Fordómafullt viðhorf gegn eldra fólki og ellinni

Það var bandaríski geðlæknirinn og öldrunarfræðingurinn Robert Butler sem árið 1967 kynnti hugtakið “ageism” eða aldursfordóma.  Þetta kemur fram á vísindavef Háskóla Íslands. Hugtakið vísar til staðlaðrar ímyndar og fordóma gegn fólki á tilteknum aldri, til að mynda gamals fólks, alveg eins og kynþáttafordómar og kynjamisrétti verða vegna húðlitar eða kynferðis. Dæmi um fordóma gegn öldruðum er þegar því er haldið fram að þeir séu staðnaðir, sérvitrir og heilsulausir. Hér birtist það sem um þetta er ritað á Háskólavefnum.

Samkvæmt íslenskum lögum eru þeir sem eru 67 ára og eldri skilgreindir aldraðir. Í okkar samfélagi þar sem æskudýrkun virðist mikil geta fordómar og mismunun tengd aldri samt byrjað miklu fyrr. Aldursfordóma má til dæmis sjá á vinnumarkaði þar sem eldri borgarar fá ekki sömu tækifæri og þeir sem yngri eru vegna aldurs síns. Aldraðir verða einnig fyrir því að þeim er ekki treyst á sama hátt og yngra fólki, eru taldir lélegri vinnukraftur þó svo að engar sannanir séu fyrir því að svo sé. Vissulega eru aldraðir ekki eins snöggir í viðbrögðum og yngra fólk en þeir vinna verkið oft betur og eru tryggari starfskraftur. Aldursfordóma má einnig greina í viðhorfi sumra starfsmanna öldrunarþjónustu sem tala niður til aldraðra og telja sig vita betur hverjar séu þarfir þeirra og óskir.

Fordómafullt viðhorf getur beinst bæði gegn eldra fólki og ellinni sem er síðasta tímabil ævinnar. Aldraðir geta sjálfir haft fordóma gagnvart því að eldast. Það er meðal annars tilkomið vegna þeirrar sjálfsmyndar sem þeir hafa og þess viðhorfs sem þeir telja að aðrir hafi til þeirra. Kröfur samfélagsins eru að allir eigi að vera ungir, frískir og fallegir. Þetta á sérstaklega við um konur og því verða aldraðar konur oftar fyrir fordómum en eldri karlmenn.

Í rannsókn sem gerð var á umfjöllun fjölmiðla um málefni aldraðra í Evrópu kom fram að einkum var fjallað um aldraða sem vandamálahóp sem krefjist útgjalda. Umræða um að þjónusta við aldraða sé of kostnaðarsöm fyrir samfélagið og að ekki séu efni til að veita þeim viðeigandi þjónustu getur skapað vanlíðan og óöryggi hjá þessum aldurshópi.

Fordómar eru oft og tíðum byggðir á þekkingarleysi. Til að vinna gegn aldursfordómum er mikilvægt að gera ungu fólki grein fyrir því hvernig slík viðhorf mótast og kenna því að bera virðingu fyrir eldra fólki. Þarna geta fjölmiðlar sýnt fordæmi með því að efla jákvæða umræðu og kynningu á málefnum aldraðra. Fjölskyldufræðsla í skólum um öll æviskeið skapar líka skilning á að hvert aldursskeið hefur sína veikleika og styrkleika. Samt verður að hafa í huga að setja ekki alla aldraða undir einn hatt; aldraðir eru ólíkir, með misjafnar þarfir og væntingar, en allt að 30 ár geta verið milli þess elsta og yngsta í hópnum sem við skilgreinum aldraða. Æskilegt er að kynslóðirnar umgangist hver aðra sem mest því minni hætta er á að fólk hafi fordóma gagnvart þeim sem það hefur kynnst af eigin raun.

Ritstjórn janúar 17, 2023 07:00