Verðugt verkefni fyrir Willum

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Frábært starf er unnið á hjúkrunarheimilum. Að því hef ég komist eftir að nákominn ættingi minn þurfti á slíkri þjónustu að halda eftir að heilsa hans gaf sig. Á því heimili sem ég þekki til er örugg stjórn og upplýsandi fyrir aðstandendur, vingjarnlegt og hjálpsamt starfsfólk og góður viðurgjörningur í alla staði, hjúkrun og læknishjálp – nema að einu leyti. Hvorki þetta heimili né önnur slík geta sinnt tannheilsu heimilismanna. Þau mál eru almennt í ólestri á hjúkrunarheimilum.

Það sást glöggt í nýlegri og yfirgripsmikilli fréttaskýringu Ríkisútvarpsins. Þar kom fram að meginþorri aldraðra á hjúkrunarheimilum þjáist vegna ómeðhöndlaðra tannvandamála. Aðgengi að tannlæknaþjónustu er slæmt þrátt fyrir fulla greiðsluþátttöku hins opinbera. Fram kom að starfsfólk heimilanna skortir þekkingu til að sinna tannhirðu og að vandamálið muni aðeins stækka með auknum fjölda aldraðra og því – sem vissulega er fagnaðarefni – að æ fleiri aldraðir halda tönnum sínum, ólíkt því sem áður var, eins og Börkur Thoroddsen tannlæknir lýsti í viðtali við Lifðu núna fyrir rúmum tveimur árum þegar hann leit yfir langan starfsferil:

„Þegar ég kom heim frá námi fyrir 50 árum þótti eðlilegt að fólk yfir fimmtugt væri komið með gervitennur. Núna þykir ekki sjálfsagt að fólk missi tennurnar þegar það eldist. Flestir fullorðnir eru nú með eigin tennur, að minnsta kosti nógu margar til að geta tuggið, talað og brosað,” sagði Börkur. Hann bætti því við að næsta stórmál í tannlækningunum væri tannheilsa eldra fólks sem væri komið inn á stofnanir. Það sé ef til vill orðið gleymið og ekki nógu handlagið lengur til að  stunda rétta munnhirðu. „Fyrir 50 árum fór fólk inn á stofnanir með sínar gervitennur og það var ekkert mál. En þegar eldra fólk kemur inn á stofnun í dag  kmeð eigin tennur og þeim er ekki haldið hreinum, fer allt á verri veg og afleiðingarnar eru tannskemmdir og tannholdssjúkdómar,” sagði hinn reyndi tannlæknir.

Þetta ástand varð mér umhugsunarefni þegar haft var samband við okkur aðstandendur og sagt að okkar maður á hjúkrunarheimilinu þyrfti á tannlæknaþjónustu að halda, væri með tannpínu. Engin aðstaða væri á heimilinu til að sinna slíku. Við vorum jafnframt spurð hvort við hefðum tök á að koma honum til tannlæknis en hann er ekki ferðafær með hefðbundnum hætti, enda ýmist í göngugrind eða hjólastól. Okkar aðstaða er betri en flestra í þeim efnum því fyrirtæki konu minnar annast meðal annars akstur fatlaðra. Við gátum því útvegað sérútbúinn bíl með lyftu og festingum fyrir hjólastól. Hjúkrunarheimilin eru almennt ekki með samninga um slíka flutninga, að því er best ég veit, en eflaust má leita eftir slíkri þjónustu hjá leigubílastöðvum.

Þegar komið var til tannlæknisins var aðstaðan heldur ekki góð til að koma manni í hjólastól í tannlæknastólinn þótt það tækist með sameiginlegu átaki. Fleiri slíkar ferðir hafa fylgt í kjölfarið, þar sem við njótum sérstöðu okkar hvað flutningana varðar, m.a. til sérfræðings, en þar var jafn önugt að koma sjúklingnum úr hjólastólnum í tannlæknastólinn.

Við ófremdarástandi í tannhirðu og tannlækningum aldraðra á hjúkrunarheimilum verður að bregðast í samstarfi heimilanna og stjórnvalda, enda er lýsingin á því ástandi ófögur, svo enn sé vitnað í fréttaskýringu Ríkisútvarpsins, en þar kom fram að í klínískri rannsókn sem gerð var á íbúum tveggja hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu var mikil meðferðarþörf hjá nær 80% þeirra sem skoðaðir voru. Vandamálin blasa við starfsfólki en þjónustan er orðin flóknari þar sem fólk heldur tönnum sínum, er oft með krónur eða brýr sem þarfnast jafnvel sérstakra þrifa sem eru ekki á færi ófaglærðra að annast. Tannburstun er áfátt og vill verða útundan þegar álag er mikið, enda er undirmönnun þekkt vandamál á hjúkrunarheimilum. Í rannsókninni á hjúkrunarheimilunum tveimur kom fram að hjá 40% þátttakenda voru meira en fimm ár liðin frá síðustu tannlæknisheimsókn.

Í fréttaskýringunni sagði frá því að fyrir allmörgum árum hefðu verið tannlæknastofur á tilteknum hjúkrunarheimilum sem hefðu gefist vel. Sá rekstur strandaði, að sögn forstöðumanns, á áhuga og mögulega getu og þar á forstöðumaðurinn við áhuga tannlæknanna sjálfra. Jafnframt kom fram að á landinu væri aðeins einn starfandi sérfræðingur í öldrunartannlækningum. Álit hans er að helst þyrfti að vera aðstaða fyrir tannlækna inni á hjúkrunarheimilum, stóll, góð lýsing og grunntækjabúnaður. Við það má bæta, af eigin reynslu, að full þörf er á lyftubúnaði fyrir þá sem eru með takmarkaða hreyfigetu. Þessi eini sérfræðingur okkar í öldrunartannlækningum leggur enn fremur til að ríkið setji upp sérstaka tannlæknastofu fyrir færniskerta einstaklinga, aldraða, sjúklinga og fólk með fötlun sem tannlæknar geta ekki tekið á móti nú. Jafnframt var nefnt að tannfræðingar, sem eru fámenn stétt, gætu verið hluti að lausn vandans, en fyrir hrun var vinna við að setja á fót nám í tannfræði við Háskóla Íslands langt komin. Tannfræðingar, sem kæmu til starfa á hjúkrunarheimilum, gætu sinnt flókinni umhirðu og frætt starfsfólk.

Hér er því verk að vinna, við svo búið má ekki standa. Það er verðugt verkefni fyrir Willum Þór Þórsson, nýjan heilbrigðisráðherra, að leita lausna á því ófremdarástandi sem ríkir þegar kemur að tannhirðu og tannheilsu heimilismanna á hjúkrunarheimilum. Þjónustusamningar hjúkrunarheimila eru lausir í febrúar næstkomandi. Það væri því ráð, í leit að farsælli lausn, að Willum hringdi í Ölmu landlækni og byði henni í kaffi á nýju ráðherraskrifstofunni.

 

Jónas Haraldsson desember 6, 2021 07:33