Eru eldri borgarar búnir að segja upp störfum?

Þingheimur samþykkti ný lög um almannatryggingar fyrir kosningar. En hvað þýða þau fyrir eldri borgara?

Þingheimur samþykkti ný lög um almannatryggingar fyrir kosningar. En hvað þýða þau fyrir eldri borgara?

 Arnór G. Ragnarsson skrifar

Um áramótin verða breytingar á lögum um almannatryggingar í þá veru að nú mega eldri borgarar ekki lengur vinna fyrir meira en 25 þúsund kr. á mánuði án þess að lífeyrir þeirra sé skertur. Við þessu er auðvitað bara eitt svar, þ.e. að segja upp störfum. Það kemur þá í ljós hvort fyrirtæki landsins þurfa yfir höfuð að hafa þessa starfsmenn sem oft eru langbestu starfskraftar sem hægt er að fá. Þeir mæta betur, eru samviskusamari og sjaldnar frá vegna veikinda. Þeir eldri borgarar sem ekki hafa nú þegar kynnt sér breytingarnar eru hvattir til að fara inn á ágætan vef Tryggingastofnunar en þar má finna tvær reiknivélar sem hægt er að fylla út bæði hvernig núverandi lög virka og svo hvernig lögin sem taka gildi um áramótin fara með vinnandi eldri borgara.

Halldór í Holti skammaði Hauk

Halldór Gunnarsson skrifar góða grein í Morgunblaðið 18. nóvember sl. þar sem hann hundskammar Hauk Ingibergsson, formann Landssambands eldri borgara. Ég hefi ekki séð fréttabréf það sem Halldór vitnar í en svo er að sjá í grein Halldórs að Haukur sé að verja gjörðir þingmanna sem nota bene samþykktu allir sem einn nýju lögin sem byrja að virka um áramótin. Allir sem einn er kannski ofsagt vegna þess að þingmönnum þótti málið ekki merkilegra en það að það vantaði þriðjung þingmanna við atkvæðagreiðsluna.Við Hauk Ingibergsson vil ég segja þetta. Það er ekki hægt að vera beggja vinur og báðum trúr.

 Hugur og hönd verða að vinna saman

Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, sem haft hefur manna hæst í að verja nýju lögin, þarf að muna að hugur og hönd verða að vinna saman. Ég leyfi mér að vitna í þingræðu sem Bjarni hélt 7. nóvember 2012.„Það er kominn tími til þess að tala í þinginu um atlögu ríkisstjórnarinnar að kjörum eldri borgara í landinu. Það birtist ekki bara í því sem ég hef hér rakið heldur birtist  það í svo fjölmörgu öðru, hvernig verðbólgan hefur étið upp kaupmátt bóta eldri borgara, hvernig eldri  borgarar voru hraktir af vinnumarkaði með harkalegum tekjutengingum þeirra árið 2009. Hvað sagði í frumvarpinu sjálfu um þá aðgerð? Þar var sagt hreint út: Það er annað fólk sem þarf þessi störf.Við í Sjálfstæðisflokknum tölum fyrir stefnu sem gengur út á það að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, að taka ekki möguleikana af fólki til að bjarga sér. Enginn sem er yfir 70 ára aldri er að störfum í dag án þess að hafa af því ánægju, sem er kannski ekki síður mikilvægt, og hafa fyrir það þörf. Ef það er einhver sem ætti að skilja þarfir þeirra sem eru orðnir 70 ára eða eldri er það forsætisráðherrann sem skipar einmitt þann hóp.“

 Frítekjumark verði 150 þúsund

Það er skýlaus krafa eldri borgara að gengið verði strax í það að þeir þurfi ekki að lepja dauðann úr skel. Mín áhersluatriði eru þrjú: Frítekjumark vegna vinnu verði 150 þúsund á mánuði. Frítekjumark vegna lífeyris verði 150 þúsund á mánuði. Hækkanir á ellilífeyri verði ákveðnar með sama hætti og hjá bæjarfulltrúum landsins, þ.e. þegar þingmenn fá 45% hækkun skili hún sér einnig til eldri borgara. Talandi um þingmenn. Getur það verið að það sé rétt sem kom fram hjá einhverjum fjölmiðlanna á dögunum að íslenskir þingmenn séu að verða hæst launuðu þingmenn norðan Alpafjalla og þótt víðar væri farið? Að lokum. Í grein Halldórs í Holti kemur fram að Haukur Ingibergsson, formaður LEB, segir að það sé áætlað að 11 milljarða kr. hærri fjárhæð renni til almannatrygginga eldri borgara árið 2017. Það er trúlega lítið fjallað um það í fréttabréfi formannsins að þriðjungur þessarar upphæðar kemur til baka 2018 í formi skatta.

Grein Arnórs birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember og er birt hér með leyfi höfundar.

 

Ritstjórn nóvember 25, 2016 12:08