Ullarævintýrið – prjónaði lífsins peysu ofan frá

Rútumynd: Hér sést „Rjúpan“ í góðu yfirlæti á hlaðinu hjá Önnu Birnu í Varmahlíð undir Eyjafjöllum.

Hildigunnur Fönn Haukdsdóttir er komin á miðjan aldur, er hagfræðingur og er að ná sér í lögfræðiréttindi líka. Þetta hljómar svona eins og Hildigunnur sé ofurkona en svo er alls ekki. Hún hefur bara nýtt tækifærin sem henni hafa boðist í lífinu. Sum voru góð en önnur vond en hún nýtti sér þau líka. Þegar eiginmaðurinn skildi við hana tók hún nokkrar afdrifaríkar ákvarðanir. Hún ætlaði ekki að láta bugast, fór ein í ótrúlega skemmtilegan hjólatúr í Puglia á suður Ítalíu, keypti sér rútu og tók meirapróf. Í raun má segja að ævintýrin hafi hrúgast inn síðustu árin, óteljandi ferðalög m.a. til Afríku og Qatar, viku prjóna- ,,retreat” á lítilli eyju utan við Washington State  fyrir utan hefðbundnari ferðalög til Evrópu sem hún fór í. ,,Og ekki má gleyma hjólaferðinni miklu þegar hjóladellan heltók mig þarna um 2014 og ég hjólaði í kringum Ísland á 10 dögum.,” segir Hildigunnur og frá henni stafar kraftur.

Ákvað að láta áfengi vera

Hildigunnur ákvað líka að hún skyldi láta áfengi alveg vera þangað til hún væri búin að ná áttum. Það gerði hún og niðurstaðan var frísk kona á besta aldri sem sannaði fyrir sjálfri sér og öðrum að hún var engum háð. Hildigunnur hafði flutt rúmlega tvítug til Bandaríkjanna með þáverandi eiginmanni sínum og barni þeirra þar sem hann var að fara í nám. Þau eignuðust síðan þrjú börn til viðbótar, það síðasta þegar Hildigunnur var 28 ára gömul.

Fann fyrir mikilli leti

Íslenska kindin sem hefur haldið okkur á lífi í gegnum árhundruðin.

Þegar Hildigunnur eignaðist fjórða barnið kom í ljós að skjaldkirtill hennar var vanvirkur og er nú alveg ónýtur. ,,Það var skýringin á því að mér þótti ég vera rosalega löt því ég hafði mig ekki í að gera neitt,” segir hún. ,,Fram að því hafði kirtillinn farið upp og niður í virkni og þegar ég var hress notaði ég tækifærið og tók kúrsa í hagfræði þarna úti sem ég fékk svo metna þegar ég kom heim og gat klárað.”

Erfiður tími fyrir Íslendinga

Að loknu hagfræðinámi um fertugt fór Hildigunnur að vinna m.a. í bönkunum og síðast hjá Íbúðalánasjóði. Þar starfaði hún í 4 ár eftir hrun og sá tími var mjög erfiður. ,,Ég var aðstoðarmaður forstjóra og ritari stjórnar sjóðsins. Samstarfsfólkið var mjög skemmtilegt en vinnustaðurinn var niðurdrepandi. Starfið fólst í að reyna að hjálpa fólki með lánin sín, yfirtaka húsnæði ef það gat ekki borgað og smám saman fór ég að finna fyriróróleika. Mér fannst eins og allir hefðu verið að stofna fyrirtæki og búa til eitthvað sjálfir en ég hafði aldrei búið neitt til nema börnin mín,” segir Hildigunnur og hlær. ,,En þau eru auðvitað mesti fjársjóðurinn þegar upp er staðið.” Hildigunnur á fjögur börn og barnabörnin eru orðin 6 og á þeim öllum er mikill samgangur.

,,Að sjálfsögðu finnst þeim geggjað að fara í rútuferð með ömmu. Síðasta sumar fór fjölskyldan í dagsferð í Borgarfjörðinn þar sem komið var við hjá Hraunfossum, leikið við geiturnar í  Háafelli, farið í reiðtúr á Sturlureykjum og endað í Kraumu. Það verður að sjálfsögðu önnur ferð í sumar þar sem að útreiðartúr verður aðalmálið og svo fléttast inn í daginn eitthvað skemmtilegt.”

,,Besta myndin! Tekin í saumaklúbbi hjá mér, gestir voru amerískar konur í 15 daga prjónaferð. Þessar ferðir eru svo fábærar og ég hlakka til þegar ferðir geta hafist að nýju.“

Ferðaiðnaðurinn í miklum vexti

,,Á þessum tíma var ferðaiðnaðurinn á blússandi fart og óneitanlega þótti mér spennandi að bera þar niður en vissi bara ekki hvernig,“ segir Hildigunnur. ,,Þá sagði einhver si svona: ,,Heyrðu, þú ættir nú bara að kaupa þér rútu og fara að gera út á ferðamenn,” og mér þótti hugmyndin fáránleg til að byrja með. En eftir nokkra umhugsun fór hugmyndin að skjóta rótum og nokkrum mánuðum síðar var ég komin til Póllands að kaupa rútu. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina,” segir hún og brosir út að eyrum.

Hildigunnur kynntist síðan öðrum manni og sá er af erlendu bergi brotinn. ,,Það var kostur að hann hafði ekki verið þátttakandi í lífi mínu áður svo við kynntumst með alveg hreint blað. Við gátum þess vegna byggt upp nýtt samband óháð fortíðinni.”

Mætti fordómum

Hildigunnur náði sér í Meiraprófið en það gekk ekki þrautalaust. Ekki af því hún gæti ekki tileinkað sér fræðin heldur af því hún mætti fordómum.

Myndin er tekin í Þingborg Ullarvinnslu og sýnir fallegu litina frá Slettuskjótt.

,,Það var rosalega ásókn í meiraprófið á þessum tíma en mér tókst að skrá mig á eitt náskeið í júlí 2017. Rútan hafði komið til landsins í apríl svo ég ætlaði mér að ná sumrinu á eftir. ,,Skömmu áður en námskeiðið átti að hefjast hringdi í mig maður frá skólanum og spurði: ,,Er ég að tala við Hildigunni, þessa sem ætlar að fara í Meiraprófið?” Svo bætti hann við: ,,Ertu alveg viss um að þú viljir gera þetta?” Ég sagði já, svolítið hissa. ,,En þú veist að þetta er mjög erfitt,” segir hann og heldur áfram að telja úr mér kjarkinn og þá var mér farið að detta í hug að þetta væri símahrekkur. En svo var alls ekki svo ég spyr hann bara hreint út: ,,Ertu að spyrja að þessu af því ég er kona?” Nei, svaraði hann með semingi. ,,Það er kennitalan sem vefst fyrir mér.” Svo bætti hann við að þegar fólk væri komið á ,,okkar” aldur  þá færi að verða svolítið erfitt að læra. Þegar ég hitti manninn fann ég út að hann var 81 árs. Hann hlýtur því að hafa mislesið kennitölu mína því á þessum tíma var ég ekki orðin fimmtug,“ segir hún og hlær. ,,En þó svo hafi verið átti maðurinn ekkert með að draga úr mér kjarkinn að taka prófið,” segir Hildigunnur ákveðin. Ég sagði við hann að ég væri búin að kaupa rútuna og að ég ætlaði að taka þetta próf og bætti við að mér muni örugglega ganga vel. ,,Já, sjáum til með það,” sagði maðurinn þá og hafði greinilega ekki trú á mér. Á þessum tíma var að koma holskefla af konum að taka Meiraprófið og ég geri ráð fyrir að hann hafi bara verið svona gamall í hugsun. Svo voru auðvitað margir  eldri karlar á námskeiðinu. Ég tók prófið og stóð það með glans og gat farið að aka með ferðamenn um sumarið.”

 

Las á kvöldin og fór í gegnum söguna

,,Þessi vinahópur fór með mér allan hringinn og var svo skemmtilegur, hlógum bókstaflega í 8 daga.“

Hildigunnur hefur alltaf haft áhuga á Íslendingasögunum og hefur brennandi áhuga á Egilssögu og Njálu. Hún hefur nýtt sér þá kunnáttu í ferðum með túristana. Í byrjun hringdi hún í nokkur fyrirtæki og lét vita af sér. ,,Ég sat svo og beið og var að farast úr stressi, en svo einn daginn byrjaði síminn að hringja. Þá fór boltinn að rúlla og fyrsta sumarið gekk mjög vel. Alveg þangað til í mars í fyrra þegar covid skall á og ferðamennirnir hurfu. Þessi beygja sem ég tók í lífinu hefur auðgað líf mitt óendanlega mikið og ég hlakka svo mikið til að takast á við verkefni framtíðarinnar.”

 Ullarævintýrið frá byrjaði þegar covid skall á

Hér má sjá prjónavinkonu frá US í svo fallegri peysu að Hildigunnur mátti til með að taka mynd.

,,Vetrarferðirnar voru stórkostlegar og útlendingarnir voru algerlega agndofa yfir fegurð landsins okkar. En svo þegar

,,Þessi vinahópur fór með mér allan hringinn og var svo skemmtilegur, hlógum bókstaflega í 8 daga.“

allt datt niður í mars í fyrra bjó ég til ullarævintýrið og sú dagsferð er komin til að vera, bæði fyrir Íslendinga og útlendinga. Ferðin er kynning á íslensku ullinni frá kind til klæða og Íslendingar hafa haft mjög gaman af

þessari ferð. Þetta er dagsferð um Suðurlandið með viðkomu hjá Hespu á Selfossi, Ullarvinnslunni Þingborg, Uppspuna smáspunaverksmiðju og Spunasystrum að Hárlaugsstöðum. Hádegishlaðborð með kaffi og desert er á Miðási, hrossaræktarbúi. Við endum á að fara að Hárlaugsstöðum þar sem Silla, eða Sigurlaug Guðmundsdóttir, tekur á móti okkur en þar hittast Spunasysturnar sem koma saman og lita ullina og spinna og hanna peysurnar sjálfar.”

Föngulegur hópur prjónandi stúlkna í Ullarævintýrinu síðasta sumar.

Fór í sjö dagsferðir í fyrrasumar

Hildigunnur náði að fara í 7 dagsferðir með hópa í fyrrasumar áður en covid stoppaði allt. Svo fór hún í eina tveggjadaga ferð á ION hótel þar sem með í för var prjónagúrú sem var með kynningu. Nú er Hildigunnur farin að taka við pöntunum fyrir þetta sumar og líka sumarið 2022. ,,Ferðin 2022 er 16 daga ferð sem bandarísk ferðaskrifstofa pantaði fyrir 20 manns og þar verður ekkert til sparað. Þetta er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í svona ferðum og er að byrja að bjóða Íslandsferðir.

Ég hef boðið upp á prjónaferðir í nokkur ár og yfirgnæfandi meirihluti hefur verið konur. Í seinni tíð hafa fleiri karlmenn bæst í hópinn og í sumar er eiginmaður einnar konunnar að koma með í annað sinn. Í fyrri ferðinni kom hann með fyrir eiginkonuna og hafði eiginlega ekki nennt en nú ætlar hann ekki að missa af næstu ferð.

Rjúpa travel

Uppáhaldsfugl Hildigunnar er rjúpan og þess vegna nefndi hún fyrirtæki sitt eftir þessum fallega en klunnalega fugli. ,,Rjúpan hefur verið jafn lengi hér hjá okkur og refurinn eða í tíu til ellefu þúsund ár. Hún er ótrúlega seig og dugleg, annars væri hún ekki búin að búa hér svo lengi. Útlendingum þykir gaman að kynnast íslenskum orðum og máta sig við þau. Þess vegna valdi ég fallegt

íslenskt nafn á fyrirtæki mitt.

,,Hér má sjá einn fjörugasta hópinn sem ég hef fengið frá Bandaríkjunum á heimleið eftir dagsferð um Borgarfjörðinn.“

En af hverju lögfræði?

Hildigunnur ákvað að fara í lögfræði af því hún hafði ekkert að gera í covid. ,,Ég fékk þessa hugdettu og lét slag standa og ætla að vera með rútuna sem hliðargrein. Ég sagði engum frá því að ég hefði skráð mig til að byrja með af því ég verð orðin sextug þegar ég klára og fannst eins og það væri svo mikið,” segir Hildigunnur og brosir. ,,En svo fór ég að hugsa til Bandaríkjanna þar sem þeir sem gegna æðstu embættum eru fullorðnir eins og Janet Yellen fjármálaráðherra 75 ára, Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar 81 árs og forsetinn Joe Biden 79 ára. Eigum við ekki bara að miða okkur við þetta fólk og halda ótrauð áfram,” segir Hildigunnur Fönn sem kemur auga á tækifærin og lætur engan telja úr sér kjark og segist eiginlega vera að prjóna lífið áfram eins og peysu ofan frá.

,,Næsta ævintýri verður í sumar þegar ég fer til San Francisco að hitta allar mínar prjónavinkonur, en ég hef kynnst ógrynni af æðislegum konum í gegnum prjónaferðirnar. Þar mun ég einnig fara um vesturströndina og kynna mig og ferðirnar mínar og að sjálfsögðu flettast inn í ferðina

Fallega logo Rjúpunnar með holtasóley og rjúpnalaufum.

vínræktarhéruð í Napa og Sonoma og margt fleira. Það er aldrei að vita nema að það verði einhvern daginn skipulögð prjónaferð á vesturströnd Bandaríkjanna. Svo blundar alltaf í mér að fara í menningar- og matarupplifunarferð með hóp um Puglia á Ítalíu því það er alveg einstakt svæði,” segir þessi lifandi kona sem er með hugmyndir sem verða að komast í framkvæmd svo við hin getum tekið þátt.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 4, 2021 07:00