Vil verða eins og mamma

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir skrifar

Ég vil verða eins og mamma mín þegar ég verð gömul kona. Heilbrigð, smart, forvitin og ævinlega til í að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. En þegar ég var ung, vildi ég alls ekki verða eins og hún. Ég vildi ekki helga líf mitt að stórum hluta  heimilisstörfum og barnauppeldi. Mér fannst eldri konur alls ekki lifa spennandi lífi.  Flestar voru heimavinnandi húsmæður og fengu skammtað úr hnefa fé, til að kaupa mat og helstu nauðsynjar til heimilisins. Þær tóku lítinn þátt í félagslífi og stjórnmálum, enda ærinn starfi að sjá um heimili og börn. Þegar ég man fyrst eftir mér höfðum við til að mynda ekki ísskáp og höfðum varla heyrt um sjálfvirkar þvottavélar. Þetta var ekki sú veröld sem ég vildi og flestar jafnöldrur mínar og vinkonur voru sama sinnis. Ég ætlaði að velja hvernig lífi ég myndi lifa og stjórna því sjálf. Það er gott að vera ungur og vita ekki sérlega mikið um lífið og tilveruna.

Einhverra hluta vegna lítum við gjarnan á mæður okkar sem sjálfsagðar. Þær eru þarna til að hugsa um okkur, mæta öllum okkar þörfum og gera það yfirleitt.  Ég man að stundum seint á kvöldin sat mamma í rökkrinu við borðstofuborðið og var að læra. Hana langaði þessi ósköp að læra tungumál, bæði íslensku og ensku og síðast var hún í enskutímum hjá Félagsstarfi aldraða í Reykjavík.  Hún átti vinkonur sem við heimsóttum stundum  í stætó, meira að segja eina sem  bjó alla leið suður í Hafnarfirði. Þær voru „að norðan“  eins og hún.  Ég áttaði mig fljótt á því að „fyrir norðan“, var einskonar Paradís, þar sem hún ólst upp í  kjarri vöxnum dal með ömmu sinni, pabba, mömmu og systkinum. Þar sem hlaupið var á skautum á ís á veturna og farið út í skóg í lautarferðir á sumrin. Þá var breiddur út dúkur með kræsingum og  gott ef afi spilaði ekki á harmónikkuna.

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvers vegna ég hafði svona lítinn skilning á hlutskipti mömmu minnar þegar ég var unglingur. Eða hvort þetta gildir líka um önnur börn og unglinga, að þeir taki mömmu sinni sem sjálfsögðum hlut og taki ekkert sérstaklega eftir henni sem manneskju. Ég minnist þess þó þegar einhver sagði að mamma mín væri  „sætasta“ mamman í götunni þegar ég var krakki, en ég var ekkert að spá í það. En þetta var eitt af fyrstu merkjunum sem ég sá, um að aðrir sæju mömmu ekki sömu augum og ég. Ég vissi ekki margt um hennar líf eða hvaða drauma hana dreymdi þegar hún var að alast upp fyrir norðan. En þar var stéttarskipting og einhvern tíma eftir kirkjuferð, þegar borðin svignuðu undan kökum og kaffibrauði  handa kirkjugestum, fékk hún að vita að henni og hennar fjölskyldu væri ekki boðið, bara heldra fólki sveitarinnar. Mamma mín fékk strangt uppeldi, var dugleg í skóla, fór fljótt að vinna, hefur alla sína ævi staðið sína „plikt“ og aldrei skuldað neinum neitt.

Eftir því sem ég eldist finnst mér mamma verða mun skýrari fyrir mér sem persóna. Þegar ég er sjálf að eldast sé ég, að helst vil ég gera hlutina eins og hún gerir þá.  Sem uppalandi upplifði ég stundum að mér fannst ekkert að því sem ég sagði síast inní höfuðið á börnunum mínum, en svo á það kannski eftir að koma í ljós þegar þau nálgast sjötugt, að þau muna nákvæmlega  allt sem ég sagði og gerði þegar þau voru að alast upp.  Mér þótti gaman, þegar ég las nýlega ritgerð eftir unglingsstúlku, sem hafði fengið það verkefni í ensku að skrifa ritgerð um ofurhetjur.  Hún reifaði efnið aðeins í upphafi ritgerðarinnar og sagði að flestum dytti í hug Súperman eða Batman þegar rætt væri um ofurhetjur, en hún ætlaði að skrifa um  mömmu sína. Mamma hennar eins og aðrar mæður væri nefnilega ofurhetja.

(Endurbirt frá 2019)

Erna Indriðadóttir júlí 15, 2019 09:57