skipulega undir þriðja æviskeiðið

Ráðstefnan markar upphafið að Evrópuverkefninu BALL – eða Be Active Through Lifelong Learning. Verkefnið er samstarfsverkefni Evris, Háskóla þriðja æviskeiðsins í Reykjavík, í Lublin í Póllandi og Alicante á Spáni. Það hefur hlotið veglegan styrk frá Evrópusambandinu. Fyrirlesarar voru frá Frakklandi,  Íslandi, Póllandi, Spáni og Bandaríkjunum. Lögð er áhersla á það í BALL verkefninu að fólk búi sig skipulega undir þriðja æviskeiðið og líti á það sem skeið frelsis og nýrra tækifæra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

Öldungaráð í vændum í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpaði ráðstefnuna og sagði meðal annars að mönnum virtist finnast sem þeir væru ekki jafn velkomnir á vinnumarkaðinum og áður, þegar þeir væru að nálgast þriðja æviskeiðið. Það þyrfti að halda til haga góðum hlutum sem gerast og auka umræðuna um þessi mál. Þá ætlaði borgarstjórn að setja á stofn öldungaráð, sem yrði henni til ráðuneytis um málefni þriðja æviskeiðsins.

Vernda eldra fólk gegn mismunun

Háskóli þriðja æviskeiðsins er alþjóðleg samtök, sem eru með skóla um allan heim og halda árlega ráðstefnur um ýmis málefni sem brenna á fólki á þriðja aldursskeiðinu. Á síðasta ári var til dæmis fjallað um það á ráðstefnu í Svíþjóð, hvernig unnt er að vernda fólk gegn mismunun, þegar það eldist. Háskólar sem kenna sig við þriðja æviskeiðið eru ýmist reknir sem sjálfstæð félög, eða í samstarfi við aðra. En á ráðstefnunni kom fram að á Spáni eru um 43.000 háskólanemar yfir fimmtugu. Þetta fólk er yfirleitt ekki að taka háskólagráður, en fer í skóla vegna þess að það hefur tíma til þess og áhuga á því.

Pólsk stjórnvöld setja af stað átak

Pólverjar eru með 150.000 nemendur í Háskóla þriðja æviskeiðsins. Þjóðin eldist hratt, sem þýðir að konur verða áberandi í eldri hópunum þar sem þær lifa lengur og um helmingur heimila í Póllandi er heimili þar sem einungis ein kynslóð býr. Fólki sem er komið yfir áttrætt fjölgar. Pólsk stjórnvöld hófu á þessu ári sex ára átak, sem heitir „Social Activation of the Elderly“, eða aukin virkni eldra fólks. Hluti af því er að gefa eldra fólki tækifæri til að stunda nám.  Eitt af markmiðunum er að stuðla að sjálfstæði og virðingu hjá eldri kynslóðinni. Það er áberandi alls staðar að konur eru í meirihluta þeirra sem stunda námið.  Sjá myndir frá ráðstefnunni hér fyrir neðan.

Julie Schniewind talaði um virkni eldra fólks og sagði  að menn myndu ekki "rock themselves to death"

Julie Schniewind talaði um virkni eldra fólks og sagði að menn myndu ekki „rock themselves to death“

Hulda Herjólfsdóttir Skogland stjórnaði pallborðsumræðu

Hulda Herjólfsdóttir Skogland stjórnaði pallborðsumræðu

Það var um margt að spjalla í kaffihléinu

Það var um margt að spjalla í kaffihléinu

Þessar konur ræddu málin ákaft

Þessar konur ræddu málin ákaft

 

Ritstjórn september 23, 2014 19:42