Rangar fullyrðingar um ellilífeyriskerfið

Þorsteinn Víglundsson.

„Fáir hópar hafa verið í jafn miklum forgangi í ríkisfjármálum og notið jafn ríkulegra kjarabóta á undanförnum misserum og eldri borgarar. Útgjöld til ellilífeyrisgreiðslna TR á næsta ári munu verða rúmlega 74 milljarðar króna. Aukningin frá árinu 2016, sem var síðasta gildisár eldra lífeyriskerfis, nemur 24 milljörðum króna, eða um það bið helmingsaukning. Jafnframt sýnir samantekt TR að heildartekjur lægri tekjuhelmings ellilífeyrisþega voru í febrúar 2017 um 24% hærri að jafnaði en í sama mánuði árið áður. Þessar tvær staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að lífeyriskerfið hefur verið eflt verulega. Þróunin heldur áfram í sömu átt á næsta ári. Það sýnir að metnaður okkar er að tryggja sem best kjör fyrir eldri borgara á Íslandi,“ segir Þorsteinn Víglundsson félagsmála- og jafnréttismálaráðherra í grein í Fréttablaðinu í dag. Þorsteinn heldur áfram og segir:

Þrátt fyrir þessa þróun má víða sjá stóryrtar yfirlýsingar um ellilífeyriskerfi almannatrygginga og þau áhrif sem breytingar sem gerðar voru á því um síðustu áramót hafa haft. Þær yfirlýsingar eru flestar á skjön við veruleikann, en aðrar beinlínis byggðar á röngum skilningi á ellilífeyriskerfinu.

Mig langar sérstaklega að fjalla um tvær algengar fullyrðingar:

1. Að aldrei hafi staðið til að skerða lífeyrisgreiðslur almannatrygginga vegna tekna frá lífeyrissjóðum eða atvinnutekjum.

2. Að með breytingunni hafi dregið úr ávinningi aldraðra af atvinnuþátttöku og að breytingin hafi beinst gegn tekjulægstu hópunum.

Fyrri fullyrðingin er býsna lífseig, hefur raunar verið mjög áberandi í umræðu um lífeyrismál upp á síðkastið. Hún felur í sér þá skoðun að almannatryggingar séu og hafi alltaf verið fyrsta stoð lífeyrisréttinda okkar þegar við hættum að vinna en sparnaður okkar í lífeyrissjóði komi síðan sem hrein viðbót.

Staðreyndin er hins vegar sú að greiðslur frá almannatryggingum hafa alla tíð verið hugsaðar sem tekjutrygging, þ.e. komið til viðbótar öðrum tekjum lífeyrisþega. Heildstæð löggjöf um almannatryggingar leit fyrst dagsins ljós árið 1947. Stefán Ólafsson, prófessor og fyrrum stjórnarformaður Tryggingastofnunar, gerir sögu kerfisins góð skil í bók sinn „Íslenska leiðin“ sem kom út árið 1999. Þar segir orðrétt á bls. 93: „Í reynd má segja að tekjutenging eða lágtekju­miðun lífeyris hafi verið í gildi á Íslandi öll eftirstríðsárin að undanskildu tímabilinu milli 1960 og 1972.“ Með öðrum orðum hafi kerfinu ávallt verið ætlað að tryggja hag tekjulægri lífeyrisþega. Almennur lífeyrissparnaður hafi því nær allt þetta tímabil í raun verið fyrsta stoð kerfisins.

Þetta rímar ágætlega við markmið núgildandi laga um almannatryggingar en þar segir í 1.gr. „Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem lögin taka til og þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“ Af þessu verður ekki annað ráðið en að ellilífeyriskerfinu hafi alla tíð verið ætlað að vera viðbót við aðrar tekjur lífeyrisþega, þ.m.t. lífeyristekjur, til að tryggja framfærslu.

Hvað seinni fullyrðinguna varðar, þ.e. að minni hvati sé til að afla sér tekna í nýja kerfinu en því eldra, er ágætt að skoða einfaldlega samanburðinn á því sem lífeyrisþegi fær greitt í núverandi kerfi samanborið við það eldra. Á síðunni má sjá tvær myndir sem sýna annars vegar samanburðinn fyrir einstakling sem býr einn, og hins vegar einstakling í sambúð. Í nýju kerfi skerðast tekjur eins, hvort heldur sem um er að ræða lífeyristekjur eða atvinnutekjur, en í eldra kerfi skertu greiðslur frá lífeyrissjóðum greiðslur TR nokkuð meira en atvinnutekjur vegna frítekjumarks á síðastnefndu tekjurnar.  Hægt er að lesa grein Þorsteins í Fréttablaðinu í heild hér. 

Ritstjórn september 12, 2017 09:53