Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherrra ætlar að leggja fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði á vorþingi.  Verði frumvarpið samþykkt mega fyrirtæki og stofnanir ekki mismuna fólki  á grundvelli aldurs, kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífs­skoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta.

67 prósent eldra fólks á vinnumarkaði

Skýrsla nefndar, sem ráðherrann skipaði,  um mótun tillögu að vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála á Íslandi  kom út í júní. Í skýrslunni er að finna tölur um atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 55 til 74 ára. Þar kemur fram að atvinnuþátttaka þessa hóps var um 67 prósent á síðasta ári, samanborið við um 80 prósent í öðrum aldurshópum. Í skýrslunni segir: „Ljóst er að aldurssamsetning þeirra sem búa hér á landi er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Þá gefur bætt heilsufar, auknar ævilíkur og vilji til virkrar þátttöku í atvinnulífinu möguleika á aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks. Í því sambandi þarf að tryggja gott starfsumhverfi til lengri tíma litið, bæði í því skyni að stuðla að betri líðan og heilsu starfsmanna sem og að auka vilja og möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína. Er þar undirstrikað mikilvægi þess að innlendur vinnumarkaður geti sem lengst notið þekkingar og færni þeirra. Er í því sambandi meðal annars átt við möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri eða seinni stigum starfsævinnar. Aðstæður einstaklinga eru misjafnar og því mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar.“

Frumvarpið lengi í smíðum

Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði hefur verið nokkuð lengi i smíðum í félagsmálaráðuneytinu.  Það átti að leggja frumvarpið fram á síðasta þingi en ekki tókst að ljúka vinnu við það þá. Eygló sagði  í fyrravor  að hún stefndi að því að leggja frumvarpið fram á haustþingi en samkvæmt þingmálamálaskrá ríkisstjórnarinnar verður það ekki lagt fram fyrr en á vorþinginu. Ráðherrann hefur sagt að hann telji að það séu vísbendingar um að fólki hér á land sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs. „Það er ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á að það verði innleitt hér í lög bann við mismunun á meðal annars á grundvelli aldurs,“ sagði Eygló á ráðstefnu sem haldin var um sveigjanleg starfslok í nóvember í fyrra.

Ritstjórn september 23, 2015 10:56