Margrét Sigríður Sölvadóttir skrifar grein í Stundina í dag, um málefni yngri eldri borgara, en hún telst einmitt til þess hóps sjálf. Í greininni segir meðal annars:
Þegar málefni eldriborgara eru rædd í fjölmiðlum, er alltaf fjallað um eldra fólk á öldrunarheimilum, eða þá sem búa einir, eru einmanna eða þurfa á heimahjúkrun að halda. Jafnvel það eldrafólk sem liggur inná sjúkrahúsum og er fyrir, svokallaðan „fráflæðisvandi“. Það er vissulega þarft verk að vekja athygli á þessum hópi þó lítið hafi sú umfjöllun haft áhrif til úrbóta hjá hinu opinbera. En þessi hópur er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og er allt annar hópur en sá sem er að berjast fyrir því að fá kjör sýn leiðrétt og þann rétt að fá að taka þátt í atvinnu og þjóðlífi almennt eins og allir aðrir borgarar þessa lands burt séð frá aldri.
Það breytist ekkert hjá fólki við að verða 67 ára, annað en að þá er það einum degi eldra. Það er ennþá fært um að fara til vinnu og það er líka jafnfært um að fara til vinnu þó að 10 ár bætist þar við, ef um fullfrískt fólk er að ræða. Ef yngra fólk en 67 ára missir hæfni vegna sjúkdóma til að halda áfram vinnu, þá eru þeir oftast nefndir „Öryrkjar“. Þessi hópur hefur ekkert sameiginlegt með fullfrísku fólki sem er orðið 67 ára og eldra, en samt eru þessir tveir hópar iðulega nefndir í einni og sömu andrá. Sá hópur sem er 67 ára eða 77 ára, er jafnvel heilbrigðari en margt yngra fólk. Þessi hópur yngri eldri borgara heldur áfram að lifa lífinu eins og það gerði áður en það náði þeim aldri að vera kallaðir eldri borgarar.
Þetta er sama fólkið með sama lífstíl og áður, iðkar heilsurækt, útivist og sund, fólk sem er með heilann í lagi og hefur sömu hæfni til vinnu og áður. Samt er það rænt tækifærum til vinnu og afkomu og þar með tækifærum til að halda áfram að lifa eins og áður aðeins við það eitt að fáein ár hafa bæst við.
Það eru því miður miklir fordómar í þjóðfélaginu gagnvart eldra fólki enda eru alltaf sýndar myndir á skjánum í fjölmiðlum af háöldruðu fólki á elliheimilum sem varla getur gengið með göngugrind, þegar fjallað er um málefni eldri kynslóðarinnar. Ég er ekki að gera grín af fólki á elliheimilum, móðir mín náði háum aldri, vantaði eitt ár í 100 og var það að þakka góðri hjúkrun á dvalarheimili. Það var 30 ára aldursmunur á okkur og fékk ég stimpilinn eldri borgari eins og hún þó ég væri þá í fullu fjöri og sé það enn 9 árum síðar.
Á þessum árum hef ég búið erlendis, kennt íslensku og ensku unnið sem fasteignasali á Íslandi og erlendis, tekið þátt í stjórnun félaga og verið þar í forsæti og allt þetta eftir að ég var stimpluð eldriborgari. En þetta gerðist flest erlendis þar sem fólki eru engar hömlur settar við að taka þátt í lífi og starfi fyrir aldursakir eins og á Íslandi
Margrét kemur víða við í greininni og segir meðal annars frá því að hún hafi unnið á hóteli á Íslandi fyrir mörgum árum og þá hafi öllum konum sem voru orðnar 50 ára og eldri verið sagt upp. Enn eigi konur erfitt með að fá vinnu þegar aldurinn færist yfir. Lögum samkvæmt þurfi fólk að hætta starfi hjá því opinbera þegar það verði 70 ára. Hún spyr hvort það sé ekki augljóst að þar með megi upphæð ellilífeyris eða eftirlauna sem koma í stað atvinnutekna, ekki vera lægri en lágmarkslaun í landinu. Hún gagnrýnir skerðinguna í almannatryggingakerfinu, enda hafi verið lagt upp með að lífeyrissjóðakerfið ætti að vera viðbót við ellilaunin. Síðan segir hún.
Við þessi hópur sem ég vil kalla „yngri eldri borgara“ erum aðeins að fara fram á að fá okkar ellilaun óskert. Mörg höfum við mikla þekkingu og reynslu og gætum auðveldlega miðlað af henni ef við fengum tækifæri til þess. Við erum kennarar, ráðgjafar, fólk í fullu fjöri með hestaheilsu með allskonar menntun. Ef við viljum halda námskeið og deila með þeim sem vilja læra af okkur þá er lífsviðurværi okkar „ellilaunin“ skert. Við verðum að fara í feluleik stofna fyrirtæki og fara á launaskrá hjá okkur sjálfum til að fá þennan 100.000 krónu frítekju frádrátt því hann er aðeins virkur af atvinnutekjum.
Sem sagt ef þú vinnur hjá sjálfum þér við að deila þinni visku til annarra þá er ekkert frítekjumark og enginn vill lenda í bakreikningum hjá Tryggingastofnun ríkisins, því það gæti leitt af sér að ellilaunin væru tekin upp í skuldina næstu árin. Það er undarlegt að ríkisstjórn skuli standa fyrir slíku broti á mannréttindum og vona ég að þeir verði að svara fyrir það í réttarsal með Gráa Hernum sem stendur í málaferlum við ríkið.
Talið er að ríkið VERÐI AF 38 milljörðum króna ef hætt verður að skerða laun eldri borgara, fullfrískra einstaklinga sem hafa verið lokaðir inni í fátækragildru, útilokaðir frá lífsgæðum einungis vegna þess að þeir urðu eldri. Ekki vegna þess að þeir séu ófærir til vinnu og ekki vegna þess að þeir séu ekki heilsuhraustir. Hópur yngri eldri borgara vill halda áfram að lifa lífinu og njóta með öðrum þegnum þjóðfélagsins, enda fólk sem er jafn hraust og hefur sömu getu og aðrir. Ríkisstjórnin setur þessi fáránlegu lög til þess að afla fé í peningakassa ríkisins, en það er ekki mál eldri borgara hvað ríkið VERÐUR AF peningum, það er starf ríkisstjórnarinnar að finna aðra leið til að afla fé en að taka af þeim sem minnst hafa.
Margrét lýkur svo greininni á þessum orðum.
Nú líður að kosningum og loforðum frá stjórnmálaflokkum fara að hrynja yfir eldriborgara. Smalað verður saman eldriborgurum af dvalarheimilum og þeim sagt hvar þeir eigi nú að setja X-ið. Flestir yngri eldri borgarar sem fylgjast með stjórnmálunum vita að ekkert er að marka þessi loforð. Það var nú ekki lítið sem Katrín Jakobsdóttir lofaði eldri borgurum fyrir síðustu kosningar en efndi ekki. Bjarni Benediktsson undirritaði meira segja bréf sitt með glæsilegum loforðum til eldriborgara þar sem taka átti af allar skerðingar engar voru efndirnar. Ekki stóð á loforðum frá öðrum flokkum heldur. Flokkur Fólksins hefur komið með tillögur til bóta fyrir eldriborgara en því miður ekki fengið nægilegar undirtektir annarra þingmanna.
Nei við erum löngu búin að læra að treysta ekki alþingismönnum í hvaða flokki sem þeir eru. Við „Yngri Eldri Borgarar“ bindum vonir okkar við lög og rétt og sanngjarna dómara.
Lesa má greinina í heild sinni á Stundinni. Sjá hér.