Vildi losna undan kommúnisma og kínverskum hefðum

 

Ég fæddist munaðarlaus. Ekki vegna þess að foreldrar mínir væru látnir, nei, þau voru bráðlifandi, bæði tvö. En þau gáfu mig vandalausum.

Auðvitað man ég ekkert eftir fyrstu tveimur æviárum mínum. Enginn í minni fjölskyldu gerir það. Strax nýfædd var ég gefin bændahjónum sem bjuggu í fjallaþorpi einhvers  staðar í héraðinu okkar við Austur—Kínahafið. Mörgum árum seinna var mér sagt að móðir mín hefði ekki getað alið mig upp vegna þess að faðir minn var fangi í vinnubúðum á þessum tíma. Þannig að ég bjó í þessu fjallaþorpi fyrstu tvö æviárin. Eina minningin sem ég á um það er fölsk minning, saga sem afi minn og amma sögðu mér þegar þau rifjuðu upp daginn sem barnlausu hjónin frá fjöllunum komu með mig, óvelkomna barnið og færðu þeim.

Svona hefst sagan Einu sinni var í austri, uppvaxtarsaga kínverska rithöfundarins Xiaolu Guo, sem kom út á síðasta ári í þýðingu Ingunnar Snædal. Útgefandi er bókaforlagið Angústúra Vesturbænum, sem hefur það markmið  að opna glugga út í heim með útgáfu spennandi og fallegra bóka frá öllum heimshornum í vönduðum þýðingum. Hún hefur gefið út bækur frá Afríku, Suður-Kóreu og Kína, auk bóka frá ýmsum öðrum löndum.

Uppvaxtarsaga Xiaolu er okkur hér á Íslandi framandi og þess vegna forvitnileg, en fram að skólaaldri býr hún við sára fátækt hjá föðurforeldrum sínum í litlu sjávarþorpi, sem heitir Shitang. Dag einn birtast svo foreldrar hennar og sækja hana. Hún á að flytjast til þeirra í borginni Wenling og hefja skólagöngu. Hún nýtur lítillar hlýju á heimili foreldra sinna, nær engu sambandi við móður sína, verður fyrir einelti í skólanum og er heilsuveil. Það er lítið gert í því, enda er hún stúlka. En það þykir ekki gott þegar hún fellur í stjórnmálafræði 12 ára gömul. Hún lýsir prófinu í bókinni og við grípum niður í textann þar.

Hver eru hin fjögur markmið nútímavæðingarinnar sem nást eiga fyrir árið 2000? Lýsið þeim nákvæmlega.

Ég starði á blaðið fyrir framan mig og reyndi að muna hvað hafði staðið í námsbókinni. Síðan skrifaði ég:

Hin fjögur markmið nútímavæðingarinnar sem nást eiga fyrir árið 2000 eru í 1) landbúnaði, 2) iðnaði, 3. Tækni og vísindum, og 4)….

Ég mundi ekki síðasta atriðið sem við áttum að vera að nútímavæða. Ég tók fast um pennann og braut heilann ákalega. Svitinn úr lófanum á mér var þegar farinn að bletta blaðið. Ó, hvað áttum við að vera búin að nútímavæða fyrir árið 2000?

Söngtifurnar skræktu hástöfum í öspunum fyrir utan gluggann, kennarinn gekk fram og aftur um stofuna og fylgdist með okkur. Hinir nemendurnir voru niðursokknir í prófúrlausnir sínar. Ég var þyrst og mig svimaði. Ég las svörin mín aftur:

1) landbúnaði, 2) iðnaði, 3) tækni og vísindum…. Þetta ætti að duga. Hvaða fleiri markmiðum þurftum við að ná? Kjarnorkuvopnum? Geimferjum? Vinna sigur á Bandaríkjamönnum?

Saga fjölskyldu Xiaolu er athyglisverð, og ferill foreldranna sérstakur séður frá sjónarhóli vestrænna lesenda. Umhverfið og pólitíkin í Kína á ofanverðri 20 öld er að sjálfsögðu allt öðruvísi en við eigum að venjast. Xiaolu sýnir strax sem barn listræna hæfileika og fær viðurkenningar fyrir ljóðaskrif. En hana dreymir um að losna undan kínverskri hefð og kommúnískum hefðum. Komast burt.  Hún kemst í nám í kvikmyndagerðarlist í Háskólanum í Peking. Þegar náminu lýkur fer hún að leita fyrir sér sem handritshöfundur. Handritin sem komu þjótandi út úr tölvunni hennar skullu hins vegar á „þeim mikla vegg sem heitir Ritskoðunarskrifstofa kínverskrar kvikmyndagerðar“, eins og segir í bókinni og þar eru birt nokkur dæmi úr athugasemdum skrifstofunnar, þar á meðal þessi þrjú.

1. Af hverju búa ungu elskendurnir í sama húsi án þess að giftast nokkurn tíma? Þótt slík óviðeigandi hegðun eigi sér stað í raunveruleikanum ætti ekki að ýta undir hana í kvikmyndum. Við mælumst eindregið til þess að bætt verði við atriði þar sem ungu elskendurnir sýna ábyrgð og gifta sig.   2. Parið býr í gamaldags múrsteinshúsi án salernis. Eina nóttina fer stúlkan á fætur og bölvar húsinu fyrir þennan skort á hreinlætisaðstöðu. En slík hús eru stórkostlegt dæmi um hefðbundna, kínverska hönnun. Engin persóna má gera lítið úr þessum gimsteini kínverskrar arfleifðar okkar. Þetta myndi aðeins skapa neiðkvæðar tilfinningar hjá áhorfendum. Þessu atriði verður að eyða.  3. Svo virðist sem stúlkan geri fátt annað en að læra ensku í frítíma sínum, hún tekur ekki þátt í neinu öðru verðugu viðfangsefni. Þetta skapar þá tilfinningu að þessi unga stúlka hafi aðeins áhuga á hinum vestræna heimi. Þú verður að bæta við atriðum sem sýna hana taka þátt í kínverskum tómstundum sem hæfa venjulegu fólki.

Sagan er vel þýdd og afar áhugaverð fyrir fólk sem hefur áhuga á fjarlægum löndum og menningu  þeirra.  Hún lýsir sögu sterkrar konu sem þurfti að sjá um sig sjálf nánast frá fæðingu. Xiaolu hefur gefið út nokkrar bækur sem eru skrifaðar á ensku og hafa hlotið góðar viðtökur. Það er ástæða til að mæla líka með fleiri bókum í þessari sömu ritröð hjá Angústúru, svo sem bókinni Allt sundrast eftir afríska höfundinn Chinua Achebe og fleiri.

Ritstjórn nóvember 30, 2018 11:12