Unaðslegur tagliatelleréttur með pestó, sveppum og kjúklingabringum!

Tagliatelle er ítalskur réttur sem sérlega einfalt er að útbúa. Gott hvítlauksbrauð gerir réttinn enn betri. Svo ekki sé talað um gott rauðvínsglas. Með þessum rétti er líka gott að bera fram hvítvín. Pastaréttur er saðsamur og þess vegna tilvalið að hafa þegar metta á marga munna. Með brauði er hann enn meira mettandi og svo er ekki verra að kostnaðinum er haldið í lágmarki þótt um sælkerarétt sé að ræða.

Uppskrift fyrir 6-8

1 dós þurrkaðir kantarllusveppir, fást í stórmörkuðum og sælkerabúðum

6-8 hreiður af tagliatelle pasta

1 hvítlauksrif, marið

2 – 3 msk. paprikupestó frá Rustichella

6 msk. ólífuolía

3 kjúklingabringur, kljúfið í tvennt þannig að úr verði 6 stk. og 2-4 hvítlauksrif

Leggið sveppina í sjóðandi heitt vatn og látið liggja í 10 mín. Takið þá upp úr vatninu og leggið á eldhúsbréf til þerris og annað yfir og klappið létt. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakka. Steikið sveppina í olíunni á pönnu ásamt hvítlauknum og pestói og látið malla í um 5 mínútur. Látið renna af pastanu og blandið pestósveppunum saman við. (Bæta má ferskum kantarellusveppum sem búið er að smjörsteikja og skera til helminga saman við)

Hitið ofn í 175°C og smyrjið eldfast mót með pestóinu. Sneiðið hvítlaukinn og dreifið yfir pestóið. Leggið kjúklinginn yfir hvítlaukinn og smyrjið pestói þar yfir líka. Dreypir ólífuolíu þar yfir. Útbúið 2 dl af kjúklingasoði (vatn og kraftur) með 1-2 msk. af hvítvínsediki út í og hellið yfir bringurnar. Bakið í ofninum í 15 mínútur, hrærið þá aðeins í mótinu og leggið álpappír eða lok yfir mótið og bakið áfram í 15 mínútur.

Skiptið pastanu á 6 diska, leggið bringurnar ofan á og ausið soðinu frá þeim yfir. Berið frem með hvítlauksbrauði.

 

Ritstjórn mars 12, 2021 15:15