Úrelt að miða endurnýjun ökuréttinda við sjötugt

Svanberg Sigurgeirsson, deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja.

Almenn ökuréttindi hér á landi þarf að endurnýja við 70 ára aldur. Margir sérfræðingar telja eðlilegt að hækka viðmiðunaraldurinn í 75 ár. Þeirra á meðal er Svanberg Sigurgeirsson, deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja. Hann hefur áratugareynslu sem prófdómari og segir að bestu ökumennirnir séu fólk sem er komið yfir sextugt. „Þeir sem eru sjötugir eru líklega varkárustu ökumennirnir. Margir sem komnir eru yfir áttrætt eru einnig prýðisgóðir ökumenn.“

Björgvin Þór Guðnason, formaður Ökukennarafélags Íslands, tekur í sama streng, en hann segir að það séu undantekningartilvik að sjötugir ökumenn búi við skerta aksturshæfni og þurfi að endurnýja ökuréttindin af þeim sökum. Nú séu einfaldlega breyttir tímar og fólk sé hæfara til að keyra eftir sjötugt en áður var.

Lifðu núna vakti athygli á því í síðustu viku að yfir 70 einstaklingar hefðu þurft að þreyta próf í aksturshæfni á rúmu ári af því að réttindi þeirra höfðu runnið út.

Aldursfordómar í lögum um endurnýjun ökuskírteina

Athygli vakti 18. maí sl. þegar Þórunn Sveinbjörnsdóttir, fráfarandi formaður Landssambands eldri borgara, skrifaði grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni „Vanvirðing við eldra fólk“. Þar segir hún m.a. að í lögum um endurnýjun ökuskírteina endurspeglist aldursfordómar. Lögin séu gömul og miðist við þann tíma þegar fólk um sjötugt var líkt og fólk er í dag um áttrætt. „Við lifum lengur og getum æði margt mun lengur en foreldrar okkar. Danir hafa aflagt sambærilegar reglur og hér eru um endurnýjun ökuskírteina. Kostnaður fyrir samfélagið er mikill; læknisferð og ferð til sýslumanns, eina sem hefur batnað er að ekki þarf mynd í hvert sinn.“

Þórunn skorar á stjórnvöld að aflétta þessu úrelta kerfi. „Æði margir vita ekki af því að það þarf að fá nýtt ökuskírteini 70 ára því enginn er að skoða svo gamalt próf, sem getur verið 53 ára gamalt. Var einhvern tíma á þessum 53 árum boðið upp á endurmenntun? Nei, en lítil tilraun var gerð fyrir nokkrum árum í ökuendurhæfingu með samgöngustofu. Það námskeið líkaði mjög vel og þarf að taka upp að nýju.“

Ýmis úrræði fyrir óörugga bílstjóra

Björgvin Þór Guðnason, formaður Ökukennarafélags Íslands.

Þeir Svanberg og Björgvin Þór ráðleggja eldra fólki að taka nokkra ökutíma hjá ökukennara ef þeir finna fyrir óöryggi í umferðinni. Ökukennarafélag Íslands leiðbeinir fólki með val á ökukennara. Þá getur fólk sótt upprifjunarnámskeið um öryggi í akstri fyrir eldri ökumenn þegar það býðst. „Umferðin er orðin meira krefjandi og vandasamari en hún var og það krefst góðrar færni að komast á milli staða. Flestir eldri ökumenn aka mjög vel en hjá öllum kemur að þeim degi að heilsan leyfir ekki frekari akstur. Það gerist hins vegar talsvert seinna en áður var,“ segir Svanberg.

Dæmi um þætti sem fylgja oft hækkandi aldri og geta haft áhrif á akstur er viðbragðstími, en hann lengist og hreyfingar verða hægari. Þá á eldra fólk erfiðara með að skynja hraða og fjarlægð, sjón og heyrn skerðist, hreyfigeta minnkar og stirðleiki eykst, það á erfiðara með að muna, ekki síst nýleg atriði, auk þess getur inntaka lyfja sem eru merkt með rauðum þríhyrningi hamlað akstri.

Svanberg hvetur aldraða bílstjóra sem finna fyrir óöryggi í umferðinni að kynna sér fyrirkomulag akstursþjónustu eldri borgara í þeirra sveitarfélagi. Þá sé full ástæða til að bera saman kostnað við að reka bíl samanborið við að nýta almenningssamgöngur, akstursþjónustu sveitarfélaga eða leigubíl.


Sjá einnig:


 

Ritstjórn júní 8, 2021 07:30