Við eigum þessa peninga

Helgi Vilhjálmsson

Helgi Vilhjálmsson

„Hugmyndin hefur vakið mikla athygli almennings það er greinilegt að það eru margir sem hafa áhuga á að þetta verði að veruleika,“ segir Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur undir nafninu Helgi í Góu.  Helgi gengst þessa dagana fyrir undirskriftasöfnun á netinu,  okkarsjodir.is  þar sem hann spyr: „Veist þú í hvað peningarnir þínir fara? Skrifaðu undir ef þú vilt vera í lífeyrissjóði sem ætlar að fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir aldraða.“

50 íbúðir á ári

Helgi byrjaði að safna undirskriftum á milli jóla og nýárs en segist ekki hafa tekið það saman nýlega hversu margir hafa skrifað undir en undirskriftasöfnunin stendur út þennan mánuð.Samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum töldu lífeyrissjóðirnir að þeir ættu sem svaraði 2.800 milljörðum króna um áramót og jukust eignirnar um 200 milljónir frá fyrra ári. „Við sem höfum borgað í þessa sjóði eigum peningana, ekki þeir sem stjórna sjóðunum. Það eru því greiðendurnir sem eiga að ráða því í hvað peningarnir eru notaðir,“ segir hann og bætir við að tveir milljarðar á ári ættu að duga fyrir byggingu um það bil 50 lítilla íbúða.

Maður er manns gaman

„Ef  lífeyrissjóðirnir leggðu tvo milljarða á ári í að byggja fyrir ellilífeyrisþega þá væri hugsanlegt að útrýma hússnæðisskorti aldraðara á áratug eða svo,“ segir Helgi. Hann segir að það sé ekki verið að biðja um neina ölmusu þeir sem hafi greitt í sjóðina eigi peningana og eigi að fá að ráðstafa þeim að vild.Hugmyndir Helga ganga út á að byggðar verði litlar íbúðir, 27 fermetrar að stærð auk sameignar.  „Það þarf að vera hægt að stúka rúmið af, svo yrði  lítill eldhús- og setkrókur og sérbaðherbergi fyrir hverja íbúð,“ segir hann.  Í tillögunum er líka gert ráð fyrir sameiginlegu rými svo fólk geti hist og spjallað. Því maður er jú manns gaman.

Íbúð eins og Helgi hugsar sér hana

Íbúð eins og Helgi hugsar sér hana

Lengi í gerjun

Helgi segir að hugmyndin hafi verið að þróast síðustu ár. „Pabbi minn lifði í aldarfjórðung eftir sjötugt. Hann var á Grund og maður horfði beint á rúmið hans þegar maður kom í dyragættina,“ segir hann og bætir við að aðstaðan til að taka á móti gestum hafi verið slæm og klósettin fram á gangi. „Það er ekki hægt að bjóða nokkrum manni upp á það í dag að standa í röð á nóttinni ef hann þarf að komast á klósett,“ segir hann, enda eigi fólk sem hefur unnið í áratugi rétt á mannsæmandi lífi á efri árum.

Flestir gleymi því að aldraðir þurfi húsnæði þangað til þeir reyni það á eigin skinni. Þá allt í einu vakni fólk upp við vondan draum það sé ekkert húsnæði til fyrir fólk.  „Ég þekki konu sem býr ein í 150 fermetra einbýlishúsi. Hún segir mér að hana langi ekkert til að skrölta ein um húsið. Hana langar að komast eitthvert þar sem hún er innan um annað fólk. Það er bara ekki til húsnæði,“ segir Helgi.

Sparnaður fyrir þjóðfélagið

Hann bendir jafnframt á að þetta sé góð lausn fyrir allt þjóðfélagið og spari peninga. Ef að eldra fólk geti flutt úr stórum íbúðum eða  einbýlishúsunun sínum, geti yngra fólk með börn sest að í þeim. Húsin séu í grónum hverfum þar sem skólar og annað sem barnafólk þurfi á að halda sé til staðar.  Helgi segir að næstu skref verði að ræða við forsvarsmenn lífeyrissjóða og kynna málið fyrir þeim. Svo verði þeim afhentir undirskriftalistarnir þegar búið verði að sannreyna þá og ganga frá þeim.

 

Ritstjórn janúar 7, 2015 12:00