Eldra fólk í heimabönkum og á Netflix

Ný könnun um hagi og líðan aldraðra á Íslandi er komin út, en það var Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem gerði hana fyrir Félagsmálaráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Landssamband eldri borgara. Þetta er í fimmta sinn sem slík könnun er gerð, en fyrsta könnunin var gerð árið 1999.  Nýja könnunin er gerð meðal 1800 Íslendinga 67 ára og eldri, sem búa hér á landi.

Níu af hverjum tíu telja sig við góða andlega heilsu og 68% segjast vera góðir til líkamlegrar heilsu. 78% telja sig hafa gott aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda og ríflega helmingurinn telur þjónustuna bæði góða og ódýra.

Eldri borgarar hafa sótt í sig veðrið í tæknimálum miðað við könnunina sem gerð var fyrir 5 árum mikill meirihluti þeirra á tæki eins og  tölvur og  snjallsíma. Margir eiga líka spjaldtölvur og snjallúr.

75% nota internetið til að hafa samband við vini og fjölskyldu og álíka margir, eða 74% nota heimabanka á netinu. Það er eins og gefur að skilja nokkuð misjafnt eftir aldri, hversu vel menn hafa tileinkað sér tölvutæknina. Þannig nota 90% þeirra sem eru á aldrinum 67-69 ára heimabankann á netinu, enda vanir tölvunotkun úr atvinnulífinu þegar þeir fara á eftirlaun. Þeir sem eru 88 ára og eldri eru skiljanlega ekki jafn færir, en 19% þeirra notar þó heimabanka samkvæmt könnuninni. 46% horfa á efnisveitur eins og Netflix og rúmur helmingur hlustar á tónlist frá steymisveitum eins og Spotify. 37% versla á netinu.

Mjög margir eldri borgarar hafa upplifað ákveðna einangrun eftir að Covid skall á, eða um 60%. Menn skilgreina einangrunina frá því að vera svolitla og allt upp í mikla. 40% hafa hins vegar ekki orðið varir við að Covid hafi aukið einangrun þeirra. Langflestir telja samt að þetta muni ekki hafa varanleg áhrif.  19% finnst að andlegri heilsu þeirra hafi hrakað á þessu tímabili, á meðan 80% finnst það ekki. Nokkuð hefur dregið úr líkamsþjálfun hjá eldra fólki og 28% telja að líkamlegri heilsu þeirra hafi hrakað í Covid.

Um 17% þeirra sem eru komnir á eftirlaunaaldur, eru í launaðri vinnu og rúmlega 20% segjast myndu vilja vinna launavinnu stæði það til boða. Það er hins vegar stór hópur eldri borgara, eða um 80% sem hafa ekki áhuga á launaðri vinnu á þessu æviskeiði.

Fjórðungur eldri borgara er með minna en 320.000 krónur á mánuði í ráðstöfunartekjur. Það er svipað og í fyrri könnunum, miðað við uppreiknaðar tölur.

Það er fjallað um margt í þessari könnun sem gaman er að skoða.  Það má sjá hana í heild sinni á þessum link.

 

Ritstjórn apríl 13, 2021 07:33