Tíðarandinn og tónarnir ævisaga Bítlanna

Fjórir strákar frá Liverpool breyttu heiminum fyrir rúmum sextíu árum. Það er staðreynd, þótt þeir hafi vissulega verið hluti af heild, tannhjól í hjóli tímans sem þegar var farið að snúast í átt að uppreisn ungmenna gegn stífum borgarlegum gildum fyrri kynslóða, þá leiddu þeir vinda breytinganna um árabil. Já, það er verið að tala um Bítlana og bókina, Einn, tveir, þrír, fjór … Bítlarnir í tímans rás eftir Craig Brown.

Þessir fjórir ungu menn sem enduðu á að skipa hljómsveitina þegar hún sló í gegn voru mjög ólíkir persónuleikar. Það endurspeglast vel í þessari bók þótt segja megi að hún sé meira saga hljómsveitarinnar en ævisaga meðlima hennar. Craig Brown rekur tengsl þeirra við þjóðfélagsbreytingar þess tíma þegar þeir koma fram og slá í gegn en einnig hvernig tónlist þeirra hefur orðið sígild og náð til nýrra kynslóða á nýjan hátt. Alls staðar þar sem hljómsveitin kom skapaðist í kringum hana menning og iðnaður.

Í Liverpool til að mynda er blómlegur ferðamannaiðnaður í kringum Bítlana og tónlist þeirra og sömuleiðis í Hamborg. Alþjóðleg Bítlavika er haldin þar árlega og víðar eru haldnar hátíðir fyrir aðdáendur þeirra. Ótal Bítlabönd hafa sprottið upp víða um heim og eru mislífseigar og margir halda í nokkurs konar pílagrímaferðir til að skoða helstu staði tengda ferli hljómsveitarinnar. Craig bendir reyndar á að flestir þessara staða eru mikið breyttir og fátt sem minnir á þann bæ, borg, krá eða upptökustúdíó sem Bítlarnir þekktu. Samt leggur fólk þetta á sig. Og þetta gerist þótt liðin séu fimmtíu og fimm ár síðan hljómsveitin lagði upp laupana.

Saga samfélagsbreytinga

Það er fróðlegt að velta þessu fyrir sér, skoða áfanga í sögu hljómsveitarinnar og Craig er skemmtilega kíminn í skrifum sínum. Hann telur að hluta til sé þetta tónlistinni að þakka, hún sé það góð en í mörgum tilfellum sé það nostalgían sem nær tökum á fólki. En öðrum þræði er bókin líka saga þjóðfélagsbreytinga. Breyttra viðhorfa og nýrra leiða fyrir ungt fólk til að láta að sér kveða í samfélaginu.

Boltinn tók fyrst að rúlla á verulegum hraða eftir að Bítlarnir komu fram í The Ed Sullivan Show í bandarísku sjónvarpi. Sagt er að Muhammed Ali, eða Cassius Clay, eins og hann hét þá hafi sagt eftir að hafa verið beðinn að koma í myndatöku með þeim: „Hverjir voru þessir litlu væsklar?“ Fljótlega hefur hann líklega fengið svar við þeirri spurningu því það var allt vitlaust. Aðdáendur tróðust alls staðar að þeim, troðfullt á alla tónleika, stúlkur öskruðu og féllu í yfirlið og strákar breyttu um hárgreiðslu og klæðaburð til að líkjast þeim. Bítlaæðið var hafið.

Áður hafa verið skrifaðar margar bækur um Bítlana en þar sem undirrituð hefur ekki lesið neina þeirra er erfitt að segja til um hvort þessi bætir einhverju nýju við eða er öðruvísi á einhvern hátt. Hins vegar get ég fullyrt að hún er fróðleg, skemmtileg og upplýsandi um margt sem maður vissi ekki um hljómsveitina. Þarna birtast áhrifavaldar, kærustur, foreldrar og fleiri meðal annarra þar er Eric Clague, fyrrverandi lögreglumaður, sem var svo óheppinn að keyra á Juliu Lennon, móður Johns og hún lést af áverkunum sem hún hlaut. Þessa sögu hafa áreiðanlega ekki margir heyrt þótt flestir hafi vitað hvernig andlát Juliu bar að.

En hér kemur líka skýrt fram að frægðin kostar menn alltaf eitthvað. Hún breytir mönnum og krefst fórna. John á erfiðast með að taka því en þeir hinir berjast einnig við sína djöfla. Alls konar fólk safnast líka að þeim og reynir á sinn hátt að hafa áhrif á þá eða græða á þeim. Fáir líklega alveg lausir við eigingjarnar hvatir. Sá sem kemst næst því er án efa Brian Epstein en um hann sagði John einhvern tíma að Bítlarnir hefðu aldrei náð í gegn ef hann hefði ekki heyrt í þeim en Brian svipti sig lífi árið 1967.

Kannski verður saga Bítlanna aldrei fullsögð og hver kynslóð líkleg til að hafa sína sýn á sögu hljómsveitarinnar og þau áhrif sem hún hafði. En þessi bók er mjög áhugaverð og skemmtileg aflestrar og fengur fyrir alla Bítlaunnendur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifa.