Höfum gengið milli allra sem málið varðar

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segir umræðuna um stöðu eldra fólks miklu meiri nú en hún var þegar Grái herinn lagði upp í vegferð sína fyrir 5 árum. Hann segist varla komast áfram þegar hann fer út í búð, það séu svo margir sem vilji ræða þessi mál. Hann sé þó alls ekki að gera lítið úr því sem gert hafi verið fram að þeim tíma og síðan. „Meginbreytingin tel ég að hafi orðið þegar fólk fór almennt að átta sig á þeim mikla fjölda fólks sem er að komast á efri ár og er ekki eins og kynslóðin þar á undan. Langflestir eru í fullu fjöri, í vinnu eða við að sinna áhugamálum en vilja láta til sín taka á ýmsum sviðum. 74 þúsund manns eru eldri en 60 ára í þessu þjóðfélagi og það segir sig sjálft að það er ekki einsleitur hópur,“ segir hann.

Heimsmet í skerðingum

Helgi segir umræðuna núna hafa byrjað á því að farið var í að ræða brýnustu vandamálin, eins og hvernig við hlúum að okkar elstu og veikustu bræðrum og systrum á hjúkrunarheimilum og með heimaþjónstu. „En svo fór ýmislegt annað að koma upp á yfirborðið í umræðunni. Að það sé í raun og veru til hópur fólks, sem er gert að lifa undir fátæktarmörkum og hafi gert það lengi. Að skerðingar ríkisins á greiðslum frá Tryggingastofnun, sérstök skattheimta jaðarskatta, nemi 45,5 milljörðum króna á ári og að þessi skattheimta sé í raun heimsmet í skerðingum.“

Öll félögin samstíga í áherslumálunum

Helgi er nokkuð bjartsýnn á að umræðan um málefni eldri borgara í kosningabaráttunni muni skila árangri. „Stóri áfanginn í viðspyrnu okkar eldra fólks við þessar aðstæður var samhljóma samþykkt allra félaganna innan Landssambandsins um fimm áhersluatriði eldra fólks fyrir kosningarnar á morgun og fyrir þá sem setjast að borðinu eftir kosningarnar til að mynda stjórn. Áherslur okkar eru á hækkun frítekjumarks, frelsi til að stunda vinnu óháð aldri, stóraukið vægi heilsugæslunnar í öldrunarþjónustu og forvörnum og á nýtt búsetuúrræði sem verði millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis. Að lokum má nefna endurskoðun á lögum um málefni eldra fólks, þannig að skilin verði að lög um eldra fólk og öryrkja.“

Erum búin að kynna þetta fyrir öllum

Forystumenn LEB ræddu við fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna síðast liðið vor, hérna á fundi með Viðreisn

Helgi segir að síðast en ekki síst eigi hann von á að áhersluatriði Landssambandsins komist til skila, „Vegna þess að við höfum hreinlega lagt af stað gangandi milli allra sem málið varðar. Við erum búin að kynna þessi atriði fyrir öllum stjórnmálaflokkum, aðilum vinnumarkaðarins, sveitarfélögum, fagfélögum, stöku ráðherrum og öllum þeim sem hafa viljað hlusta á okkur,“ segir hann.

Mál Gráa hersins tekið fyrir eftir mánaðamót

„Við höfum lokið þeim fundum með því að minna á þann fjölda kjósenda sem stendur á bak við þessi áhersluatriði og einnig á að hér er ekki tjaldað til einnar nætur. Við munum svo mæta í Héraðsdóm 5. október n.k. þegar mál þriggja félaga okkar í Gráa hernum gegn Tryggingastofnun um ólögmæti skerðinganna verður tekið fyrir, og við eigum síðan eftir að meta hver viðbrögð okkar verða þegar nýr stjórnarsáttmáli liggur fyrir og hvaða vægi áherslur okkar hafa fengið þar,“ segir Helgi og bætir við að eldri borgarar dagsins í dag séu ekki jafn þolinmóðir og kynslóðin á undan.

Ritstjórn september 24, 2021 14:00