Vilja frekar þrífa baðherbergið en fara til læknis

Það er töluvert um það skrifað, bæði á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum að karlmenn hugsi ekki jafn vel um heilsuna og konur.

Aðeins helmingur karla sagðist fara reglulega til læknis, í könnun sem gerð var í Cleveland í Bandaríkjunum. Rúmlega 70% sagðist frekar vilja sinna heimilisstörfum svo sem eins og að þrífa baðherbergið, en fara til læknis. Þetta kemur fram í nýlegri grein á vef Bandarísku efirlaunasamtakanna AARP. Greinin er hér stytt og endursögð.

Konur eru líklegri til að fara í heilsutékk, og læknirinn Bradley Gill, sem rætt er við í greininni segir að þær tengist heilbrigðiskerfinu fyrr á ævinni. Þær byrji snemma á að fara til kvenlækna og séu því reyndari í þessu en karlarnir, sem fari kannski ekki til læknis í skoðun fyrr en þeir eru komnir yfir þrítugt og jafnvel fertugt.

Gill ráðleggur körlum að fara reglulega í læknisskoðun, en það kemur þó fram í Cleveland könnuninni að eldri karlar eru miklu duglegri að notfæra sér heilbrigðiskerfið en þeir yngri. Í  könnuninni kom einnig fram að körlum er ekkert vel við að ræða heilsufar sitt, ekki einu sinni við lækni. Þeim finnst hreinlega óþægilegt að ræða ákveðin mál og kæra sig ekki um fyrirskipanir um að þeir þurfi að breyta mataræði sínu eða lífsstíl. Sumir karlar voru samkvæmt könnuninni hræddir við að fá óþægilega greiningu færu þeir til læknis.

Gill segir að karlar eigi sérstaklega erfitt með að ræða vandamál varðandi ris og þvaglát. Það sé hins vegar mikilvægt að skoða slík einkenni, þar sem þau geta verið merki um sjúkdóma, svo sem eins og hjartasjúkdóma eða sykursýki. Það getur verið eðlilegt að eiga erfiðara með þvaglát þegar aldurinn færist yfir og blöðruhálskirtillinn stækkar,en slíkir erfiðleikar geta einnig bent til þess að menn séu með æxli í blöðruhálskirtlinum sem skiptir máli að greina snemma til að meðhöndlun skili árangri.

„Þess vegna viljum við fá karlmenn til að koma snemma til okkar, áður en einkenni fara að gera vart við sig“, segir hann og finnst gott þegar hann ræðir við karlmenn um heilsufar þeirra að benda þeim á hvernig þeir hugsa um bílinn sinn. „Þú skiptir um dekk, lætur smyrja bílinn og skipta um olíu. Þú vilt ekki bíða þangað til það fer að rjúka úr húddinu og bíllinn hættir að fara í gang. Þannig er þetta líka þegar kemur að heilsufarinu“, segir hann við þá.

Ritstjórn nóvember 14, 2019 07:04