Konur 65 ára og eldri meira einmana en karlar

Einmanaleiki hér á landi er mestur meðal ungra karlmanna og eldri kvenna, ef marka má rannsókn sem Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sálfræðingur og sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis fjallaði nýlega um á málþingi um einmanaleika. Málþingið var haldið í samvinnu Landssambands eldri borgara og Farsællar öldrunar, með styrk frá heilbrigðisráðuneytinu. Yfirskrift þess var Veistu, ef þú vin átt.

Dóra Guðrún talar á málþinginu

Dóra sýndi meðal annars tölur um einmanaleika hjá fólki sem er 65 ára og eldra.  Árið 2019 sögðust 9% kvenna á þessum aldri vera einmana, en einungis 4,3% karla vera oft eða mjög oft einmana.  Á þessu Covid ári brá svo við að tölurnar fyrir þennan aldurshóp lækkuðu aðeins. 7,7% kvenna sögðust oft eða mjög oft einmana og 2,9% karlanna. Það vekur athygli að þrátt fyrir Covid, jókst einmanaleiki eldra fólks ekki, heldur þvert á móti.

Ungir karlmenn mest einmana

Dóra fór einnig yfir það á málþinginu hvers vegna fólk verður einmana. En miðað við alla aldurshópa, hefur hópur þeirra sem er oft eða mjög oft einmana verið í kringum 11% á árunum 2016-2020.  Sá hópur sem er mest einmana á Íslandi eru ungir karlmenn Það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk verður einmana, en þar vega tengslin við annað fólk þyngst. Það er hins vegar misjafnt hversu mikla þörf menn hafa fyrir félagsskap annarra. En ef þörf fólks fyrir félagsleg samskipti og tengsl er ekki fullnægt veður það einmana. Það kemur ekkki á óvart í ljósi þess að í hamingjurannsóknum kemur fram að enginn þáttur spáir betur fyrir um hamingju og vellíðan en góð félagsleg tengsl.

Íslendingar geta stólað á vini eða ættingja

Samkvæmt tölum fyrir árin 2013 til 2015 voru Danir haminngjusamasta þjóð í heimi, þá Sviss og Íslendingar voru í þriðja sæti.  Næst þar á eftir komu Norðmenn og Finnar. Samanburður milli OECD ríkjanna sýnir líka að  þegar fólk var spurt  hvort það ætti vini eða ættingja sem þeir gætu stólað á í erfiðleikum, skoruðu Íslendingar hæst, en 98% þeirra sem spurðir voru sögðust eiga slíka bakhjarla. Raunar röðuðu fjögur Norðurlandanna sér efst á þennan lista. Á eftir Íslandi komu Danmö0rk, Finnland og Noregur.

Málþingið var vel sótt og sóttvarna gætt í hvívetna

Nokkrar ástæður fyrir því að fólk verður einmana

Það eru ákveðnar aðstæður sem rjúfa félagsleg bönd. Þannig að hætta skapast á einmanaleika. Það geta verið sambandsslit, skilnaðir, makamissir, en einnig getur það haft áhrif þegar börnin fara að heiman, ef fólk missir vinnuna, hættir störfum á vinnumarkaði vegna aldurs, skiptir um starf eða flytur á nýjan stað.  Að sögn Dóru er þá mikilvægt að leita leiða til að byggja upp ný tengsl. Það eru líka ákveðnar aðstæður fólks sem geta aukið hættuna á einmanaleika.  Ef fólk hefur lítið félagslegt net, þjáist af félagsfælni, er einstæðir foreldrar eða tilheyra minnihlutahópi. Þá skiptir máli  í þessu sambandi ef fólk býr við fjárskort og upplifir fordóma frá öðrum í samfélaginu.

Einmanaleiki getur haft áhrif á lífslíkur

Erindi Dóru á málþinginu hét Einmanaleiki sem lýðheilsuógn? Og þeirri spurningu svaraði hún þannig að félagsleg sambönd hafa áhrif á heilsu, líðan og jafnvel lífslíkur fólks. Einmanaleiki vinnur gegn góðri heilsu og lífsgæðum. Þess vegna er mikilvægt að efla tengsl milli fólks í samfélaginu, vinna gegn félagslegri einangrun og skapa aðstæður sem ýta undir samneyti milli íbúa. Hún benti líka á að það þyrfti að horfa sérstaklega til viðkvæmra hópa sem eru í hættu á að einangrast, til dæmis ungt fólk sem er hvorki í skóla né vinnu, fólk af erlendu bergi brotið og eldra fólk.

Mikilvægt að leita sér aðstoðar

Dóra bendir á að fólk eigi ekki að hika við að leita sér hjálpar ef það er einmana. Ef fólk skortir sjálfstraust eða færni í samskiptum, hafa ekki orku eða heilsu til að fara út úr húsi og sé kvíðið, þurfi að byrja á því að leita lausna við þeim vanda. Hægt sé að leita til heilsugæslunnar sem getur hjálpað til við að finna aðstoð við hæfi svo sem sálfræðimeðferð eða félagsráðgjöf.

 

 

 

Ritstjórn september 29, 2020 08:17