„Ég stökk af stað út í óvissuna og sé ekki eftir því,“ segir leikkonan Kristbjörg Kjeld en hún fór til Bali á vegum ferðaskrifstofunnar Farvel í fyrrahaust. Kristbjörg segir að ferðina hafi borið nokkuð brátt að. Nokkrar vin- og kunningjakonur hennar voru á leið til Bali og þær hvöttu hana til að koma með því það var eitt pláss laust í ferðinni. „Áður en ég fór, var þetta langa flug að vefjast fyrir mér en svo hugsaði ég með sjálfri mér; fjandinn sjálfur og dreif mig af stað og það gekk ljómandi vel. Við flugum til Amsterdam og þaðan var rúmlega tólf tíma næturflug til Balí með einni millilendingu á leiðinni,“ segir hún.
Dásamlegur staður
„Bali er alveg dásamlegur staður. Við fórum til bogarinnar Úbúd og vorum þar í nokkara daga. Það er einhver atmósfera þarna sem er erfitt að lýsa. Það er dásamleg kyrrð og blíða. Það er einhver yndisleiki í loftinu þarna. Fólkið sem maður hittir er vingjarnlegt og hjálpsamt,“ segir Kristbjörg. Hótelið sem hópurinn dvaldi á í Úbúd er við aðra af aðalgötum borgarinnar þar sem úir og grúir af veitingahúsum og smáverslunum. Þaðan er aðeins tíu mínútna gangur að markaðnum og konungshöllinni. Hótelgarðurinn er friðsæll með tveimur sundlaugum og ef farið er hinum megin út úr honum kemur maður fljótt á gönguleiðir sem liggja um hrísgrjónaakra og skógi vaxin gljúfur með flúðum og fossum. „Það er margt sem er gaman að skoða þarna, bæði landslagið og svo eru þeir listfengir. Þeir skera mikið út í tré. Þetta eru afar fallegir hlutir sem gaman er að skoða. Svo eru markaðir á hverju strái og þar er prúttað. Ég er nú ekki mikill prúttari í eðli mínu en auðvitað reyndi maður að gera sitt besta í prúttinu.“
Gott loftslag
Að lokinni dvölinni í Úbúd hélt hópurinn til strandbæjarins Sanúr. Þar var búið á hóteli sem var í um 150 metra fjarlægð frá ströndinni. Þaðan var hægt að fara á bátum út í smærri eyjar, skoða fiska- og kórallífið gegnum glerbotn eða stunda köfun.
Frá Sanúr er ekki nema tíu mínútna ferð með leigubíl til Denpasar, höfuðborgar eyjarinnar. Bali er rétt sunnan við miðbaug og veðurfarið því næstum eins allan ársins hring, og aldrei neinir stormar eða stórrigningar heldur sólskin og 26-31 stig upp á hvern einasta dag. „Loftslagið þarna var gott. Frekar heitt en mildur andvari frá sjónum,“ segir Kristbjörg. Hún segir að allur viðgjörningur hafi verið góður. „Maturinn var ekkert mikið frábrugðinn því sem við eigum að venjast. Það var mikið af allskonar ávöxtum og grænmeti.“
Langar til Ástralíu
„Svo verð ég eiginlega að minnast á hann Örnólf Árnason fararstjóra. Hann er alveg rosalega góður fararstjóri. Hann þekkir vel til á Bali þekkir sögu eyjarinnar og hefur hann hæfileika að setja hlutina í samhengi svo maður skilur þá. Svo á hann gott með að umgangast fólk.“ Þegar Kristbjörg er spurð hvort hana myndi langa til að fara aftur til Bali stendur ekki á svari. „Mig langar aftur, það er ekki spurning. Ef ég hefði haft meiri tíma til að undibúa mig fyrir ferðina í fyrra hefði ég farið til Ástralíu í leiðinni. Mig langar þangað því þar á ég góða vini sem mig langar til að heimsækja og ég vona að sá draumur rætist innan skamms.“