Vilja efla eftirlit með hjúkrunarheimilum

Landssamband eldri borgara hélt landsfund í vikunni. Meðal þess sem rætt var á fundinum voru heilbrigðismál. Eldra fólk hefur áhyggjur af því að því að ekki eru næg pláss á hjúkrunarheimilum. Í ályktun segir: „Landsfundurinn vill að Framkvæmdasjóður aldraðra verði efldur og geti staðið við kröfur um fjölgun hjúkrunarrýma sem taki mið af fjölgun aldraðra á næstu árum.“ Ástandið fari versnandi. Ríki og sveitarfélög verði að bregðast við vandanum nú þegar með gerð áætlunar um fjölgun hjúkrunarrýma til að mæta brýnni þörf á næstu árum. „Fólki standi jafnframt til boða almenn dvalarrými t.d. á hjúkrunarheimilum eða sérstökum sambýlum. Landsfundurinn skorar á stjórnvöld að koma sem fyrst á samþættingu hjúkrunar og heimaþjónustu um land allt. Efla þarf dagdvöl og fjölga plássum í endurhæfingu aldraðra,“ segja eldri borgarar.

Hugsanlegt stjórnarskrárbrot

Þá vilja menn að eftirlit með hjúkrunarheimilum verði markvisst og fylgt verði viðurkenndum reglum og stöðlum um hjúkrun aldraðra.“Gerðir verði þjónustusamningar við öll hjúkrunarheimili. Landsfundurinn ítrekar þá kröfu að greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum verði endurskoðað. Fólk haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu þegar það flytur inn á hjúkrunarheimili, greiði húsaleigu, fæði og aðra grunnþjónustu. Ríki eða sveitarfélög greiði fyrir hjúkrun og umönnunarþáttinn og vasapeningar verði aflagðir. Miklar líkur eru á því að með núverandi fyrirkomulagi sé um stjórnarskrárbrot að ræða.

Vilja komast til læknis

Landsfundurinn beinir því til heilbrigðisráðherra að nauðsynlegt er að efla heilsugæslu og aðra grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Fjölga þarf heimilislæknum verulega svo allir eigi völ á heimilislækni og hafi að þeim greiðan aðgang. Bið eftir læknaviðtölum er óheyrilega löng.  Efla þarf framboð á heilsurækt fyrir aldraða bæði á hjúkrunarheimilum og fyrir þá sem búa á eigin heimili. Lækka þarf komugjöld til lækna sem hafa hækkað verulega undanfarin ár.

 

 

 

Ritstjórn maí 8, 2015 11:05