Helgi Pé bjartsýnn á að sigur náist í máli Gráa hersins

Aðalmeðferð máls Gráa hersins vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þriðjudaginn 5. október. Upphaflega var gert ráð fyrir að hún yrði 7. september, en vegna anna hjá ríkislögmanni óskaði ríkið eftir fresti, sem dómari málsins Kjartan Bjarni Björgvinsson féllst á.

Aðstandendur Gráa hersins ásamt fulltrúa ríkislögmanns í Héraðsdómi þegar málið var tekið fyrir.

Flóki Ásgeirsson, sem er lögmaður Gráa hersins í þessu máli, gerir ráð fyrir að aðalmeðferðin taki um það bil þrjár klukkustundir. Þegar henni er lokið má búast við að dómur falli eftir einn til tvo mánuði. Sótt var um gjafsókn í málinu, sem nú hefur verið samþykkt. Það þýðir að einstaklingarnir sem höfða málið í nafni Gráa hersins fá að minnsta kosti hluta málskostnaðarins greiddan úr ríkissjóði. Flóki segir að það hafi verið sjálfsagt að sækja um gjafsókn í málinu, sem hafi ekki einungis þýðingu fyrir einstaklingana þrjá sem eru í forsvari fyrir því, heldur flestalla eldri borgara landsins.

Enginn veit hverjar lyktir málsins verða, en Flóki segir að hann sé bjartsýnn þegar hann fari yfir rökin í málinu. „Þetta er sterkur málsstaður. Það á eftir að koma í ljós hvaða mynd málflutningur ríkisins tekur á sig, en ég leyfi mér að vera bjartsýnn,“ segir hann.

Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara fagnar gjafsókninni í máli Gráa hersins og segist bjartsýnn á að sigur náist í málinu. „Ég byggi það á umræðunni í þjóðfélaginu sem hefur verið mikil og jákvæð í okkar garð, menn eru farnir að velta mjög fyrir sér réttmæti þessara skerðinga og í þriðja lagi hefur runnið upp fyrir fólki hvað þetta eru miklir peningar, samtals 45,5 milljarðar króna.“

Barátta Gráa hersins: Útifundur á Austurvelli þegar GH var nýlega stofnaður

Ritstjórn september 23, 2021 14:43