Vika einmanaleikans – Vitundarvakning gegn einsemd og einmanaleika

Einmanaleiki fer vaxandi í samfélaginu sem hefur áhrif á fólk á öllum aldri og úr öllum kimum samfélagsins. Í samfélagi sem einkennist af hraða og tækni er brýnt að vekja athygli á mikilvægi mannlegra tengsla og samkenndar.

Í þessu skyni verður Vika einmanaleikans haldin í fyrsta sinn dagana 3. til 10. október. Vikunni er ætlað að vekja samfélagið til umhugsunar um vaxandi einmanaleika og um leið hvatning til okkar allra um að veita hvert öðru athygli og efla samkennd í samfélaginu. Vikan verður formlega sett í Kringlunni, blómatorginu á fyrstu hæð, föstudaginn 3. október kl. 17:00.

Á setningunni verður stutt kynning á verkefninu, Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra flytur opnunarávarp og Sr. Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, blessar verkefnið.

Erna Salóme Þorsteinsdóttur, nemanda í tónsmíðum, frumflytur lag sem hún hefur samið um einmanaleikann, sérstaklega fyrir verkefnið.

Eva Björk Harðardóttir, varaforseti KÍ verður fundarstjóri á setningunni.

Áætlað er að setningin taki um 15 – 20 mínútur.

Fulltrúar úr stýrihópi verkefnisins munu svo kynna fyrir gestum Kringlunnar þau verkfæri sem er að finna á síðunni www.vikaeinmanaleikans.is.

„Við erum spenntar að setja Vikuna formlega og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í vikunni með okkur.“ segir Jenný Jóakimsdóttir verkefnastjóri. „Við viljum vekja samfélagið til umhugsunar um hvernig við getum öll verið virkari í að mynda tengsl. Vikan er ekki bara ætluð þeim sem upplifa sig einmana, heldur okkur öllum. Hún er tækifæri til að sýna samstöðu og skapa umhverfi þar sem góð samvera og góð tengsl eru í forgrunni.“ Segir Jenný jafnframt.

„Við finnum öll fyrir einmanaleika einhvern tíma á ævinni og Viku einmanaleikans er ætlað að varpa ljósi á við getum öll verið til staðar hvert fyrir annað þegar við erum einmana.“ Segir Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur sem situr í stýrihópnum sem sérstakur ráðgjafi hópsins.

Nánar um verkefnið

Vika einmanaleikans er vitundarvakning Kvenfélagasambands Íslands gegn einsemd og einmanaleika. Verkefninu er ætlað að opna á umræðu um einmanaleika í samfélaginu, upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar, hvetja til aðgerða og efla samtakamátt í þjóðfélaginu gegn einmanaleika. Styrktaraðilar verkefnisins eru félags- og húsnæðismálaráðuneytið og Lýðheilsusjóður.

Á síðunni sem sett hefur verið upp á www.vikaeinmanaleikans.is er að finna bæði fróðleik og góðar hugmyndir til að bæta tengsl og auka samveru

  • Viðburðadagatal: Fjölmargir aðilar hafa skráð inn á síðuna fjöldann allan af fjölbreyttum viðburðum um land allt sem eru hvatning til félagslegra tengsla, samveru og spjalls. Við hvetjum alla til að kynna sér dagskrána og taka þátt.
  • Spjallborð og spjallbekkir: Hvatning til að spjalla og tengjast öðrum. Munum kynna það í Kringlunni.
  • Samverubingó: Skemmtilegt bingóspjald sem sækja má á síðunni sem hvetur fólk til tengsla og samveru.

Í stýrihóp verkefnisins eru:

  • Ása Erlingsdóttir (Samband borgfirskra kvenna)
  • Ása Steinunn Atladóttir (Kvennasamband Reykjavíkur)
  • Vilborg Eiríksdóttir (Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu)
  • Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir (Kvennasamband Kópavogs)
  • Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ er fulltrúi stjórnar í hópnum
  • Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ er verkefnastjóri verkefnisins.
  • Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og höfundur bókarinnar „Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar“, er sérstakur ráðgjafi í hópnum.