Ótímabærum dauðsföllum vegna hjartasjúkdóma fækkaði um 80% á árunum 1981 til 2006. „Meginástæðan fyrir því er lífsstílsbreyting“, segir Vilmundur Guðnason forstöðulæknir hjá Hjartavernd. Hann segir að menn hafi minnkað fituneyslu, hætt að reykja og farið að hreyfa sig. Umræða um mettaða fitu hefur verið mikil undanfarin ár, bæði á Íslandi og annars staðar og margir vísindamenn halda því nú fram að mettuð fita sé ekki jafn skaðleg fyrir líkamann og haldið var.
Kólesterólið var aðal orsakavaldurinn
Vilmundur segir að rannsóknin sem gerð var, byggist á gögnum frá Hagstofunni, Hjartavernd og sjúkrahúsunum. Við hana var notað breskt rannsóknamódel, sem gerði það kleift að meta hversu mikil áhrif hver og einn þáttur hafði á þá fækkun sem varð á dauðsföllum vegna hjartasjúkdóma á umræddu tímabili. Vilmundur segir að módelið hafi sýnt að breyting á lækkun kólesteróls í blóði manna hafi vegið þar allra þyngst. Menn hafi til dæmis árið 1980, innibyrt 238 kíló af nýmjólk og mjólkurvörum á mann á ári, en 26 árum síðar, árið 2006 var neyslan komin niður í 64 kíló á mann. Framhjá því verði ekki horft, en aðrir þættir hafi einnig skipt máli, eins og það að reykingar minnkuðu, blóðþrýstingur lækkaði og menn fóru að hreyfa sig meira.
Umræðan um mataræði líkist trúarbragðadeilum
En telur Vilmundur þá að svokallað lágkolvetnafæði með mikilli mettaðri fitu, geti verið skaðlegt fyrir fólk. „Ef menn borða eingöngu mettaðar fitusýrur,“ segir Vilmundur „ getur það ekki endað nema á einn veg. Kolesteról hækkar og það eykur hættu á hjartasjúkdómum. En það er ekkert á móti því að fá sér smjör á brauðið eða nýmjólk útí kaffið, menn þurfa bara að gæta hófs“. Vilmundi finnst umræðan um mataræði stundum líkjast trúarbragðadeilum og telur að vandamálið í mataræði fólks í dag, sé fyrst og fremst ofgnóttin og ruslfæði ýmiss konar. Þetta valdi því að offita og sykursýki fari vaxandi í hinum vestræna heimi. En um almennt mataræði segir hann einfaldlega „Fólk á að borða balanseraðan mat“.