Merkismaður

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Fyrstu dagana horfði afgreiðslustúlkan í Netto á mig í forundran þegar ég sagði svo skýrt sem ég mátti „mærke” og rétti fram höndina. Hún skildi ekki danskan framburð gamla máladeildarstúdentsins. Við vorum sem sagt ekki í Nettó í Mjódd heldur Netto í Gentofte, í úthverfi Kaupmannahafnar. Þar búa sonur okkar og tengdadóttir með börn sín fjögur, tæpan helming barnabarna okkar hjóna. Við vorum í jólaheimsókn hjá þeim nýverið. Tengslin mega ekki rofna þótt haf skilji að. Sonurinn kom föður sínum til hjálpar. Framburður hans á „mærke” var eins og hjá innfæddum, enda hefur hann búið meðal frænda okkar árum saman.

Ég hafði fyrirmæli konu minnar um að biðja um merki þegar við feðgar keyptum í kvöldmatinn. Danska Netto býður viðskiptavinum sínum þessi merki. Þeim má safna til síðari notkunar og fá þá eitthvert fínirí á góðu verði. Hún hefur gaman af svona leikjum. Kúpónar kallast þetta fyrirbrigði afsláttarmiða í Vesturheimi og nýtur vinsælda. Þeir hafa ekki náð fótfestu hérlendis, einhverra hluta vegna. Mér fór fram í framburðinum eftir því sem á Kaupmannahafnardvölina leið og þar kom að ég varð svo gormæltur að stúlkan á kassanum rétti mér merkin athugasemdalaust – og heim fórum við hjónin með með forláta pönnu úr Netto og hníf í kaupbæti. Þá kom sér vel að hafa keypt tösku í belg flugvélar lággjaldaflugfélagsins. Vont hefði verið að mæta með hnífinn í handfarangri á Kastrup.

Merki hafa annars ekki skipað stóran sess í lífi mínu. Þó man ég það frá æskudögum að siður var selja merki fyrir hin ýmsu góðgerðafélög. Sem strákur tók ég þátt í því þótt aldrei næði ég góðum tökum á sölumennskunni. „Við kaupum ekki merki,” var jafnan viðkvæði þeirra sem opnuðu dyr sínar þegar bankað var – en stöku góðmenni sá þó aumur á sölumanni og splæsti í merki.

Eina merkið sem ég eignaðist sem unglingur var bronsmerki fyrir 200 metra sund. Á þeim tíma tóku Íslendingar þátt í norrænni sundkeppni og unnu alltaf – enda var miðað við höfðatölureglu. Þeir sem syntu endalaust fengu gullmerki. Þeir sem sæmilegir voru syntu til silfurmerkis. Ekki man ég hversu margar 200 metra ferðir þurfti að synda til þess að ná silfrinu. Ég fékk bronsmerki. Það var, ef ég man rétt, veitt þeim sem syntu eina bunu.

Önnur merki fékk ég ekki næstu áratugina.

Það breyttist hins vegar á dögunum. Þá hringdi í mig formaður Blaðamannafélags Íslands og boðaði mig á hátíðarfund í félaginu í tilefni 120 ára afmælis þess. Hann gat þess um leið að til stæði að sæma mig gullmerki hins virðulega félags fyrir 40 ára störf í blaðamennsku – og nokkra aðra blaðamenn sem náð hefðu þessum langa starfsaldri í greininni. Það kom mér nokkuð á óvart, enda tel ég mig enn á besta aldri, en tölurnar ljúga ekki. Ég byrjaði í blaðamennsku á Dagblaðinu annan dag páska árið 1977. Ferillinn þessa áratugi spannaði fleiri blöð, DV, arftaka Dagblaðsins, þá Viðskiptablaðið og loks Fréttatímann.

Ég þakkaði formanninum hugulsemina, mætti á tilsettum tíma og tók við mínu merki líkt og góðir félagar af hinum ýmsu fjölmiðlum. Þar með var ég formlega orðinn merkisberi – eða merkismaður, jafnvel merkilegur maður. Þetta var þó gullmerki, ekki bronsmerki eins og í 200 metra sundinu forðum daga, hvað þá kúpon úr danska Netto.

Vissulega var gaman að fá gullmerki frá svo fínum klúbbi sem Blaðamannafélagið er en samt voru efasemdir innra með mér hvort ég gæti þar með kallað mig merkismann. Ég fletti því upp í Íslenskri orðabók, þeirri sem Mörður Árnason ritstýrði. Þar segir að merkismaður sé merkur maður eða afburðamaður.

Það er nú það. Jafnvel þótt maður sé sáttur við sjálfan sig og þar með fjörutíu ára starfsferil sem blaðamaður er varla hægt að guma af því, að minnsta kosti ekki opinberlega, að maður sé afburðamaður.

Ég kaus því að tóna þetta aðeins niður og fletta upp orðinu merkisbera hjá Merði. Jú, það gat passað. Merkisberi er sá sem ber merki. Því verður ekki á móti mælt. Ég er merkisberi, ber gullmerki Blaðamannafélags Íslands. Svo las ég aðeins lengra í orðabókinni. Þar var gefin önnur merking á merkisberanum, nefnilega forystumaður.

Það skyldi þó aldrei vera?

Jónas Haraldsson desember 18, 2017 11:38