Fólki sem er 55 ára og eldra hefur fækkað um 236 á skrá Vinnumálastofnunar það sem af er ári. Atvinnulausir 55 ára og eldri voru 870 í janúar en 634 í september. Þegar hópurinn er greindur nánar þá voru 388, 55 til 59 ára atvinnulausir í janúar en hafði fækkað í 268 í september. Svipuð fækkun var í hópi 60-64 ára þeir voru 309 í janúar en 230 í september. Í hópnum 65-69 ára voru 173 á skránni í janúar en 136 í september. Þrátt fyrir að eldra atvinnulausu fólki hafi fækkað hefur hlutfall þeirra af heildarfjölda atvinnulausra hækkað. Heildarfjöldi atvinnulausra í janúar var 5261. Hlutfall 55 ára og eldri af þeim hópi var 16,5 prósent. Í september hafði atvinnulausum fækkað í 3.580 en hlutfall atvinnulausra 55 ára og eldri hafði aukist í 17,7 prósent. Langtímaatvinnuleysi meðal eldra fólks er algengara en meðal þeirra sem yngri eru. Þeir sem teljast langtímatvinnulausir eru þeir sem hafa verið á skrá Vinnumálastofnunar í sex mánuði eða lengur. Í september hafði um 60 prósent hópsins verið á skránni í hálft ár eða meira, þar af höfðu 40 prósent verið atvinnulausir í ár eða lengur. Rúm fjörutíu prósent 55 ára og eldri eru með grunnskólamenntun en rúmlega 20 prósent eru með háskólamenntun. Háskólamenntuðum körlum virðist ganga ver að fá vinnu en háskólamenntuðum konum. Í hópi atvinnulausra 55 ára og eldri, er hlutfall háskólamenntaðra karla 25 prósent en hlutfall háskólamenntaðra kvenna 19 prósent. Hlutfall karla í aldurhópnum sem er með grunnskólamenntun er 32 prósent en kvenna 50 prósent.
Eldra fólk sem missir vinnuna er oft atvinnulaust í langan tíma.