Stund milli símastríða

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

„Úr símunum og út með ykkur,“ kallaði ég um leið og ég opnaði dyrnar hjá ungsveinunum þar sem þeir lágu hver um annan þveran í símum sínum. Í þeim stellingum höfðu þeir verið frá því að þeir vöknuðu, að þeim tíma undanskildum er þeir gleyptu í sig morgunkornið.

Drengirnir voru fjórir, frá tæplega 9 til 12 ára, barnabörn okkar hjóna og með okkur í húsi vestur á fjörðum. Þeir litu upp úr símunum og störðu í forundran á afa sinn. Sá gamli var ekki vanur að byrsta sig við þá en nú var honum nóg boðið. Út skyldu þeir, út í veðurblíðuna og náttúruna allt um kring. Snjallsímar samtímans eru undratæki og auðvelda okkur lífið á margvíslegan hátt en þeir eru lúmskir. Þeir soga okkur að sér, ekki síst ungdóminn — þótt hinir fullorðnu séu margir hverjir ekkert skárri þegar kemur að margra tíma símastöru.

„Við erum saman í leik,“ sögðu strákarnir með mótmælatón í röddinni, „megum við ekki klára?“ „Klára,“ sagði ég, þið hafið hangið í símunum klukkutímum saman. Nú er nóg komið og þó fyrr hefði verið. Nú komið þið með mér niður í fjöru. Við skulum sjá hvað við finnum. Í stígvélin með ykkur.“

Strákarnir sáu að afanum var alvara. Það þýddi ekki að mótmæla þótt þeir hafi eflaust hugsað sitt. Fjaran var ekki spennandi í þeirra huga á þessari stundu. Það var leikurinn sem átti hug þeirra allan, leikur — og leikir — sem afinn hefur engan skilning á þar sem þeir tala ensku sín á milli ekki síður en íslensku þegar hæst stendur. „Bíddu aðeins, afi,“ sögðu þeir, „meðan við setjum símana í samband, hleðslan er alveg að klárast.“ Piltarnir vildu greinilega hafa vaðið fyrir neðan sig og vera tilbúnir í framhald leiksins um leið og skylduferð með afa í fjöruna lyki.

Við röltum stígvélaskæddir í fjöruna. Það var alveg fallið út svo afanum gafst tækifæri til þess að fræða ungu mennina aðeins um flóð og fjöru. Þeir tóku þeirri kennslustund með stillingu, eflaust enn með hugann við leikinn sem hætti svo skyndilega. „Sjáið þið þetta,“ sagði ég, „þetta er marglytta.“ „Er hún dauð?“ var spurt. „Já,“ svaraði ég, „það hefur fjarað undan henni svo hún hefur þornað upp.“ „Hér er fullt af skeljum,“ hélt ég áfram og benti þeim á ýmsar skeljategundir, bláskel, öðu, kúfskel og hörpudisk, að ógleymdum kuðungum af ýmsum stærðum. Strákarnir voru spenntastir fyrir kuðungunum, einkum þeim stærri. Áhugi þeirra var aðeins að vakna. Leikurinn góði í símanum fjarlægðist hugann. „Við skulum fara aðeins lengra og vita hvað við sjáum,“ sagði ég. Fram undan voru hólmar og sker sem fallið hafði frá. „Þetta er svakaleg drulla,“ sagði yngsti drengurinn þegar hann reyndi sig við svartan sjávarleirinn, „maður festir lappirnar í þessu.“ Ég tosaði hann upp. Eldri strákarnir virtust hafa gaman af drullumallinu. Stígvélin fengu loks að njóta sín. Þegar við komumst að sjónum opnaðist nýr heimur. Litskrúðugir steinar voru úti um allt sem gaman var að skoða. Þeim fallegustu var stungið í vasann. Tölvuleikurinn var gleymdur.

„Eigum við að fleyta kerlingar,“ sagði ég við góðar undirtektir þótt ekki væru allir vel heima í þeim leik að láta steina skoppa eftir haffletinum. Aðstæður voru eins góðar og kostur var, blankalogn og sléttur sjór. „Þið verðið að finna flata og hæfilega létta steina,“ sagði ég og sýndi þeim kúnstina sem ég kunni svo vel þegar ég var í sveit á þeirra aldri. Strákarnir létu ekki segja sér það tvisvar. Nóg var af heppilegum steinum til kerlingafleytinga. Guttanir glöddust eftir því sem kerlingarnar náðu fleiri skoppum á spegilsléttum fletinum. Þeir kepptu um það hver næði flestum skellum og fögnuðu hverju nýju meti.

Á heimleiðinni leituðum við að kröbbum í þaranum. Við fundum marga af ýmsum stærðum. „Megum við eiga þá?“ sögðu strákarnir í kór. Ég hvatti þá til að safna sem flestum og skoða gaumgæfilega, bæði búk og klær. Dauðir krabbar eru hins vegar viðkvæmir og margir urðu fyrir fótamissi í þeim flutningum, en það kom ekki verulega að sök.

Fuglarnir í fjörunni vöktu athygli drengjanna. Við sáum álftapar með fjóra unga og urmul af æðarkollum með unga sína. Mávar flugu hátt í eilífri ætisleit og skarfur sat á steini og þurrkaði vængina. Loks heiðraði okkur sá stóri við fjallsbrún. Haförn sveif þar í uppstreymi án þess að blaka vængjum. Sveinarnir horfðu stóreygðir á þennan konung í ríki sínu og afinn ekki síður. Það er fátt jafn tígulegt og örn á flugi. Enginn tölvuleikur slær slíkt út.

Í brekkunni heim að húsinu litum við eftir því hvort selirnir væru ekki enn á sínum stað í sólbaði á steinum. Það stóð heima.

Amma bannaði okkur að koma inn á stígvélunum, kannski ekki að ástæðulausu, en beið með nýbakaðar vöfflur. Drengirnir höfðu frá nógu að segja, um leið og þeir skófluðu í sig vöfflunum, en amman afþakkaði krabbaskoðun sem boðið var upp á og bað þá vinsamlegast að geyma þær gersemar úti.

Mér til nokkurrar undrunar var beðið um blöð og liti að kláruðum vöfflum í stað þess að fara strax í nýhlaðna símana. Ég sá ekki betur en þar myndgerðust ernir með mikið vænghaf og skerpu í augum.

Er á meðan er, hugsaði ég, þetta var að minnsta kosti stund milli símastríða.

Jónas Haraldsson júlí 19, 2021 07:30